Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Hárgreiðslumeistari úr höfuðborginni gerðist geitabóndi í Flóanum
Mynd / H.Kr.
Fréttir 17. júlí 2017

Hárgreiðslumeistari úr höfuðborginni gerðist geitabóndi í Flóanum

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Helena Hólm hárgreiðslumeistari fluttist ásamt eiginmanni sínum, Stefáni Þór Rögnvaldssyni, smið og múrara, úr Reykjavík að Skálatjörn austur í Flóa fyrir þremur árum. Þar gerðust þau geita- og ferðaþjónustubændur. Helena segist engin tengsl hafa haft við sveitina áður en þau ákváðu að söðla um en þau sjái alls ekki eftir því. 
 
Helena stofnaði og rak Hárgreiðslustofu Helenu og Stubbalubba frá 2002 til 2015, en Stubbalubbar var hárgreiðslustofa fyrir börn og er enn í rekstri undir heitinu Stubbalubbar ehf. Helena segir að slitgigt hafi verið farið að angra sig þannig að hún gat ekki lengur unnið við hárgreiðslustörfin. Stefán hafði þá nóg að gera í sínu fagi sem smiður og múrari. Bæði segja þau að vinirnir hafi litið á þau stórum augum þegar þau ákváðu að söðla algjörlega um, selja eignir sínar, rífa sig upp úr borgarmenningunni og flytja út í sveit. Stefán segist nú hvergi annars staðar vilja búa og hann fari helst ekki til Reykjavíkur lengur nema brýna nauðsyn beri til.   
 
Áttu engin tengsl við sveitina þegar þau fluttu
 
„Við fluttum frá Reykjavík í sveitina haustið 2014. Ég er hárgreiðslumeistari og sagði skilið við starfið í borginni og gerðist geita- og ferðaþjónustubóndi. Ég á engar rætur í sveitinni, en ég og maðurinn minn ákváðum bara að skipta um gír og flytja. Við höfum alls ekki séð eftir því og mér finnst alveg meiri háttar að vera hér. Þar að auki er geitin alveg frábært dýr að vinna með og hægt að nýta hana til margs,“ segir Helena.
 
Keyptu fyrrum hestabúgarð
 
Þau hjón keyptu Skálatjörn sem rekin hafði verið sem hestabúgarður. Þar eru hesthús sem nú eru notuð undir geiturnar. Þá er stór reiðhöll á bænum og vélageymsla, en þau Helena og Stefán hafa ekki ákveðið hvað þau gera með reiðhöllina sjálfa. Áfastri vélageymslu eru þau búin að breyta í gistiaðstöðu með 6 litlum stúdíóíbúðum og í hluta reiðhallar er líka komin íbúð. Þá eru þau með gistiaðstöðu í íbúðarhúsinu líka og geta í heild tekið við 22 gestum í einu. 
 
Blaðamaður Bændablaðsins hitti Helenu fyrst á fjölskylduhátíðinni Fjör í Flóa sem haldin var við félagsheimilið Þingborg í Flóa í maí. Þar var hún með sölubás að kynna sína eigin framleiðslu sem unnin er úr geitaafurðum og var auðvitað tekin tali. 
 
„Ég er að þróa geitaafurðir á Suðurlandi,“ sagði Helena. Hún segist hafa fengið styrk frá Nýsköpunarsjóði Suðurlands til að þróa geitapylsur og geitapaté (geitakæfu). Hún fékk mjög góðar móttökur á hátíðinni með sínar afurðir og sagðist svolítið hissa á þessum góðu viðbrögðum. Fólk hafi verið ófeimið við að smakka og bragðið hafi komið mörgum á óvart og enginn hafi verið ósáttur. 
 
Kynnir möguleikana í framleiðslu geitaafurða
 
„Ég er að vinna í þessu núna og hef verið að kynna þessar afurðir. Ég er líka í samvinnu við Geitfjárræktarfélagið og hef hug á að koma geitinni betur á framfæri. Þannig vil ég kynna geitakjötið og hjálpa til við að nýta geitina eins og við getum.“
 
22 geitur og fer fjölgandi
 
-Hvað eruð þið með margar geitur?
„Við vorum nú síðast með 22 vetrarfóðraðar geitur og fer trúlega í 30 næsta vetur. Þá stefni ég allavega á að vera ekki með færri en 50 geitur.
 
Ég stefni líka á að mjólka þær og framleiða geitaost fyrir heimilið til að byrja með og selja aðrar afurðirnar beint frá býli. Ég hef aðeins prófað að mjólka og búa til osta sem er mjög gaman. Ég fer að færa kiðin frá geitunum þegar líður á sumarið og þau verða stærri. Þá get ég farið að mjólka og prófa mig áfram í ostagerð. Annars mun ég reyna að nýta geitina eins og hægt er og m.a. kemba þær og hirða fiðuna til að spinna úr henni band.“
 
Verið að setja upp litla spunaverksmiðju
 
Helena segir að geitabændur hafi lengi haft hug á að kaupa vélar til vinnslu á þelinu eða geitafiðunni hér heima. Fram til þessa hafa íslenskir geitabændur einkum sent fiðu í spunaverksmiðjur í Noregi, en það er mjög dýrt og erfitt við að eiga. 
 
Nú eru hjónin Hulda Brynjólfsdóttir og Tyrfingur Sveinsson á Tyrfingsstöðum, rétt austan Þjórsár á Suðurlandi, að kaupa tæki og búnað til að setja upp litla spunaverksmiðju. Vélarnar eru af Belfast Mini Mill gerð og koma frá Kanada. Hefur fjármagni vegna kaupanna m.a. verið safnað í gegnum fjármögnunarsíðuna indiegogo.com. Byrjað var að setja vélbúnaðinn upp í síðustu viku með aðstoð tæknimanns frá Kanada.
 
Hulda sagði í samtali við Bændablaðið að allt væri þetta gert í nafni fyrirtækis þeirra hjóna sem heitir Sveitakallinn en reksturinn á spunaverksmiðjunni verður undir nafninu Uppspuni. 
 
Helena Hólm hárgreiðslumeistari ásamt eiginmanni sínum, Stefáni Þór Rögnvaldssyni, smið og múrara. Þau rifu sig upp og seldu eigur sínar í Reykjavík og fluttust að Skálatjörn í Flóa til að gerast geita- og ferðaþjónustubændur. Nú vilja þau hvergi annars staðar vera.  
 
Fyrst og fremst verður stílað inn á að framleiða band sem er meðhöndlað af meiri varúð en stærri vélar ráða við og því verður bandið mýkra. Hægt verður að koma með ull til þeirra og fá hana unna í band eftir óskum, eða í kembur sem hægt verður að handspinna úr eða þæfa.
 
Er smám saman á læra á geitina
 
„Maður er smám saman að kynnast geitinni og læra meira á hana,“ segir Helena. „Hún er talsvert frábrugðin sauðfénu. Við vorum líka með fé, en létum það allt frá okkur og ákváðum að gerast bara geitabændur. 
 
Geitur eru mannelskar líkt og hundar. Geiturnar sem ég er að rækta eru frekar gæfar og það dugar að flauta, þá elta þær mig og koma á eftir mér inn í hús. Þær vilja helst allar fá klór og klapp og ég held að ef maður er góður við þær þá strjúki þær ekkert frá manni. Þær fá að éta og fá hlýju og þar sem þær eru hjarðdýr þá halda þær mjög hópinn. Það er því orðið mjög vinsælt að koma í heimsókn til okkar og skoða geiturnar. Þetta er líka mjög skemmtilegt og gaman að þróa vöru úr því sem geitin gefur af sér.“
 
Margir hissa á geitaáhuganum
 
Helena segir að bændur í sveitinni hafi svo sem ekki haft sérlega mikið álit á hennar búskap og undrist að hún skuli velja sér geitur sem bústofn. Menn hafi ekki haft sérlega mikla trú á að það sé hægt að nýta geitur til að framleiða boðlegar afurðir. Þá segir hún að menn haldi að erfitt sé að eiga við geiturnar og að þær séu strokgjarnar og stökkvi yfir girðingar. Helena segir sína reynslu allt aðra og þegar hún hafi verið að bjóða upp á geitakjöt sé fólk oft búið að dæma fyrirfram án þess að hafa smakkað.
 
Skálatjörn í Flóa.
 
Geitakjöt er með hærra próteinhlutfall  og fituminna en lambakjöt. Einnig er það þéttara, með fínni kjöttrefjar og rauðara en lambakjötið. 
 
Hún segir að geitur hafi í gegnum tíðina ekki þótt vænlegar til að búa með. Þær hafi fyrst og fremst verið dýr fátæka mannsins, en séu verulega vanmetnar skepnur. Það hafi m.a leitt til þess að íslenska geitin er í útrýmingarhættu. Stofninn var kominn niður í 222 dýr árið 1981, en geitum hefur hægt og bítandi verið að fjölga á síðustu áratugum. Þannig var stofninn kominn í 1.188 skepnur á síðasta ári, samkvæmt tölum Búnaðarstofu MAST. 
 
Geiturnar á Skálatjörn eru einstaklega geðgóðar og skemmtilegarog segist Helena hafa lagt mikið upp úr að velja til sín skapgóð dýr til ræktunar. Þótt þær séu á beit langt úti á túni, þá dugar fyrir Helenu að flauta á þær heima við bæ, þá koma þær strax hlaupandi. 
 
Þann 1. janúar 2017 tók gildi reglugerð um geitfjárbúskap. Þar er tekið fram að til að geta fengið styrk til að viðhalda viðkvæmum geitastofni, verði ræktendur að búa á lögbýli. Helena segir að margir geitabændur séu ósáttir við þessa reglugerð, enda búi þeir ekki allir á lögbýlum. Eigi að síður hyggjast þessir bændur láta reyna á hvort þeir muni njóta aðstoðar eins og áður.    
 
„Það er verulega gaman að fá að taka þátt í þessari uppbyggingu og verndun stofnsins. Samt bý ég á sýktu svæði og get því ekki selt frá mér lífdýr. Að sama skapi verð ég að fara yfir nokkrar varnarlínur til að ná mér í dýr til að fjölga í mínum stofni. Það má því segja að ég sé í svolítilli klemmu að vera staðsett hér,“ segir Helena Hólm. Hún er þó afskaplega ánægð með að hafa tekið þá ákvörðun að flytja austur í Flóa.
Halla tekur upp Íslenskt staðfest
Fréttir 28. mars 2024

Halla tekur upp Íslenskt staðfest

Halla Sif Svansdóttir Hölludóttir, garðyrkjubóndi og eigandi Sólskins grænmetis ...

Uppfærsla á stefnumörkun Bændasamtaka Íslands
Fréttir 27. mars 2024

Uppfærsla á stefnumörkun Bændasamtaka Íslands

Fjölmörg mál voru til afgreiðslu á nýliðnu Búnaðarþingi 2024, úr fimm nefndum, s...

Endurnýting heimil til 1. nóvember 2025
Fréttir 27. mars 2024

Endurnýting heimil til 1. nóvember 2025

Matvælaráðuneytið hefur tilkynnt um frestun á gildistöku banns við endurnýtingu ...

Horfið frá framleiðslutengdum stuðningi
Fréttir 27. mars 2024

Horfið frá framleiðslutengdum stuðningi

Fyrirkomulag landbúnaðarstuðningskerfis á Íslandi mun taka miklum breytingum ef ...

Hyggur á slátrun í haust ef leyfi fæst
Fréttir 26. mars 2024

Hyggur á slátrun í haust ef leyfi fæst

Fyrrverandi sláturhússtjóri á Vopnafirði ætlar ekki að láta deigan síga þrátt fy...

Niðurskurði lokið á fé úr Blöndudal
Fréttir 26. mars 2024

Niðurskurði lokið á fé úr Blöndudal

Niðurskurður á sauðfé frá bæjunum Eiðsstöðum og Guðlaugsstöðum í Blöndudal fór f...

Kornræktarfélag gengur í endurnýjun lífdaga
Fréttir 26. mars 2024

Kornræktarfélag gengur í endurnýjun lífdaga

Kornræktarfélag Suðurlands verður endurvakið sem viðskiptavettvangur ræktenda og...

Grípa þarf tækifærin
Fréttir 26. mars 2024

Grípa þarf tækifærin

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, telur að bændur eigi að leyfa sér að hor...