Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Jón Baldur Lorange, framkvæmdastjóri Búnaðarstofu hjá Matvælastofnun.
Jón Baldur Lorange, framkvæmdastjóri Búnaðarstofu hjá Matvælastofnun.
Mynd / smh
Fréttir 10. apríl 2017

Innleiðing búvörusamninga og greiðslur til bænda

Höfundur: Vilmundur Hansen

Talsverðar breytingar urðu á styrkjakerfi landbúnaðarins með nýjum búvörusamningum sem tóku gildi um síðustu áramót.

Jón Baldur Lorange, framkvæmdastjóri Búnaðarstofu hjá Matvælastofnun, segir mikið hafa reynt á starfsfólk Búnaðarstofu undanfarið við innleiðingu þeirra. „Við höfum náð að gera það sem við höfum átt að gera án tafa að neinu ráði. Aðalmálið var að allar greiðslur til bænda kæmust á réttum tíma í samræmi við nýjan búvörusamning, sem þær hafa gert.“

Breytingar á gripagreiðslum

„Í nautgriparækt urðu breytingar á útreikningi á gripagreiðslum, sem greiddar eru fyrir hverja árskú. Strangari krafa var sett um burð, en til að geta talist með í árskúafjölda búsins þarf kýrin að hafa borið að minnsta kosti annað hvert ár. Fyrir vikið fækkaði árskúm en á móti hækkaði greiðslan fyrir hverja árskú.
Svokallaðar A, B og C stuðningsgreiðslur í tengslum við greiðslumark og framleiðslu breyttust þannig að nú miðast greiðslur annars vegar við greiðslumarkið, beingreiðslur, og hins vegar innvegna mjólk, samkvæmt upplýsingum frá afurðastöð.

Fjárfestingastuðningur í nautgriparækt er nýr styrkjaflokkur. Umsóknarfrestur rann út í lok mars og alls bárust 169 umsóknir. Matvælastofnun hefur rúmlega mánuð til að leggja mat á hvort umsóknir uppfylli skilyrði fyrir stuðningi. Það er ljóst að framkvæmdahugur er í nautgripabændum enda liggja fyrir strangari kröfur frá stjórnvöldum um aðbúnað og velferð nautgripa,“ segir Jón Baldur.

Þess má geta að umsóknarfrestur um fjárfestingastuðning í svínarækt rennur út 1. maí, en hann var framlengdur um einn mánuð, og fjárfestingastuðningur í sauðfjárrækt verður ekki veittur fyrr en á næsta ári. Ekki liggur fyrir hvort framkvæmdir sem sauðfjárbændur ráðast í á þessu ári verði styrkhæfar, en málið er til skoðunar í ráðuneytinu. 

Breytingar í sauðfjárrækt

„Stærsta breytingin í sauðfjárræktinni var ársáætlun sem Búnaðarstofu er skylt að gera og greiða eftir. Með ársáætluninni vita bændur fyrirfram hvaða greiðslum þeir eiga von á og hvenær, en þær dreifast yfir allt árið, og síðan er ársuppgjör í febrúar 2018. Geymslugjaldið er fallið niður og var sett inn í aðrar stuðningsgreiðslur. Nýr styrkjaflokkur er svæðisbundinn stuðningur, sem samkvæmt búvörusamningi skal greiddur til bænda ,,á ákveðnum landsvæðum sem háðust eru sauðfjárrækt“ (8. gr.). Byggðastofnun var fengin til að koma með tillögu um skilgreiningu á þeim svæðum sem ættu kost á slíkum stuðningi og hvernig útdeilingu skyldi háttað. Matvælastofnun byggir síðan á gögnum frá Byggðastofnun við greiðslu á styrknum, en stofnunin nýtti jafnframt heimild í reglugerð um að víkja frá skilyrðum um fjarlægðarmörk í þeim tilfellum þar sem sýnt var fram á ófærð þjóðvega að lögbýli skv. skilgreiningu í reglugerð. 

Stuðningsgreiðslur til sauðfjárbænda árið 2017 eru beingreiðslur út á greiðslumark, svæðisbundinn stuðningur, gæðastýringargreiðslur og beingreiðslur í ull. Síðari tvær greiðslurnar eru áætlaðar miðað við framleiðslu síðastliðins árs, en verða síðan gerðar upp í ársuppgjöri miðað við framleiðslu þessa árs. Greiðslur til nýliða taka mið af ásetningi samkvæmt haustskýrslu.“

Jón Baldur segir Matvælastofnun hafa reiknað rafrænar ársáætlanir byggðar á viðamiklum gögnum í AFURÐ, greiðslukerfi landbúnaðarins, fyrir um 2.100 aðila, og birt þær á Bændatorginu, þar sem bændur hafa aðgang að þeim undir rafræn skjöl. Bændur höfðu 20 daga til að koma með athugasemdir við þær og á Matvælastofnun að hafa svarað öllum athugasemdum fyrir 15. apríl. Stofnunin er þegar búin að fara yfir langflestar athugasemdir sem hafa borist og gera leiðréttingar á ársáætlun bænda ef þess var þörf.

Skilyrði fyrir greiðslum

Að sögn Jóns Baldurs eru nú strangari skilyrði í nýjum búvörusamningum fyrir stuðningsgreiðslum en var áður. „Framleiðendur verða að vera skráðir eigendur eða leigjendur lögbýlis, stunda þar landbúnað sem fellur undir atvinnugreinanúmer í landbúnaði skv. atvinnuvegaflokkun Hagstofu Íslands, hafa virkt virðisaukaskattsnúmer, hafa staðið fullnægjandi skil á hjarðbók, heilsukorti (lyfja- og sjúkdómaskráning) og afurðaskýrsluhaldi Bændasamtaka Íslands.“

Jón Baldur segir að á fyrstu dögum og vikum nýs árs hafi þetta vafist fyrir þó nokkrum bændum að átta sig á þessum nýju skilyrðum, og því hafi álagið á starfsfólk Búnaðarstofu verið mikið við að veita upplýsingar og greiða úr flækjum sem komu upp í skráningum bænda í gagnagrunnum. „Eina leiðin til að tryggja fumlausa framkvæmd á svo umfangsmiklu kerfi var að byggja upp rafrænt stjórnsýslukerfi, og það hefur verið gert með tölvukerfinu AFURÐ á undanförnum árum. AFURÐ vinnur úr þeim gögnum sem eru til staðar hjá Matvælastofnun og Bændasamtökunum í mismunandi kerfum. Vandamál koma upp þegar skráningar á upplýsingum um bú eru ekki samræmdar, til dæmis ef bændur skrá greiðslumark á búi A en afurðaskýrsluhaldið er síðan fært á búi B. Ef AFURÐ hefur ekki verið ,,upplýst“ um þessi tengsl þá þýðir það einfaldlega: ,,The Computer says no“. Hluti af forritaþróun okkar í tengslum við nýja búvörusamninga er að tryggja að bændur fái tilkynningar í afurðaskýrsluhaldskerfum ef þeir eru ekki að uppfylla öll skilyrði um skil á skýrsluhaldinu. Þessum upplýsingum hefur síðan AFURÐ aðgang að þegar gengið er frá greiðslum til bænda. Þeir bændur sem standast ekki öll skilyrði eru settir sjálfkrafa í bið þangað til brugðist hefur verið við.“

Gripagreiðslur fyrir geitur

„Stjórnvöld ákváðu að styðja við geitfjárræktina í nýjum búvörusamningum. Við vorum að greiða fyrstu gripagreiðslurnar til geitfjárbænda í síðasta mánuði. Þetta eru um hundr­að geitfjáreigendur með um þúsund geitur,“ segir Jón Baldur.

Innlausn á mjólk

Jón Baldur segir að frá áramótum hafi verið einn innlausnardagur fyrir mjólk og að hann hafi verið líflegur. „Á þessum eina degi innleysti ríkið greiðslumark fyrir um eina milljón lítra af mjólk en eftirspurnin var rúmlega tvær milljónir lítra. Það fengu því ekki allir allt það magn sem þeir vildu kaupa. Úthlutun fór því eftir reglum um forgangshópa í samræmi við reglugerð um stuðning við nautgriparækt.“
1. maí verður svo annar innlausnardagur og segist Jón Baldur ekki eiga von á að hann verði jafn líflegur og sá fyrri.

Lífræn ræktun

„Stjórnvöld auka stuðning til aðlögunar að lífrænum framleiðsluháttum einnig umtalsvert frá því sem áður var. Árlega verður varið á samningstímanum um 35 milljónum króna, í stað 3,5 milljóna áður. Stuðningur við hvern framleiðanda getur að hámarki numið 50% af árlegum aðlögunarkostnaði. Umsóknum skal skila inn í rafrænt umsóknarkerfi Matvælastofnunar, eigi síðar en 15. maí ár hvert.“

Jarðræktarstyrkir og landgreiðslur

„Á þessu fyrsta ári nýs samnings eykst vægi jarðræktar í stuðningi ríkisins við landbúnað til muna. Á síðasta ári voru veittar um 237 milljónir í jarðræktarstyrki en í ár veitir ríkið alls um 618 milljónir í jarðræktarstyrki og landgreiðslur, þar sem landgreiðslustyrkur er nýr styrkjaflokkur. 

Búnaðarsamböndin sjá að úttektir og auknar kröfur eru gerðar varðandi túnkortagerð. Við höfum fundað með Landmælingum Íslands um samvinnu varðandi landupplýsingakerfi, og það hefur verið nefnt að möguleiki væri á að nýta gervitunglamyndir á vegum Evrópusambandsins. Mér er sagt að myndirnar séu það nákvæmar að það megi sjá hvað er verið að rækta á hverri spildu, en það hlýtur að auðvelda allt eftirlit.“

Sumarkomunni fagnað
Fréttir 25. apríl 2024

Sumarkomunni fagnað

Að venju verður opið hús í Garðyrkjuskólanum á Reykjum á sumardaginn fyrsta, fim...

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd
Fréttir 24. apríl 2024

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd

Síðan 2019 geta bændur og aðstoðarfólk notað fjölda leiðbeiningarmyndbanda, sem ...

Afurðamestu sauðfjárbúin
Fréttir 24. apríl 2024

Afurðamestu sauðfjárbúin

Í niðurstöðum skýrsluhalds í sauðfjárrækt fyrir síðasta ár, sem eru birtar hér í...

SS segir of flókið að upprunamerkja
Fréttir 24. apríl 2024

SS segir of flókið að upprunamerkja

Sláturfélag Suðurlands (SS) sér ekki hag í að upprunamerkja svínakjöt frá Korngr...

Hraðhlaðið við Galdrasafnið
Fréttir 23. apríl 2024

Hraðhlaðið við Galdrasafnið

Orkubú Vestfjarða hefur sett upp nýja 400 kW hraðhleðslustöð við Galdrasafnið á ...

Hámarksmagn minnkað í matvælum
Fréttir 23. apríl 2024

Hámarksmagn minnkað í matvælum

Innan skamms taka gildi breytingar á reglugerð þar sem leyfilegt hámarksmagn nít...

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland
Fréttir 22. apríl 2024

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland

Bæði þjónustu- og vöruviðskipti við Indland munu að öllum líkindum aukast á næst...

Jarðræktarmiðstöðin rís
Fréttir 22. apríl 2024

Jarðræktarmiðstöðin rís

Jarðræktarmiðstöð Landbúnaðarháskóla Íslands mun verða tilbúin árið 2027 gangi á...