Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Moldin er mikilvæg
Fréttir 4. mars 2015

Moldin er mikilvæg

Höfundur: Vilmundur Hansen

Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) tileinka árið 2015 moldinni og hvetur aðildarþjóðir sínar til að stuðla að vitundarvakningu á mikilvægi jarðvegsverndar.

Bæði hvað varðar fæðuöryggi og leiðir til að draga úr loftslagsbreytingum og áhrifum þeirra.
Flestir vita að aðgengi að ómenguðum og frjósömum jarðvegi fyrir landbúnað skiptir meginmáli fyrir fæðuframboð jarðarbúa. Þórunn Pétursdóttir landgræðsluvistfræðingur hjá Landgræðslu Íslands segir að það séu þó færri sem geri sér grein fyrir mikilvægi jarðvegsins innan vistkerfa og enn færri sem átta sig á því hversu marga áratugi eða árhundruð það tekur að byggja upp frjósaman jarðveg ef hann hefur einu sinni glatast.

Mikilvægi moldar í vistkerfinu

„Í mold lifir aragrúi smálífvera sem gegna lykilhlutverki við að keyra niðurbrotsferla náttúrunnar og koma næringarefnum á ný á form sem plönturætur geta tekið upp og nýtt sér. Moldin safnar, hreinsar og miðlar vatni og ásamt gróðrinum sem vex í henni bætir hún gæði andrúmsloftsins til dæmis með því að binda kolefni og losa súrefni. Moldin er þannig ein af lykilstoðum grænna hagkerfa sem byggja á nýtingu náttúruauðlinda.

En moldin sér ekki aðeins til þess að við getum dregið andann, drukkið hreint vatn og fætt okkur og klætt. Hún er líka okkar helsta byggingarefni, bæði til húsagerðar og annarra framkvæmda en einnig til listsköpunar. Jarðvegurinn, moldin, er gríðarlega fjölbreytt efni. Hann er grófur og fínn, leirkenndur og sendinn, nýr og þroskaður, frjósamur og næringarsnauður, þurr og blautur, þolinn og rofgjarn og allt þar á milli. Við þurfum að efla skilning okkar á þessum fjölbreytileika og fara að umgangast moldina sem eina af lykilauðlindum okkar, ekki síður en vatnið,“ segir Þórunn.

Illvígt alþjóðlegt umhverfisvandamál

Þórunn segir að jarðvegseyðing sé illvígt alþjóðlegt umhverfisvandamál sem við Íslendingar höfum ekki farið varhluta af.

„Vegna ósjálfbærrar landnýtingar í viðkvæmri náttúru höfum við í gegnum aldirnar tapað fleiri þúsundum tonna af frjósamri mold úr úthagavistkerfum okkar. Geta uppblásins úthaga til að næra gróður, miðla vatni og hreinsa loft er mjög takmörkuð og hann ber litla sem enga búfjárbeit eða aukið álag af völdum ferðamanna. Síðustu 100 árin höfum við unnið markvisst að endurheimt þessara röskuðu kerfa með því að koma gróðurframvindu af stað og stuðla þannig að nýmyndun frjósamrar moldar. Í mörgum tilfellum höfum við náð afskaplega góðum árangri. En, það þarf miklu meira til, ekki síst meiri almenna þekkingu.

Jarðvegsmengun vegna iðnaðar eða námavinnslu er þekkt vandamál víða og mjög kostnaðarsamt að hreinsa mengaða mold og gera hana nothæfa til landbúnaðarnota eða annarrar ræktunar. Jarðvegsvernd er þó ekki eingöngu landbúnaðarmál; mannvirkjagerð ýmiss konar hefur einnig umtalsverð áhrif á jarðvegsgæði. Vegagerð og virkjanir valda til að mynda varanlegum skemmdum á vistkerfum og hringrásum innan þeirra svo ekki sé nú minnst á neikvæðar afleiðingar jarðvegsþjöppunar.“

Malbik og steinsteypa

Jarðvegsþakning, til dæmis malbikaðar götur og steinsteypa borgarsamfélaga er ein birtingarmynd jarðvegseyðingar sem við sjaldnast leiðum hugann að.

„Afleiðingar jarðvegsþakningar í nágrenni og innan borga eru til að mynda aukin flóðahætta í rigningum vegna yfirborðsvatns sem finnur sér hvergi leið niður í moldina. Rannsóknir hafa sýnt að græn svæði innan borga auka lífsgæði íbúanna. Jarðvegsvernd skiptir okkur því öll máli, alveg sama hvernig á það er litið.“

Spennandi verkefni fram undan

Hjá Landgræðslunni var ákveðið að svara hvatningu Sameinuðu þjóðanna og leggja sitt af mörkum til að stuðla að aukinni vitund Íslendinga á mikilvægi jarðvegsverndar og fá Landgræðsluskóla Sameinuðu þjóðanna og félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi í lið með sér og skipuleggja viðburði í tilefni ársins.

„Sameinuðu þjóðirnar eru 70 ára á þessu ári og því ekki úr vegi að minna á að frjósöm vistkerfi, nægt fæðuframboð og aðgangur að hreinu vatni eru líklega þau atriði sem hafa mest vægi til að viðhalda friði. Að minnsta kosti í þeim heimshlutum þar sem þessar auðlindir eru af skornum skammti.

Það eru ýmsir spennandi viðburðir fram undan í tilefni árs jarðvegs og fleiri eiga eftir að bætast við á næstu vikum. Landgræðslan stefnir til að mynda á að opna dagskrá ársins með uppákomu í Tjarnarbíói í seinnihluta mars og sýna meðal annars margverðlaunaða heimildamynd um moldina „Dirt, the Movie“.

Við höfum einnig fengið leyfi til að talsetja á íslensku grípandi stuttmynd sem heitir: „Let´s Talk About Soil“ og vonumst til að geta fengið sem flesta Íslendinga til að horfa á hana á netinu og kvitta fyrir áhorfið. Það væru flott skilaboð til að senda alþjóðasamfélaginu.
Við höfum líka skipulagt hádegisfyrirlestraröð þar sem moldin verður í aðalhlutverki.

Hugmyndin er að nálgast mikilvægi hennar útfrá mun breiðari sjónarhorni en oftast er gert. Við munum til dæmis fjalla um mold og mat í samstarfi við Landvernd og líka fjalla um mold og menningu, mold og menntun, mold og hagkerfi og mold og borgarskipulag svo eitthvað sé nefnt.

Stefnt er á að efna til málþings síðla árs þar sem ítarlegar verður fjallað um þessi mál. Við höfum einnig mikinn áhuga á að vinna með grunnskólabörnum og fá þau í jarðvegsverndarliðið og erum að vinna fræðsluefni sem okkur langar að kynna fyrir skólunum. Samhliða því höfum við áhuga á að vinna með Helgu Arnalds leikkonu og tengja leiksýningu um moldina sem hún og félagar hennar sýndu á dögunum við góðar undirtektir inn í viðburðadagatalið okkar.“

Íslensk heimasíða

Ár jarðvegs verður með heimasíðu þar sem verður hægt að nálgast viðburðadagatal og ítarlegar upplýsingar um alla fyrirhugaða atburði í tilefni árs jarðvegs.

„Við hvetjum alla sem vilja koma upplýsingum á framfæri um atburði sem tengja má við ár jarðvegs að koma þeim til okkar svo við getum bætt þeim inn á viðburðadagatalið. Það er því ýmislegt á döfinni til að minna á mikilvægi moldarinnar og við hvetjum sem flesta til að bætast í jarðvegsverndarliðið,“ segir Þórunn Pétursdóttir að lokum. 

Skylt efni: Jarðvegur | Landgræðsla

Halla tekur upp Íslenskt staðfest
Fréttir 28. mars 2024

Halla tekur upp Íslenskt staðfest

Halla Sif Svansdóttir Hölludóttir, garðyrkjubóndi og eigandi Sólskins grænmetis ...

Uppfærsla á stefnumörkun Bændasamtaka Íslands
Fréttir 27. mars 2024

Uppfærsla á stefnumörkun Bændasamtaka Íslands

Fjölmörg mál voru til afgreiðslu á nýliðnu Búnaðarþingi 2024, úr fimm nefndum, s...

Endurnýting heimil til 1. nóvember 2025
Fréttir 27. mars 2024

Endurnýting heimil til 1. nóvember 2025

Matvælaráðuneytið hefur tilkynnt um frestun á gildistöku banns við endurnýtingu ...

Horfið frá framleiðslutengdum stuðningi
Fréttir 27. mars 2024

Horfið frá framleiðslutengdum stuðningi

Fyrirkomulag landbúnaðarstuðningskerfis á Íslandi mun taka miklum breytingum ef ...

Hyggur á slátrun í haust ef leyfi fæst
Fréttir 26. mars 2024

Hyggur á slátrun í haust ef leyfi fæst

Fyrrverandi sláturhússtjóri á Vopnafirði ætlar ekki að láta deigan síga þrátt fy...

Niðurskurði lokið á fé úr Blöndudal
Fréttir 26. mars 2024

Niðurskurði lokið á fé úr Blöndudal

Niðurskurður á sauðfé frá bæjunum Eiðsstöðum og Guðlaugsstöðum í Blöndudal fór f...

Kornræktarfélag gengur í endurnýjun lífdaga
Fréttir 26. mars 2024

Kornræktarfélag gengur í endurnýjun lífdaga

Kornræktarfélag Suðurlands verður endurvakið sem viðskiptavettvangur ræktenda og...

Grípa þarf tækifærin
Fréttir 26. mars 2024

Grípa þarf tækifærin

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, telur að bændur eigi að leyfa sér að hor...