Fréttir 11. maí 2018

Innlausn á greiðslumarki mjólkur

Vilmundur Hansen

Á öðrum innlausnardegi ársins 2018 fyrir greiðslumark mjólkur þann 1. maí var greiðslumark 23 búa innleyst og 110 handhafar lögðu inn kauptilboð.

Á innlausnardeginum 1. maí  innleysti Matvælastofnun, fyrir hönd ríkisins, greiðslumark 23 framleiðenda samtals 1.044.193 lítra að upphæð 127.391.546 krónur. Matvælastofnun úthlutaði 262.846 lítrum úr forgangspotti 1, 10% umframframleiðslupotti, 262.846 lítrum úr forgangshópi 2, nýliðahópi, og loks 525.692 lítrum úr almennum potti.

Tilboð um kaup á greiðslumarki voru frá 110 framleiðendum og var alls óskað eftir 33.302.367 lítrum. Í forgangi 1, framleiðendur sem höfðu framleitt 10% umfram greiðslumark á viðmiðunarárunum, voru 53 framleiðendur og í nýliðaforgangi voru 16 framleiðendur.

Innlausnarvirði greiðslumarks mjólkur er 122 krónur á lítra á árinu 2018 og annast Matvælastofnun innlausn greiðslumarks og innlausn greiðslumarks mjólkur fer fram 1. mars, 1. maí, 1. september og 1. nóvember ár hvert.