Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Enginn veit hvað framtíðin ber í skauti sér en það er samt næsta víst að við munum njóta áfram fegurðar náttúrunnar.
Enginn veit hvað framtíðin ber í skauti sér en það er samt næsta víst að við munum njóta áfram fegurðar náttúrunnar.
Mynd / HKr.
Fréttir 19. mars 2020

Klappaðu þér á bakið í lok dags

Höfundur: Vilmundur Hansen
Áhyggjur vegna útbreiðslu Covid-19 veirunnar og afleiðinga hennar eru smám saman að aukast. Bændur og ekki síst þeir sem leggja stund á ferðaþjónustu til sveita hafa fengið fjölda afbókana og ekki sér enn fyrir endann á þeim. Aðrir hafa áhyggjur að búrekstrinum og hvernig honum muni vegna komi til veikinda.
 
Kristín Linda Jónsdóttir sálfræðingur segir að bændur og búalið geti gert eitt og annað til að létta af áhyggjum sínum og sinna vegna ástandsins í landinu af völdum Covid-19 veirunnar og afleiðinga hennar. 
 
Kristín Linda Jónsdóttir.
Utanaðkomandi ógn
 
„Í fyrsta lagi er mikilvægt að fólk geri sér virkilega grein fyrir því að vandinn sem er uppi sé tilkominn vegna ófyrirséðrar ógnar og einstaka bóndi, sama í hvaða stöðu eða búskap hann er, hefur ekki gert mistök og þarf því sannarlega ekki að finna til sektarkenndar eða skammar vegna afleiðinganna þrátt fyrir að eitthvað muni fara úrskeiðis. Ógnin er utanaðkomandi en ekki tilkomin vegna þess að einhverjir einstaklingar hafi gert mistök eins og að sinna ekki starfi sínu, fjárfesta óskynsamlega eða eyða um efni fram. 
 
Það er hollt fyrir fólk að velta þessu fyrir sér því að margir sem eru sjálfstætt starfandi kenna sjálfum sér um þegar illa gengur í rekstri og áfellast sig. Það er meiðandi og dregur úr orku og lausnamiðaðri hugsun og á sannarlega ekki við nú. Svo bændur, berið höfuðið hátt, þrátt fyrir ótta og ógn.“
 
Aukum tengslin  
 
Kristín Linda ráðleggur fólki að auka tengsl sín á milli með því að nota símann og aðra möguleika tækninnar til samskipta. „Ég hvet fólk til samskipta reglubundið og mikið núna þegar fólk hittist minna. Gerið það að föstum lið í deginum að ræða við aðra um ástandið og eigin stöðu eins og hún er hverju sinni en ekki eftir á. 
 
Hafið samband við hvert annað, speglið ykkur með öðrum, veljið að hafa samband við samherja í sömu búgrein, nágranna, eða vini í sambærilegum vanda og hringjast á á kvöldin, spjallið opið um áhyggjur og vanda. Ekki hika, hringið strax í kvöld. Það dregur úr kvíða, einsemd og hörmungarhyggju og skapar samkennd sem er gulls ígildi.“
 
Styðjum við eigin líðan  
 
„Svo er mikilvægt að styðja við eigin líðan með því að gefa sér tíma fyrir uppbyggjandi stundir  alla daga til að vega upp á móti því neikvæða sem dregur niður fólk. Annars einfaldlega sígur lundin niður og líðanin með. Til þess að ná því getur virkilega þurft að beita sig aga og setja inn í dagskipulagið eins til tveggja klukkustunda andrými frá áhyggjum og vá. 
 
Hlé frá raunveruleikanum, það með talið fréttamiðlum, til að hlúa að sér með lestri, tónlist, matargerð, skapandi áhugamálum, góðri bíómynd, fallegu og fyndnu myndefni eða jafnvel tölvuleik. Auðvitað tekst það kannski ekki alveg alla daga en reynum að ná því sem oftast. 
 
Leggjum okkur fram við að taka eftir því jákvæða, fallega og skemmtilega í kringum okkur. Síðustu tvo klukkutímana fyrir svefn er gott að horfa á gamanmyndir, hlusta á tónlist, spjalla eða lesa góða bók í stað þess að festast yfir neikvæðum fréttum, áhyggjum af morgundeginum eða hörmunarhugsunum.“
 
Óvissuþol
 
„Nú er nauðugur einn kostur og hann er að þola við í óvissunni og ná að halda í skynsemina. Gæta skal þess að magna ekki upp eigin hugarvíl með því að jórtra á áhyggjum sínum einn eða tvö innanbæjar heldur viðra þær við aðra og fá speglun á þær og ná þannig að upplifa samkennd. 
 
Þegar áhyggjur eru yfirþyrmandi er líka gagnlegt að átta sig á hvernig hægt er að mæta deginum af æðruleysi. Að gera á hverjum degi það sem mögulegt er að gera, án þess að ganga fram af sér, og láta það eiga sig sem ekki er mögulegt þann daginn. 
 
Líka getur hentað sumum að halda dagbók, og skrá hjá sér hvernig staðan er, hvaða vá er fyrir dyrum og hvað gert er þann daginn. Oftast verður slík skráning til þess að fólk nær að gleðjast yfir því sem þó gerðist gott og gefa sjálfu sér klapp á bakið þrátt fyrir að einhvers konar hörmungar séu í gangi. Skráningin er líka gagnasöfnun um ferlið sem hægt er að skoða til að átta sig betur á hvernig þetta er allt saman og taka sem skynsamlegastar ákvarðanir þó staðan sé þröng.
 
Innan bæjar er huggandi og styrkjandi að sambýlisfólk, hjón, pör og fjölskyldur snúi sér virkilega að hvert öðru og auki nánd og hlýju í daglegum samskiptum. Svo er lífsnauðsynlegt að sofa á nóttunni, sofa eftir klukku í sjö til átta klukkutíma, ekki síst þegar lífið er snúið og leita sér faglegra hjálpar ef á þarf að halda. 
 
Enginn veit hvað framtíðin ber í skauti sér en það er samt næsta víst að við munum njóta áfram fegurðar náttúrunnar og fagna hrossagauknum þegar hann steypir sér  fjörlega yfir hlöðuburstinni í vor,“ segir Kristín Linda Jónsdóttir.
 
Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni
Fréttir 18. apríl 2024

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni

Vegamót á Bíldudal er matvöruverslun og veitingastaður. Gísli Ægir Ágústsson, ve...

„Allt of fáar messur“
Fréttir 18. apríl 2024

„Allt of fáar messur“

Tryggvi Sveinn Eyjólfsson, sem er á sautjánda aldursári, hefur vakið athygli fyr...

Íslenskar sængur um allan heim
Fréttir 18. apríl 2024

Íslenskar sængur um allan heim

Íslenskur dúnn ehf. selur æðardúnsængur beint til viðskiptavina um heim allan. Þ...

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign
Fréttir 17. apríl 2024

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign

Kristín Lárusdóttir og Guðbrandur Magnússon, bændur að Syðri- Fljótum í Meðallan...

Breyttar reglur um flutning líflamba
Fréttir 17. apríl 2024

Breyttar reglur um flutning líflamba

Verklagsreglur hafa verið endurskoðaðar um flutning á lömbum með verndandi eða m...

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins
Fréttir 16. apríl 2024

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins

Á fagfundi sauðfjárræktarinnar sem haldinn var á dögunum var Gýgjarhólskot í Bis...

Verulegur samdráttur í innflutningi á áburði
Fréttir 16. apríl 2024

Verulegur samdráttur í innflutningi á áburði

Matvælastofnun hefur birt leiðrétta skýrslu yfir áburðareftirlit síðasta árs.

Ísteka í yfirburðastöðu
Fréttir 15. apríl 2024

Ísteka í yfirburðastöðu

Í nýrri ályktun Samkeppniseftirlitsins kemur fram að Ísteka beiti sterkri stöðu ...