Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Markmið tollkvótanna er að lækka vöruverð
Fréttir 6. ágúst 2019

Markmið tollkvótanna er að lækka vöruverð

Höfundur: Erla Hjördís Gunnarsdóttir
Nú hefur frumvarp verið birt á samráðsgátt stjórnvalda sem bygg­ir á tillögum starfshóps sem sjávarútvegs- og land­búnaðar­ráðherra skipaði í júní á síðasta ári þar sem unnið er að drögum að frumvarpi um breytingar á tolla­lögum. Þar eru lagðar til breytingar á laga­umhverfi á úthlutun tollkvóta. Markmið frumvarpsins er að stuðla að auknum ábata neytenda og að aukinni samkeppni á markaði með land­búnaðarvörur ásamt því að einfalda og skýra regluverk um úthlutun tollkvóta. 
 
Samkvæmt tillögum starfshópsins er lagt til að tollkvótum verði úthlutað með því að styðjast við svokallað hollenskt útboð (e. Dutch auction). Í því felst að lægsta samþykkta tilboð útboðs ákvarði verð allra samþykktra tilboða. Jafnframt er lagt til að umsýsla og úthlutun tollkvóta verði nútímavædd og fari fram á rafrænu vefsvæði og að allir tollkvótar verði boðnir út á sama tíma. Einnig má nefna þá breytingu að heimildir fyrir innflutning á svokölluðum opnum tollkvótum verði afnumdar í núverandi mynd og þar með verði ráðgjafarnefnd um inn- og útflutning landbúnaðarvara lögð niður.
 
Mikilvægt að hafa virka tollvernd
 
Hlutverk samráðshópsins var að endurskoða núverandi fyrir­komulag við úthlutun tollkvóta og finna leiðir til þess að koma ávinningi sem skapast með toll­kvótum í meira mæli til neytenda í formi lægra vöruverðs. Starfs­hópurinn tók til skoðunar regluverk um úthlutun tollkvóta í tengslum við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands og aðrar aðferðir sem beitt er til að lækka tolla á innfluttum búvörum, til dæmis svokallaða „opna tollkvóta“.
 
Sigurður Eyþórsson, framkvæmda-stjóri BÍ.
„Það er margt í þessu frumvarpi sem getur verið til einföldunar svo sem að horfið er frá hinum svokölluðu opnu tollkvótum. BÍ hafa bent á galla þess fyrirkomulags frá upphafi því ekki er auðvelt að meta raunverulegt framboð á markaði sem er ekki stjórnað. Slíkt mat verður aldrei óumdeilt,“ segir Sigurður Eyþórsson, framkvæmdastjóri Bænda­­samtaka Íslands.
 
„Útboð á tollkvótum hafa BÍ talið sanngjarnt fyrirkomulag. Sjónarmiðin í frumvarpinu að baki því að reyna að einfalda útboðin og lækka verð á kvótunum eru skiljanleg, en stjórnvöld geta aldrei tryggt að sú lækkun skili sér í vasa neytenda. Það er undir neytendum sjálfum komið að sjá til þess. En meginatriðið frá sjónarhóli framleiðenda er og verður að tollvernd sé virk þar sem það hefur þýðingu og geri innlendu framleiðsluna samkeppnishæfari í verði,“ segir Sigurður.
 
Þess má geta að Samtök garð­yrkjubænda funda fimmtudaginn 25. júlí í Þykkvabæ til að ræða áhrif breytinganna á mismunandi greinar innan félagsins. 
 
Ekkert sem tryggir að neytendur njóti ábatans
 
„Það er vissulega fagnaðarefni að verið sé að horfa til neytenda í nýju frumvarpi landbúnaðarráðherra og að það sé verið að reyna að koma þessum ábata til þeirra. Hins vegar er ekki að sjá nein ákvæði sem tryggja það í frumvarpinu. Frumvarpið skilur eftir þó nokkrar spurningar að mati okkar hjá FESK,“ segir Sigmar Vilhjálmsson, talsmaður FESK, Félags eggja-, svína- og kjúklingabænda á Íslandi.
 
Hollenska útboðið og vöruskortur
 
Sigmar bendir á að hollenska útboðið, sem kallað er „Jafnræðisútboð“ í frumvarpinu, sé ekki endilega ávísun á aukna samkeppni en hún sé vissulega til þess fallin að lækka verð til kaupenda eða heildsala. 
„Við spyrjum okkur hvort þetta muni skila sér til neytenda. Það er ekkert í frumvarpinu sem tryggir það og kemur í veg fyrir að heildsalar auki bara arðsemi sína og lækki ekki verð. Auðvelt er að teikna upp margar sviðsmyndir þar sem þetta fyrirkomulag auðveldar ráðandi aðilum á markaði að misnota kerfið,“ segir Sigmar og bætir við:
 
Sigmar VIlhjálmsson, talsmaður FESK.
„Það er mat FESK að skoða þurfi þessi mál mun betur eins og varðandi nýja skilgreiningu á vöruskorti í lögunum og hvernig stjórnvöld ætli að sinna eftirliti með vöruskorti. Sérstaklega í ljósi þess að tilefni frumvarpsins er fyrst og fremst: „…að stuðla að auknum ábata neytenda og aukinni samkeppni á markaði með landbúnaðarvörur“. Ekki er hægt að sjá að þessi reglugerð tryggi það með neinum hætti, miklu frekar virðist þetta frumvarp víkka heimildir stjórnvalda til að auka inn­flutning umfram tollasamninga og lækka skilyrði til þess. Einnig er hvergi tryggt að heildsalar sem stunda innflutning skili þessum ábata til neytenda með lægra vöruverði og sagan sýnir að slíkt hefur ekki skilað sér til þessa,“ segir Sigmar.
 
Hvernig á að vernda íslenska framleiðslu?
 
FESK hefur einnig mikinn áhuga á með hvaða hætti vernda á innlenda framleiðslu í ljósi þessarar aukningar í tollkvótum. Í frumvarpinu segir: „Frumvarpið gerir þó ráð fyrir að innlend framleiðsla njóti áfram ákveðinnar verndar“, meira kemur ekki fram um þann þátt. Samkvæmt þeim tollasamningum sem eru í gildi frá árinu 2015, þá er verið að flytja inn 12% af allri innanlandsneyslu í kjúklinga- og svínaafurðum. Það er gríðarlega hátt hlutfall. Það verður því forvitnilegt með hvaða hætti hið opinbera ætlar sér að vernda innlenda framleiðslu,“ segir Sigmar Vilhjálmsson.
 
Skref í átt að aukinni samkeppni
 
Samtök verslunar og þjónustu eru í meginatriðum sammála þeim markmiðum sem liggja til grundvallar lagafrumvarpinu. Undanfarin ár hafa samtökin harðlega gagnrýnt það fyrirkomulag sem viðhaft hefur verið við úthlutun tollkvótanna. Gagnrýnin hefur einkum beinst að því að kvótarnir hafa einfaldlega verið boðnir út og þeim úthlutað til hæstbjóðanda. Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, segir að þar sem um er að ræða úthlutun á takmörkuðum gæðum, sem mikil spurn er eftir, hafi  úthlutunaraðferðin beinlínis unnið gegn verðlækkunum á innfluttum búvörum. 
 
Andrés Magnússon, framkvæmda-stjóri SVÞ.
„Eftir því sem spurn eftir landbúnaðarvörum hefur aukist, hvort heldur er innlendum eða erlendum, hefur fyrirkomulagið unnið meira gegn verðlækkunum. Þegar haft er í huga að tilgangur tvíhliða og marghliða milliríkjasamninga um tollkvóta er beinlínis að því að auka markaðsaðgang og alþjóðaviðskipti má segja að fyrirkomulagið vinni beinlínis gegn þeim samningum sem það byggist á. Markmið fríverslunarsamninga um landbúnaðarvörur, bæði við WTO og Evrópusambandið, er að veita aukinn markaðsaðgang, efla samkeppni í útflutningi og aðlaga innlend stuðningskerfi að auknum alþjóðaviðskiptum og þar með samkeppni. Gengið var til þessara samninga með þann sameiginlega skilning að leiðarljósi að alþjóðaviðskipti stuðla að auknum hagvexti og velferð. Til að svo verði þurfa neytendur að njóta ábatans en á það hefur mjög skort hingað til,“ útskýrir Andrés og segir jafnframt:
„Samtökin eru þeirrar skoðunar að með þeirri aðferð við úthlutun tollkvóta sem frumvarpið boðar verði stigið veigamikið skref í átt til aukinnar samkeppni með landbúnaðarvörur, sem bæði á eftir að leiða til fjölbreyttara vöruúrvals og aukinnar samkeppni á markaði með þessar vörur. Samtökin fagna þeirri breytingu sem gert er ráð fyrir að gildi um úthlutun á sk. opnum tollkvótum. Þar er gert ráð fyrir að innflutningur tiltekinna vara verði án tolla eða á lægri tollum en ella á fyrirfram ákveðnum tímum á ári hverju. Það mun skapa fyrirsjáanleika. Eins og kunnugt er hafa opnu tollkvótarnir haft mesta þýðingu í tilviki innflutnings á grænmeti og blómum þar sem bæði framleiðsla og neysla er árstíðabundin. Þá er sérstök ástæða til að nefna að frumvarpið gerir ráð fyrir að ráðgjafarnefnd um inn- og útflutning landbúnaðarvara verði lögð niður, enda vandséð hvaða hlutverki sú nefnd á að gegna, gangi þær breytingar eftir sem frumvarpið gerir ráð fyrir.“ 

Skylt efni: tollkvótar | vöruverð | tollalög

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni
Fréttir 18. apríl 2024

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni

Vegamót á Bíldudal er matvöruverslun og veitingastaður. Gísli Ægir Ágústsson, ve...

„Allt of fáar messur“
Fréttir 18. apríl 2024

„Allt of fáar messur“

Tryggvi Sveinn Eyjólfsson, sem er á sautjánda aldursári, hefur vakið athygli fyr...

Íslenskar sængur um allan heim
Fréttir 18. apríl 2024

Íslenskar sængur um allan heim

Íslenskur dúnn ehf. selur æðardúnsængur beint til viðskiptavina um heim allan. Þ...

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign
Fréttir 17. apríl 2024

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign

Kristín Lárusdóttir og Guðbrandur Magnússon, bændur að Syðri- Fljótum í Meðallan...

Breyttar reglur um flutning líflamba
Fréttir 17. apríl 2024

Breyttar reglur um flutning líflamba

Verklagsreglur hafa verið endurskoðaðar um flutning á lömbum með verndandi eða m...

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins
Fréttir 16. apríl 2024

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins

Á fagfundi sauðfjárræktarinnar sem haldinn var á dögunum var Gýgjarhólskot í Bis...

Verulegur samdráttur í innflutningi á áburði
Fréttir 16. apríl 2024

Verulegur samdráttur í innflutningi á áburði

Matvælastofnun hefur birt leiðrétta skýrslu yfir áburðareftirlit síðasta árs.

Ísteka í yfirburðastöðu
Fréttir 15. apríl 2024

Ísteka í yfirburðastöðu

Í nýrri ályktun Samkeppniseftirlitsins kemur fram að Ísteka beiti sterkri stöðu ...