Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Jón Gíslason á Stóra-Búrfelli, oddviti Húnavatnshrepps.
Jón Gíslason á Stóra-Búrfelli, oddviti Húnavatnshrepps.
Fréttir 20. júlí 2018

„Horfum fram á ískyggilega stöðu“

Höfundur: MÞÞ

„Við höfum verulegar og vaxandi áhyggjur af ástandinu. Við byggjum allt okkar á landbúnaði, hér er ekkert þéttbýli en stór hluti íbúanna byggir afkomu sína á sauðfjárbúskap,“ segir Jón Gíslason á Stóra-Búrfelli og  oddviti Húnavatnshrepps.

Sveitarstjórn hefur skorað á sláturleyfishafa að borga viðunandi verð til sauðfjárbænda í haust. Lágt afurðaverð muni koma mjög illa niður á sauðfjárbændum í sveitarfélaginu.

Ungu bændurnir með stóru búin verða fyrstir til að bregða búi

Jón bendir á að í fyrrahaust hafi afurðaverð lækkað um 35% og árið þar á undan um 10%. „Það er alveg ljóst að lágt afurðaverð er í raun skerðing á rekstararafkomu sauðfjárbænda og alls óvíst hversu mörg bú muni standa undir því. Þolmörkum hefur þegar verið náð. Það má gera ráð fyrir að ungu bændurnir með stóru búin verði fyrstir til að gugna, neyðast til að bregða búi og þá er nú stutt í að samfélagið hrynji,“ segir hann.

Ríkið greiddi í fyrrahaust uppbót til bænda í kjölfar þess að afurðaverð lækkaði umtalsvert í einu vetfangi. „Það var gert í ljósi þeirrar stöðu sem þá var uppi og skýrt tekið fram að það yrði í þetta eina skipti svo varla getum við átt von á því aftur. Hafi sláturleyfishafar ekki burði til að greiða hærra verð horfum við fram á ískyggilega stöðu, það verður ansi drungalegt um að litast hér um slóðir,“ segir Jón.

Nauðsynlegt að taka upp flutningsjöfnun

Furðar hann sig á að sláturleyfishafar hafi ekki í fyrrahaust beitt sér fyrir því að tekin yrði upp flutningsjöfnun, það séu þeir sem hafi burðina til að pressa á stjórnvöld. Verið sé að aka fé til slátrunar um langan veg í flestum tilvikum. Bendir hann til að mynda á að algengt sé að bændur á Vestfjörðum slátri sínu fé hjá SAH-Afurðum á Blönduósi og aki jafnvel allt að 500 kílómetra leið með það. „Það kostar alveg gríðarlega mikið og ég er hissa á sláturleyfishöfum að hafa ekki beitt sér fyrir því að tekin yrði upp flutningsjöfnun, þeir hafa mest vægi og þunginn í umræðunni hefði átt að koma frá þeim. Svo var ekki, þetta var aldrei rætt.

Sveitarstjórn Húnavatnshrepps hefur skorað á stjórnvöld að finna leiðir til að styrkja hinar dreifðu byggðir landsins eins og til að mynda með niðurgreiðslu á flutningskostnaði á ull og sláturfé. Með því móti yrði komið á móts við þann mikla kostnað sem sláturleyfishafar og aðrir í úrvinnslu sauðfjárafurða bera vegna flutninga og sá sparnaður myndi skjóta fastari stoðum undir rekstur afurðastöðvanna.

Afurðastöðvar loka á nýja innleggjendur

Jón nefnir að sláturleyfishafar séu fáir og stórir og hafi burði til að loka á sauðfjárbændur. Viti hann dæmi þess. SAH-Afurðir er það sláturhús sem næst er Húnavatnshreppi og segir Jón að þar á bæ hafi í fyrrahaust verið greitt einna lakast verð fyrir afurðir. Bændur þar um slóðir hafi þreifað fyrir sér hjá öðrum, ætlað þá að aka fé sínu um lengri veg í þeirri von að fá ögn meira greitt fyrir. „Ég veit að bændur hér hafa verið að spyrjast fyrir og beinast liggur við að reyna fyrir sér hjá KS á Sauðárkróki, en þar er allt læst, þeir taka ekki við nýjum innleggjendum. Auðvitað er maður kannski ekki hissa á því að sláturhúsin vilji ólmir taka meira inn fyrst svona illa gengur að selja afurðirnar. Hinir sláturleyfishafarnir treysta á þetta ástand, að menn hafi ekki val um hvar þeir slátra, þeir komist ekkert annað og neyðast til að skipta við sitt sláturhús.“

Heimtökugjaldið hækkaði

Jón segir einnig að sveitarstjórn Húnavatnshrepps hafi einnig bent á að tryggja þurfi að bændur geti fengið slátrað á hóflegu verði vilji þeir sjálfir afsetja sínar afurðir. „Það eru margir sem vilja spreyta sig á því verkefni í þeirri von að fá hærra verð. Því miður er þá sú staða upp á teningnum að heimtökunni fylgir gríðarlega hár kostnaður, þannig hækkaði KS heimtökugjaldið verulega í fyrra þannig að eiginlega er búið að taka fyrir þann möguleika bænda þó vissulega sé munur á þessu gjaldi milli sláturleyfishafa.“ 

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni
Fréttir 18. apríl 2024

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni

Vegamót á Bíldudal er matvöruverslun og veitingastaður. Gísli Ægir Ágústsson, ve...

„Allt of fáar messur“
Fréttir 18. apríl 2024

„Allt of fáar messur“

Tryggvi Sveinn Eyjólfsson, sem er á sautjánda aldursári, hefur vakið athygli fyr...

Íslenskar sængur um allan heim
Fréttir 18. apríl 2024

Íslenskar sængur um allan heim

Íslenskur dúnn ehf. selur æðardúnsængur beint til viðskiptavina um heim allan. Þ...

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign
Fréttir 17. apríl 2024

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign

Kristín Lárusdóttir og Guðbrandur Magnússon, bændur að Syðri- Fljótum í Meðallan...

Breyttar reglur um flutning líflamba
Fréttir 17. apríl 2024

Breyttar reglur um flutning líflamba

Verklagsreglur hafa verið endurskoðaðar um flutning á lömbum með verndandi eða m...

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins
Fréttir 16. apríl 2024

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins

Á fagfundi sauðfjárræktarinnar sem haldinn var á dögunum var Gýgjarhólskot í Bis...

Verulegur samdráttur í innflutningi á áburði
Fréttir 16. apríl 2024

Verulegur samdráttur í innflutningi á áburði

Matvælastofnun hefur birt leiðrétta skýrslu yfir áburðareftirlit síðasta árs.

Ísteka í yfirburðastöðu
Fréttir 15. apríl 2024

Ísteka í yfirburðastöðu

Í nýrri ályktun Samkeppniseftirlitsins kemur fram að Ísteka beiti sterkri stöðu ...