Egill Rafn Sigurgeirsson, for­maður Býflugnaræktendafélags Íslands.
Fréttir 28. október 2019

Góð hunangsuppskera á Suðvesturlandi

Vilmundur Hansen

Nýliðið sumar var einstaklega gott fyrir býflugnaræktendur á Suðvesturlandi og upp­skera víða góð. Verr gekk annar­s staðar á landinu. Í dag eru um 130 virkir meðlimir í Býflugna­ræktendafélagi Íslands.

Egill Rafn Sigurgeirsson, for­maður Býflugnaræktendafélags Íslands, segir að eldið hafa gengið mjög vel suðvestanlands í sumar enda sumarið frábærlega gott miðað við sumarið í fyrra en að það hafi gengið erfiðar annars staðar á landinu.

Nákvæmt skýrsluhald

„Sem stendur eru um 130  með­limir í félaginu og þar af 52% konur. Dreifing búa er þannig um landið að á Suðurlandi eru 31 býflugnagarður en fjöldi búa í hverjum garði er breytilegur. Á Suðvesturlandi eru 20 garðar, 11 á Vesturlandi, 7 á Vestfjörðum, 4 á Norðurlandi, eitt á Norðausturlandi og tvö á Austurlandi.

Félagið heldur saman ýmiss konar upplýsingum um ræktunina og við gefum út skýrslu um árangurinn á hverju ári. Í skýrslunni eru meðal annars upplýsingar um hversu mörg bú er sett á yfir veturinn og hversu mörg lifa veturinn af. Við söfnum einnig upplýsingum um hversu mikið magn af hunangi búin gefa.“

Egill segir að hunangsuppskera sé reiknuð á öll bú sem sett eru á vetur eða vetruð og meðaltals uppskera á bú undanfarin ár hafi verið um átta kíló en að sjálfsögðu sé breiddin mikil og geti farið úr því að vera ekkert en að hann sjálfur hafi mest fengið 60 kíló úr einu búi. „Uppskeran er meiri í góðum sumrum en þegar rignir mikið og ég á því von á góðri uppskeru sunnanlands í sumar þrátt fyrir að hafa ekki enn tekið það saman.

 

Við fluttum inn 72 ný bú í sumar og þau gefa venjulega ekki neitt fyrsta sumarið og það gera afleggjarar ekki heldur. Það eru því tveggja ára bú og eldri sem gefa hunang.“

Hunangið misjafnt að gæðum

„Gæði hunangs fara eftir flórunni sem flugurnar lifa við og árstíma og besta hunangið er talið koma af nýblómstruðum beitilyngsbreiðum. Lyngið blómstrar í ágúst og hunangið sem af því fæst er bæði þykkt og olíukennt og erfitt að ná því úr römmunum en það er mjög gott.“


Gott skjól skiptir mestu

„Það sem skiptir mestu þegar kemur að því að rækta býflugur er gott skjól og því nauðsynlegt að velja góðan stað fyrir búin eða býflugnagarðana. Ég segi fólki einnig að velja heitasta staðinn sem það hefur völ á fyrir búin, hvort sem það er í heimagarði, við sumarbústaðinn eða í skóglendi. Þar sem fer vel um búin dafna þau vel og geta stækkað og gefa jafnvel afleggjara í ný bú.“

Egill segir að býflugnarækt hér á landi og víðar sé áhugamál og eins og með mörg áhugamál sé nokkur stofnkostnaður í kringum það. „Ætli kostnaðurinn í dag liggi ekki á milli 200 til 300 þúsund krónur og þá er ég að tala um að kaupa bú, klæðnað, tæki og tól og svo liggur kostnaður í því að sækja námskeið hjá félaginu og ræktunina.

Nánari upplýsingar er hægt að fá á heimasíðu félagsins, www.byflugur.is og einnig erum við með Facebook-hóp, Býfluga:D, þar sem meðlimir eru nú 581.“

Flugur frá Álandseyjum

„Félagið flytur inn bú frá Álands­eyjum vegna þess að það er eina landið í heiminum sem er með sjúkdómalausar býflugur fyrir utan Ísland. Búin koma til landsins seinni hluta júní og eru sett í þar til gerðar kúpur eða kassa með römmum og vaxi og við gefum flugunum fóður, sykur og frjódeigsfóður fyrstu vikurnar til að hjálpa þeim af stað.

Á haustin, upp úr miðjum ágúst, eru allir hunangsrammar teknir frá búunum og flugunum í hverju búi gefið sykur, 20 til 40 kíló, sem er leystur upp í vatni og er vetrarforði þeirra í staðinn fyrir hunangið sem við tökum frá þeim. Síðan er beðið fram á vor og vonað að flugurnar lifi veturinn af og lifun búa hér á landi hefur verið að meðaltali í kringum 65% undanfarin ár,“ segir Egill.