Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Lífræn ræktun – vörn gegn hættum ónáttúrulegs fæðis
Mynd / BBL
Fréttir 1. apríl 2019

Lífræn ræktun – vörn gegn hættum ónáttúrulegs fæðis

Höfundur: Sandra B. Jónsdóttir, sjálfstæður ráðgjafi

Það er Íslandi í hag og til álitsauka að framleiðendur lífrænna afurða í landinu vinni í samræmi við reglur sem Evrópusambandið setur í stað þeirra sem Bandaríkin nota. Landbúnaðarráðuneyti Bandaríkjanna lætur undan þrýstingi stórfyrirtækja á borð við Walmart, sem sækjast eftir því að auðvelda aðgang að lífræna vörumerkinu (vottun), um að draga úr kröfum til lífrænnar vottunar og framleiðslu.

Sandra B. Jónsdóttir.

Stórir og valdamiklir aðilar grafa undan þeim náttúrulegu ferlum sem eru grundvöllur lífrænna aðferða um allan heim með því að þrýsta á um að notkun tilbúinna ónáttúrulegra aðfanga verði leyfð. Til dæmis vinna þeir að því að við framleiðslu á lífrænu kjöti, eggjum og mjólk sé leyft að ala búféð alfarið innandyra, eða á gróðurleysu í stað beitilands, sem hefur í för með sér bæta þarf fóðrið með amínósýrum (metíónín). Þeir vilja að staðlar leyfi vatnsræktun ávaxta og grænmetis, þ.e. í vökvakerfi tilbúinna áburðarefna, í stað ræktunar í næringarríku vistkerfi jarðvegs. Þeir vilja að hægt sé að merkja matvæli, þar með talið barnamat, sem lífræn, þótt þau séu hlaðin ónáttúrulegum vítamínum, steinefnum eða öðrum tilbúnum efnum.

 

Erfðatækni er bönnuð í lífrænni ræktun

Reglugerðir Evrópusambandsins eru byggðar á varúðarreglunni, ólíkt reglugerðum Bandaríkjanna. Þar sem vísindaheimurinn er ekki einhuga um hvort erfðabreyttar plöntur séu öruggar fyrir umhverfið eða heilsu manna og dýra, þá leyfa reglugerðir Evrópusambandsins ekki notkun erfðabreyttra lífvera í lífrænni framleiðslu. Árið 2013 gáfu Evrópusamtök vísindamanna um félagslega og umhverfislega ábyrgð (ENSSER) út yfirlýsingu sem 300 vísindamenn undirrituðu, þar sem staðfest er að vísindasamfélagið er klofið um öryggi erfðabreyttra lífvera. Jafnframt kemur þar fram að flestar heilsufarsrannsóknir sem „sanna“ öryggi erfðabreyttra plantna voru gerðar af sömu líftæknifyrirtækjum og selja erfðabreytt fræ.

Rannsóknir gerðar af sjálfstæðum vísindamönnum sýndu aftur á móti að dýr fóðruð á erfðabreyttum afurðum sýndu eitrunaráhrif í mörgum helstu líffærum, einkum í nýrum og lifur.

Erfðabreytt matvæli og heilsufarsáhætta

Ræktun erfðabreyttra plantna hefur leitt til gríðarlegrar aukningar í notkun eiturefna í Bandaríkjunum, einkum illgresiseitursins glýfosats, sem bændum er selt í sama pakka og erfðabreytt fræ. Árið 2012 birti Charles Benbrook niðurstöður, byggðar á opinberum gögnum bandaríska landbúnaðarráðuneytisins, sem sýndu 15-falda aukningu illgresiseiturs frá því að ræktun erfðabreyttra plantna hófst árið 1996, sem orsakað hefur lífshættuleg heilsuvandamál þeirra sem starfa í landbúnaði. Fyrir skömmu vann bóndi í Kaliforníu, DeWayne Lee Johnson, mál sitt (og 78 m dollara bætur)  fyrir rétti gegn Monsanto þar sem hann gat sýnt fram á að eiturefnið glýfosat, sem fyrirtækið framleiðir, var orsök eitlakrabbameins sem hann greindist með, og að Monsanto hafi reynt að fela niðurstöður eigin rannsókna sem sýndu tengsl milli glýfosats og krabbameins. Nú bíða allt að 9000 önnur fórnarlömb krabbameins þess að leggja viðlíka mál gegn Monsanto fyrir rétt.

Ein tegund erfðabreyttra plantna eru sn. Bt-plöntur sem erfðabreytt var til að þær innihaldi skordýraeitrið Bt. Líftæknifyrirtækin fullyrða að Bt-eitur í plöntum hafi enga áhættu í för með sér fyrir menn eða dýr sem neyta slíkra plantna þar sem meltingarkerfi spendýra sundri próteinum (DNA) í fóðri og matvælum.

Kanadísk rannsókn (Aziz Aris et al 2016) sýndi engu að síður að Bt-eitrið fannst í blóði þungaðra kvenna og í blóði ófæddra fóstra þeirra. Tilraunir Monsanto sýndu að Bt-eitur í plöntum veldur eitrun í lifur og nýrum í rottum (Séralini et al 2009). Nýleg tilraun sýndi sömuleiðis að erfðabreytt Bt-eitur skaði ónæmiskerfið, valdi ofnæmi og valdi forstigs-frumubreytingum í þörmum í rottum (Santos-Vigil et al 2018).

Matvæli framleidd í tilraunastofum

Matvæli eru stærsti vöruflokkur heimsins og hafa þar af leiðandi orðið tilefni alls kyns róttækra viðskiptatilrauna. Á tíunda áratugnum voru erfðabreyttar plöntur kynntar sem kostur í stað venjulegra nytjajurta. Um þessar mundir gerir Kísildalurinn tilraun til að flytja fæðuframleiðslu af bújörðum yfir í tilraunastofuna. Vísindamenn vinna að því að taka við af bændum. Bandarískt fyrirtæki (Impossible Food Co.) hefur fundið upp gervikjöt, sem það vinnur og selur í formi hamborgara (Impossible Burger), og framleitt er á tilraunastofu úr erfðabreyttu geri.

Annað fyrirtæki (Perfect Day Co.) vinnur að því að fjarlægja kýr úr mjólkurbúskapnum með framleiðslu á mjólk á tilraunastofu úr erfðabreyttu geri og prentuðum mjólkurpróteinum. Þessar róttæku nýju matvörur hafa ekki undirgengist öryggisprófanir, þótt vísindin hafi sýnt fram á að erfðabreytingar valdi óþekktum og óvæntum breytingum á genamengi erðabreyttra plantna og matvæla úr þeim. Þar til sýnt hefur verið fram á öryggi erfðabreyttra lífvera og matvæla sem framleidd eru á tilraunastofum eiga þau sér engan stað í lífrænni framleiðslu. Hvorutveggja ber fremur vott um áhuga á að stjórna matvælaframleiðslunni í stað þess að bæta hana.

Lífræn framleiðsla og heilsa þjóðarinnar

Ný rannsókn sem gerð var í Frakklandi sýndi að þeir sem neyta reglulega lífrænna matvæla eru mun ólíklegri til að fá krabbamein en þeir sem neyta lítillar eða engrar lífrænnar fæðu. Önnur ritrýnd rannsókn mældi eiturefnaleifar í þvagi bandarískra neytenda og sýndi að þær lækkuðu um 95% eftir að viðkomandi höfðu eingöngu neytt lífrænna matvæla í eina viku. Íslenskur landbúnaður er, ólíkt þeim bandaríska, tiltölulega laus við eiturefnanotkun. Við getum varið og styrkt lýðheilsu þjóðarinnar með því að standa gegn innflutningi gervifæðu og afurða efnavædds búskapar, og með því að framleiða meira sjálf með lífrænum aðferðum.


Sandra B. Jónsdóttir
sjálfstæður ráðgjafi

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni
Fréttir 18. apríl 2024

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni

Vegamót á Bíldudal er matvöruverslun og veitingastaður. Gísli Ægir Ágústsson, ve...

„Allt of fáar messur“
Fréttir 18. apríl 2024

„Allt of fáar messur“

Tryggvi Sveinn Eyjólfsson, sem er á sautjánda aldursári, hefur vakið athygli fyr...

Íslenskar sængur um allan heim
Fréttir 18. apríl 2024

Íslenskar sængur um allan heim

Íslenskur dúnn ehf. selur æðardúnsængur beint til viðskiptavina um heim allan. Þ...

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign
Fréttir 17. apríl 2024

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign

Kristín Lárusdóttir og Guðbrandur Magnússon, bændur að Syðri- Fljótum í Meðallan...

Breyttar reglur um flutning líflamba
Fréttir 17. apríl 2024

Breyttar reglur um flutning líflamba

Verklagsreglur hafa verið endurskoðaðar um flutning á lömbum með verndandi eða m...

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins
Fréttir 16. apríl 2024

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins

Á fagfundi sauðfjárræktarinnar sem haldinn var á dögunum var Gýgjarhólskot í Bis...

Verulegur samdráttur í innflutningi á áburði
Fréttir 16. apríl 2024

Verulegur samdráttur í innflutningi á áburði

Matvælastofnun hefur birt leiðrétta skýrslu yfir áburðareftirlit síðasta árs.

Ísteka í yfirburðastöðu
Fréttir 15. apríl 2024

Ísteka í yfirburðastöðu

Í nýrri ályktun Samkeppniseftirlitsins kemur fram að Ísteka beiti sterkri stöðu ...