Mynd/TB Guðríður Helgadóttir, Gurrý á Reykjum, er forstöðumaður starfs- og endurmenntunardeildar Landbúnaðarháskóla Íslands.
Fréttir 15. janúar 2020

Getum ræktað miklu meira af grænmeti á Íslandi

Ritstjórn

Guðríður Helgadóttir, Gurrý á Reykjum, er gestur Áskels Þórissonar í hlaðvarpsþættinum Skeggrætt. Hún er forstöðumaður starfs- og endurmenntunardeildar Landbúnaðarháskóla Íslands og staðarhaldari í Garðyrkjuskólanum á Reykjum, en þar er garðyrkjunám LbhÍ til húsa. Guðríður hlaut riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu um síðustu áramót fyrir störf á vettvangi íslenskrar garðyrkju og miðlun þekkingar.

Gurrý segir í viðtalinu að hægt sé að rækta miklu meira af grænmeti á Íslandi en gert er nú um stundir. Í bæjum hefur stóraukinn gróður breytt ásýnd byggðar og skapað skjól sem áður var óþekkt. 

Þá minnir Gurrý á að jarðhitinn á Íslandi gerir landsmönnum kleift að rækta grænmeti á umhverfisvænan hátt. Þá noti Íslendingar sama vatn og þeir drekka til að næra plönturnar sem þeir rækta.

Gurrý segir að samstarf skólans og atvinnugreinarinnar – garðyrkjunnar – hafi verið mjög gott og lagt grunninn að árangri skólans á ýmsum sviðum. Í samvinnu skóla og fagaðila var gerð ný námskrá sem var samþykkt af menntamálaráðuneytinu fyrir ári síðan en er nú til frekari umræðu í ráðuneytinu.

Þátturinn Skeggrætt er hýstur undir merkjum Hlöðunnar, hlaðvarps Bændablaðsins, á öllum helstu streymisveitum. Hægt er að hlusta á þáttinn hér undir.