Mynd/MÞÞ
Fréttir 14. júní 2018

Kýrnar slettu úr klaufunum

Margrét Þóra Þórsdóttir
Kýrnar á bænum Garði í Eyjafjarðar­sveit gripu tækifærið fegins hendi þegar þeim var hleypt út í fyrsta sinn á þessu sumri föstudaginn 1. júní. 
 
Viðtökur enda góðar utandyra, sól og blíða og nýsprottið grasið grænt og safaríkt. Orðatiltækið að skvetta úr klaufunum átti vel við þegar kýr tóku á rás úr fjósi og niður á tún. Alls eru um 140 kýr í Garði, en á efri hæð fjóssins er Kaffi Kú, þar sem gestum gefst færi á að njóta veitinga og fylgjast í leiðinni með daglegu lífi íbúa fjóssins. Gestir og gangandi fylgdust af áhuga með þegar kúm var hleypt út og í tilefni dagsins var boðið upp á frískandi og ískalt sítrónute og roastbeef samloku að bíta í með.