Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Fjárréttir, eins og Reynisrétt í Innri-Akraneshreppi hinum forna, eru dæmi um þjóðlegt verklag.
Fjárréttir, eins og Reynisrétt í Innri-Akraneshreppi hinum forna, eru dæmi um þjóðlegt verklag.
Mynd / Skessuhorn
Fréttir 27. maí 2015

Landbúnaðarsafn Ísland: Íslenskt verksvit - íslensk hönnun

Höfundur: Bjarni Guðmundsson
Stór hluti þeirrar verktækni sem breytt hefur búnaðarþekkingu í áþreifanlegar afurðir íslensks landbúnaðar er erlendur að uppruna.
 
Handverkfæri, dráttarvélar, mjaltavélar, girðingaefni, tölvur o.fl. búnaður sem er hinn sami hvort búið er vestur í Dölum eða uppi í Dalarna í Svíþjóð eða vestur í Wisconsin. Þekking og tækni henni til hagnýtingar eiga sér sjaldnast landamæri. 
 
Talað er um „technological transfer“ – tækniflæði – sem eina helstu forsendu framleiðnivaxtar atvinnuveganna. Íslenskur landbúnaður á tækniflæði margt að þakka eins og sjá má þegar rölt er um hina nýju sýningu Landbúnaðarsafns. 
 
En Íslendingar hafa líka hugsað sitt: Bæði hafa landsmenn lagað erlenda verkþekkingu og erlend verkfæri að íslenskum aðstæðum en líka fundið upp áhöld og aðferðir. Í sumum tilvikum hafa lausnir verið staðbundnar, hafa gagnast einstökum búum, en í öðrum tilvikum hafa þær komið að almennum notum. 
Hvað snertir varðveislu og kynningu eldri verkhátta er íslensk hönnun áhalda, verkfæra og véla sérlega mikilvægt viðfangsefni. Eftir föngum hefur Landbúnaðarsafn reynt að gera því skil, en miklu meira þarf að gera, helst með „átaki“. 
 
Með þessari grein fylgja myndir til þess að minna á nokkur dæmi um það sem íslenskt hugvit, með reynslu og rannsóknum, hefur lagt til mótunar lausna á sviði landbúnaðar. Vitanlega reynir nokkuð á skilgreiningar og flokkun en látum það liggja á milli hluta um sinn. Hér er fyrst og fremst verið að vekja athygli á viðfangsefninu: 
 
Útihús tókum við snemma að laga að hérlendum aðstæðum. Sé aðeins litið til byltingartímans stóra – 20. aldar – ræður íslensk hönnun þar ríkjum. Þeim mikilvæga þætti í þróunarsögu þjóðarinnar hefur verið lítill gaumur gefinn.  
 
Ræktunarhætti kenndi reynsla okkur að laga þyrfti að íslenskum aðstæðum. Þúfurnar rændu vinnutíma verkafólks um aldir. Þegar stríðið við þær hófst fyrir alvöru var gripið til lausnar sem sennilega er séríslensk – þaksléttan. Sama á við um framræslu með vélgröfum. Þegar til urðu hin einkennandi framræslukerfi með skurðum, sem ýmislegt hefur verið sagt um en eru með sínum hætti gömlu beðaslétturnar að megingerð. Baráttan við sandfok og jarðvegseyðingu byggðist fljótlega á aðferðum sérstaklega löguðum að íslenskum aðstæðum að ég nú ekki gleymi matjurta- og blómarækt við jarðvarma . . . 
 
Áhöld og verkfæri hafa fjölmörg orðið til í höndum íslenskra hugvitsmanna. Ætli megi ekki telja undirristuspaðann í þeim flokki, taðkvörnina, grindarljáinn og síðar sjálfa súgþurrkunartæknina, sem að verulegu marki varð til árangurs hér á landi vegna aðlögunar erlendra frumhugmynda. 
 
Já, af nógu er að taka.  En þróun sem þessi er ekki séríslensk, fjarri því. „Funi kveikist af funa“, segir í Hávamálum.  Þá kallar tiltekin þörf gjarnan fram svipaðar lausnir á fleiri og ótengdum stöðum. Þess vegna má deila um það að hvaða marki hugmynd og hönnun telst vera íslensk.
 
En öll eru þessi dæmi hluti af íslenskri þjóðmenningu og varðveisluverð af þeim sökum, brot af þróun samfélags og hugmyndaheims frá fábrotnu þjóðlífi við takmörkuð efni til okkar daga sem ættu að geta verið allsnægtadagar bæði að efni og anda. 
 
Íslenski safnadagurinn í Landbúnaðarsafninu Hvanneyri 17. maí: 
 
Í tilefni þess að íslenska safnadaginn ber að þessu sinni upp á 17. maí, þjóðhátíðardag Norðmanna, verður aðaldagskrá safnsins tileinkuð norskum áhrifum á íslenskan landbúnað:
 
1. kl. 13.30 mun Bjarni Guðmundsson halda erindi í Landbúnaðarsafni um norsk áhrif á íslenskan landbúnað, einkum á 19. og 20. öld. Fjallað verður um hugmyndir, þekkingu, aðföng, áhöld og verkfæri sem bárust frá Noregi til Íslands og hvernig þau höfðu  á framvindu íslensks landbúnaðar.
 
2. Að erindi Bjarna loknu verður stutt sögustund við Skerpiplóginn sem nú verður „afhjúpaður“ við safnið.  Haukur Júlíusson og fleiri munu þar segja nokkrar Skerpiplógssögur. Aðrir fyrrverandi Skerpiplógsmenn eru sérstaklega velkomnir til stundarinnar. 
 
Landbúnaðarsafn verður opið kl. 13–16 og leiðsögn veitt eftir föngum.  Ullarselið verður opið á sama tíma. 
 
Aðgangur að Landbúnaðar­safninu á Safnadegi er ókeypis en frjáls framlög þegin.
 
Það er ótölulega margt sem íslenskur landbúnaður hefur sótt til Noregs. Í öndverðu fluttu landnámsmenn með sér búhætti og áhöld úr heimabyggðum sínum. Á 19. öld tóku Íslendingar að sækja búnaðarnám þar. Að námi loknu höfðu þeir gjarnan með sér heim áhöld og verkfæri sem þeir höfðu kynnst ytra, er urðu vel þekkt hérlendis, t.d. plóga, herfi og kerrur. Minna má á Noregssaltpéturinn og Eylandsljáina, en steininn tók fyrst úr er hingað tóku að berast Gnýblásarar (høykanon), vélkvíslar (silosvans) og vélvögur (høysvans),  að ekki gleymist pökkunarvél fyrir rúllubagga. Íslenska „kynbótavélin“ fyrir búfé á sér sterkar norskar rætur, dýralækningar sömuleiðis og eitt og annað hafa Íslendingar sótt í norska landbúnaðarpólitík.  Allt breytti þetta landbúnaðinum svo um munaði. Þá má minna á heitar umræður um norska nautgripi til kynbóta er áformað var að flytja til Íslands um síðustu aldamót. Um þetta og fleira mun Bjarni fjalla í erindi sínu.
 
Skerpiplógurinn kom fram um miðja síðustu öld á Jaðrinum í Noregi, því mikla landbúnaðarhéraði. Hann vakti gríðarlega athygli og átti eftir að breyta miklu í landnámi og nýrækt þar í sveitum. Plógurinn barst til Íslands fyrir tilstilli Árna G. Eylands,  og öðlaðist þegar miklar vinsældir ræktunarmanna sem þá stóðu í miklum stórræðum um allt land; voru að brjóta nýframræstar mýrar til landnáms með túnrækt.  En atvikin höguðu því svo að Skerpiplógurinn hvarf úr ræktunarstarfinu svo  skyndilega sem dögg víkur undan morgunsól.
 

4 myndir:

Passíusálmar sr. Hallgríms
Fréttir 29. mars 2024

Passíusálmar sr. Hallgríms

Passíusálmarnir verða fluttir í Hallgrímskirkju á föstudaginn langa.

Halla tekur upp Íslenskt staðfest
Fréttir 28. mars 2024

Halla tekur upp Íslenskt staðfest

Halla Sif Svansdóttir Hölludóttir, garðyrkjubóndi og eigandi Sólskins grænmetis ...

Uppfærsla á stefnumörkun Bændasamtaka Íslands
Fréttir 27. mars 2024

Uppfærsla á stefnumörkun Bændasamtaka Íslands

Fjölmörg mál voru til afgreiðslu á nýliðnu Búnaðarþingi 2024, úr fimm nefndum, s...

Endurnýting heimil til 1. nóvember 2025
Fréttir 27. mars 2024

Endurnýting heimil til 1. nóvember 2025

Matvælaráðuneytið hefur tilkynnt um frestun á gildistöku banns við endurnýtingu ...

Horfið frá framleiðslutengdum stuðningi
Fréttir 27. mars 2024

Horfið frá framleiðslutengdum stuðningi

Fyrirkomulag landbúnaðarstuðningskerfis á Íslandi mun taka miklum breytingum ef ...

Hyggur á slátrun í haust ef leyfi fæst
Fréttir 26. mars 2024

Hyggur á slátrun í haust ef leyfi fæst

Fyrrverandi sláturhússtjóri á Vopnafirði ætlar ekki að láta deigan síga þrátt fy...

Niðurskurði lokið á fé úr Blöndudal
Fréttir 26. mars 2024

Niðurskurði lokið á fé úr Blöndudal

Niðurskurður á sauðfé frá bæjunum Eiðsstöðum og Guðlaugsstöðum í Blöndudal fór f...

Kornræktarfélag gengur í endurnýjun lífdaga
Fréttir 26. mars 2024

Kornræktarfélag gengur í endurnýjun lífdaga

Kornræktarfélag Suðurlands verður endurvakið sem viðskiptavettvangur ræktenda og...