Mynd/Almannavarnir Rafmagnslaust er víða á landinu, aðallega á Suðurlandi og færist vestur um. Línur eru að falla og samsláttur á nokkrum stöðum. Mynd að morgni 14. feb.
Fréttir 14. febrúar 2020

Ofsaveður gengur yfir landið

TB

Austan aftakaveður geisar nú um landið. Ríkislögreglustjóri lýsti yfir óvissustigi almannavarna fyrir allt landið í gær. Sú ákvörðunin var tekin í samráði við alla lögreglustjóra landsins og í samræmi við veðurspá Veðurstofu Íslands, sem spáði aftakaveðri um allt land. 

Á vef Almannavarna segir að veðurspár virðist vera að ganga eftir. Veðrið gengur nú yfir Suðurland og Vestmannaeyjar. Rauðar veðurviðvaranir eru í gildi á höfuðborgarsvæðinu, Suðurlandi, Suðurnesjum, Faxaflóa og Suð-Austurlandi. Björgunarsveitir Landsbjargar hafa verið að störfum þar, þá hafa tilkynningar um fok borist frá Kjalarnesi og höfuðborgarsvæðinu.

Allar leiðir út frá höfuðborgarsvæðinu eru lokaðar og má sjá nánari upplýsingar um lokanir á vef Vegagerðarinnar.

Rafmagn slær út

Rafmagnsbilanir hafa verið á nokkrum stöðum, m.a. undir Eyjafjöllum, á Rangárvöllum, í Vík og Mýrdal, í Biskupstungum, í Hvalfirði og Húsafelli. Verið er að ræsa varaafl í Vestmannaeyjum, segir á vef Almannavarna. 

Rafmagnslaust er víða á landinu, aðallega á Suðurlandi og færist vestur um. Línur hafa fallið og samsláttur er á nokkrum stöðum. Rafmagnslína féll á bíl á Hvolsvelli en engin slys urðu á fólki. Víða eru truflanir á farsímakerfinu.

Hugum að skepnum

Matvælastofnun sendi út tilkynningu í gær þar sem dýraeigendur eru minntir á að huga að dýrum sínum í óveðrinu.

„Færa þarf dýr á örugg svæði ef einhver hætta er á að þau geti hrakist undan óveðrinu fram af klettum eða í ár, vötn, sjó eða aðra hættu. Gæta þarf sérstaklega að því að fjarlægja eða festa alla lausa hluti í kringum dýrin, því fljúgandi hlutir geta bæði valdið ofsahræðslu og beinum skaða.“

Mast bendir á að mjög varasamt sé að flytja hestakerrur í miklu hvassviðri. Stofnunin hvetur dýraeigendur til að huga eins fljótt og auðið er að dýrum sínum um leið og veður lægir og talið er óhætt að vera á ferli. 

Erlent