Mynd/BBL
Fréttir 14. mars 2018

Fé fellt í Loðmundarfirði

smh

Matvælastofnun gerði út leiðangur síðastliðinn laugardag til að fella fé í Loðmundarfirði sem þar hefur gengið laust, án eftirlits og fóðrunar. Tuttugu og níu kindur fundust sem allar voru felldar.

Í tilkynningu frá Matvælastofnun kemur fram að 18 þessara kinda hafi verið frá einum bæ, ein kind frá öðrum en tíu hafi verið ómerktar. Margsinnis hafi stofnunin þurft að hafa afskipti af öðru búinu á undanförnum árum. „Kröfur stofnunarinnar um úrbætur hafa ekki verið virtar að fullu og hefur fé frá bænum fundist í Loðmundarfirði að vetrarlagi. Umráðamanni dýranna var veittur frestur til 1. febrúar sl. til að endurheimta fé sitt úr firðinum, sem hann gerði að hluta.“

Matvælastofnun sinnir eftirliti með velferð dýra en ábyrgð á fjallskilum liggur hjá sveitarfélögum.

Í tilkynningu stofnunarinnar kemur fram að það hafi verið mat viðstaddra að ómögulegt væri að sækja féð og var það því fellt á grundvelli 7. gr. laga um velferð dýra.

Í reglugerð um velferð sauðfjár segir m.a. að:

  • óheimilt sé að hafa fé á útigangi á vetrum þar sem ekki verði komið við fóðrun og eðlilegu reglubundnu eftirliti.
  • umráðamanni sauðfjár eða geitfjár beri að tryggja gott aðgengi eftirlitsaðila að öllum dýrum og öllum þeim stöðum þar sem þau er haldin.
  • tryggja skuli velferð allra dýra með því að líta reglulega til með þeim og bæta úr því sem ábótavant er.
  • daglegt eftirlit skal haft með sauðfé og geitfé á húsi. Sérstakt og tíðara eftirlit skal haft með nýfæddu, sjúku og slösuðu fé. Sama á við um ær og huðnur nálægt burði. Fé sem haldið er úti yfir vetur skal haft í fjárheldum girðingum þannig að eftirlit sé framkvæmanlegt fram yfir sauðburð.
  • fé skuli haldið hreinu og það rúið a.m.k. einu sinni á ári. Þegar fé er rúið að vetri til skal það hýst í skjólgóðri byggingu, þess gætt að það ofkælist ekki og skal einnig tryggt að fóðrun þess sé góð.