Fréttir 24. júní 2019

Mikill fjöldi plantna hefur dáið út

Vilmundur Hansen

Samkvæmt gögnum grasa­fræðinga við Kew grasagarðinn í London hafa 571 plöntutegund dáið út síðustu tvær og hálfa öldina. Fjöldi skráðra plöntutegunda sem hafa dáið út á tímabilinu er tvöfalt meiri en tegundir fugla, spen- og froskdýra samanlagt.

Grasafræðingarnir segja að uppgefinn fjöldi byggi á skráðum tegundum sem hafi dáið út en sé ekki ágiskun. Því er líklegt að fjöldi þeirra sé mun meiri þar sem ekki sé til skrá yfir allar plöntutegundir í heiminum, hvað þá þær sem hafa dáið út á síðustu 250 árum.

Könnunin er sú fyrsta sem tekur saman lista yfir þann fjölda plantna sem eru útdauðar. Í listanum er greint frá því hvar viðkomandi planta óx og hvenær hún er skráð sem útdauð. Einnig kemur fram að flestar plöntur hafa dáið út á eyjum í hitabeltinu og þar sem skógareyðing er mikil.

Grasafræðingar við grasagarðinn í Kew hafa á undanförnum áratugum unnið við að safna erfðaefni úr plöntum sem taldar eru vera í útrýmingarhættu. Auk þess sem í garðinum er að finna fjölda eintaka af plöntum sem ekki lengur finnast villtar í náttúrunni.