Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Stefán Bragi Bjarnason, framkvæmdastjóri Lely Center á Íslandi. Á innfelldu myndinni getur að líta nýjasta mjaltaþjóninn, Lely Astronaut A5, sem kynntur var til leiks á síðasta ári.
Stefán Bragi Bjarnason, framkvæmdastjóri Lely Center á Íslandi. Á innfelldu myndinni getur að líta nýjasta mjaltaþjóninn, Lely Astronaut A5, sem kynntur var til leiks á síðasta ári.
Mynd / H.Kr.
Fréttir 23. apríl 2019

Fyrstu tveir mjaltaþjónarnir á Íslandi komu fyrir nær tuttugu árum

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Fyrstu tveir mjaltaþjónarnir á Íslandi voru settir upp fyrir nær 20 árum og eru enn í fullri notkun. Báðir eru þeir af Lely gerð en umboðið er nú orðið að útibúi sem er í 50% eigu móðurfélagsins í Hollandi. 
 
VB-landbúnaður ehf. hefur frá 2009 verið umboðsaðili Lely á Íslandi að Krókhálsi 5 í Reykjavík og forvera þess frá 1999. Í haust var breytt um nafn og fyrirtækið straumlínulagað í kringum þjónustu við Lely mjaltaþjónana. Heitir fyrirtækið nú Lely Center Ísland og er  rekið á sömu kennitölu og VB-landbúnaður áður.
 
Stefán Bragi Bjarnason framkvæmdastjóri segir að þetta hafi gerst í kjölfar þess að helmingseigandi fyrirtækisins, sem er Lely í Hollandi, seldi frá sér alla hollensku heyvinnuvéladeildina til AGCO. Á sama tíma var seld verksmiðja Lely í Wolfenbuttel í Þýskalandi sem framleiddi Lely Tornado rúllubindivélar í samstarfi við Welger. Þess má geta að AGCO er móðurfélag þekktra nafna eins og Massey Ferguson, Fendt, Valtra, Challenger, GSI, Fella, Fuse, Gleaner, Sunflower, White Planters og fleiri.
 
Um leið var ákveðið að hætta að selja dráttarvélar og heyvinnutæki hjá Lely Center Íslandi og leggja megináherslu á sölu og þjónustu við Lely tækjabúnað fyrir fjós og einnig ýmsa aðra varahluti og rekstrarvörur fyrir íslenska bændur. Þar má nefna gjafagrindur, hlið og stíugrindur, haugsugur, haughrærur,  rúllugeipar og margt fleira. Þá hefur verið unnið að endurskipulagningu á versluninni að Krókhálsi í Reykjavík og öll starfsemin flutt upp á efri hæð hússins og við það verður verslunarplássið fyrir rekstrarvörurnar mun stærra.
 
Algjörlega hættir í dráttarvélaslagnum
 
„Nú erum við bara að selja síðustu heyvinnuvélarnar og þar með förum við að einbeita okkur að rekstrarvörum og öllu sem tengist Lely. Við erum algjörlega hættir í dráttarvélaslagnum og ætlum okkur ekki að taka þátt í honum frekar,“ segir Stefán.  Hann segir að starfsmönnum hafi auðvitað fækkað við þessar breytingar, eða úr 26 í 21 eins og staðan er í dag.
 
„Það munaði mestu um að við hættum með John Deere dráttarvélarnar þegar nýr umboðs­aðili tók við því vörumerki á Íslandi. Á árinu 2018 hættum við síðan líka með Avant vinnuvélarnar.“ 
 
Orðið hluti af Lely Center samfélaginu
 
Lely keypti hlut í VB-landbúnaði 2009 til að tryggja rekstur Lely mjaltaþjónanna á Íslandi. 
„Í nóvember á síðasta ári gerðum við sérstakan Lely Center samning þar sem Lely er 50% eigandi. Þar með erum við orðin eitt af 182 formlegum Lely Center miðstöðvum um allan heim og útibú Lely hér á landi. Samt sem áður erum við að selja mjög mikið af rekstrarvörum og varahlutum fyrir utan það sem viðkemur Lely mjaltaþjónunum.“
 
Þegar blaðamaður Bændablaðsins leit þar við í heimsókn hjá Lely Center á Krókhálsi í síðustu viku voru starfsmenn búnir að koma sér þokkalega fyrir  í nýrri aðstöðu, en mörg handtökin eru samt eftir. 
 
Bjúgnapressur seldar í stórum stíl 
 
Þótt starfsemi Lely Center snúist mikið um sölu og þjónustu á mjaltaþjónum þá má finna þar ýmsa aðra vöruflokka eins og búnað til heimavinnslu matvæla. Segist Stefán t.d. vera búinn að selja ógrynni af bjúgnapressum, sem erlendir birgjar undrist mjög. Þannig hafi þeir spurt að því hvort ekki væri bjúgnasalar á hverju einasta götuhorni á Íslandi. Sérstaðan hér á landi varðandi þessar vélar er samt sú að þær eru jafnvel fremur notaðar við sláturgerð en að búa til bjúgu.
 
Telur mikla uppstokkun framundan í kúabúskap
 
Stefán segist búast við að mikil uppstokkun eigi eftir að verða í kúabúskap á Íslandi. Kúabændur hafi nýverið greitt atkvæði um og samþykkt að haldið verði áfram með kvótakerfið. Ef samningar gangi eftir við ríkið þá megi búast við að til verði alvöru kvótamarkaður. Þar muni þeir sem ekki hafi tök á að endurnýja sín fjós í samræmi við aðbúnaðarreglugerðir selja sig út úr greininni og eflaust einhverjir fleiri. Það þýði að kúabúum fækkar og þau sem eftir verða muni allavega sum verða stærri. 
 
Í sauðfjárbúskap sé afkoman ekki góð þessa dagana og greiðslugeta til tækjakaupa og endurnýjunar þar af leiðandi fremur lítil.
 
20 ár frá gangsetningu fyrstu mjaltaþjónanna á Íslandi
 
Lely var fyrsti mjaltaþjónninn sem kom á markað á Íslandi, en það var 1999. Var þessi tegund einráð á markaðnum í nokkur ár. Segir Stefán að það hafi í upphafi tekið þó nokkurn tíma að sannfæra bændur um að þetta virkaði allt saman og dygði meira en nokkur misseri. 
 
Bjóla og Hvassafell riðu á vaðið
 
„Það voru tveir róbótar settir upp 1999 í Bjólu í Djúpárhreppi og á Hvassafelli undir Eyjafjöllum og eru báðir enn í gangi á sömu bæjum.  
 
Þegar þessir mjaltaþjónar voru seldir spurðu menn eðlilega um endingu. Fljótlega var það gefið út af framleiðanda að endingartíminn væri að lágmarki 12 ár. Nú eru að verða komin tuttugu ár. 
Enn er 41 mjaltaþjónn af gerðinni Lely A2 í gangi, en nýjasti mjaltaþjónninn sem kynntar var í fyrravor er af gerðinni Lely Astronaut A5.“
 
Stefán segir að enn sé ekki vandamál að fá varahluti í elstu mjaltaþjónana en auðvitað sé þó frekar dýrt að halda við 20 ára gömlum tækjum. 
 
„Oft er tekið sem dæmi að þegar mjaltaþjónarnir voru fundnir upp voru varla til GSM símar. Menn geta því rétt ímyndað sér tæknibreytinguna síðan og margt er því orðið úrelt í tækninni sem fyrstu mjaltaþjónarnir byggðu á, þótt þeir virki enn vel.“
 
Um 17 sinnum betri ending en á dráttarvélum
 
Til gamans þá nefnir Stefán að gott þyki að dráttarvél skili án mikilla áfalla 10.000 klukkustunda notkun á sínum ferli. Mjaltaþjónn sem búinn er að vinna í 24 tíma á sólarhring í 20 ár hefur hins vegar skilað hátt í 175 þúsund klukkustundum ef bilanastopp hafa verið fá. Það er ríflega 17 sinnum betri nýting en á dráttarvél sem kostar kannski svipað í innkaupum. Auðvitað er ólíku saman að jafna, en í báðum tilfellum eru verið að tala um vélræn tæki. 
 
Snýst fyrst og fremst um þjónustuna
 
„Hjá bændum snýst þetta um að tækin virki því mjaltaþjónarnir eru í gangi allan sólarhringinn alla daga ársins. Ef þeir stoppa í fjóra til sex klukkutíma, þá getur farið að verða tjón. 
 
Þetta snýst því fyrst og fremst um hversu góð þjónustan er á bak við mjaltaþjónana. Um þetta erum við að hugsa alla daga og passa upp á að við eigum alltaf varahluti. Þá erum við líka með þjónustumenn á nokkrum stöðum á landinu sem geta brugðist hratt við og það minnkar kostnað við akstur. Við erum þannig með þjónustumenn í Eyjafirði, í Skagafirði, á Selfossi og í Reykjavík,“ segir Stefán.
 
Nýrri gerðirnar allar tölvutengdar
 
Fyrir Lely A2 og A3 er boðið upp á sex þjónustuheimsóknir á ári. Fyrir nýrri gerðirnar er ekki talin þörf á svo mörgum heimsóknum, eða aðeins tveimur til þremur á ári. Frá 2006 eru allir mjaltaþjónarnir tölvutengdir og hægt að þjónusta þá yfir netið eða jafnvel í gegnum síma. 
Stefán segir að Lely mjalta­þjónarnir séu gefnir upp fyrir að ráða við að mjólka 65–70 kýr. Ef bændur eru með fleiri kýr og tvo róbóta þá þykir hæfilegt að hvor mjaltaþjónn þjóni um 60 kúm. Aðstæður í fjósunum eru þó æði mismunandi sem og ástand gripanna, svo þessar tölur eru alls ekki algildar. 
 
Sprenging í sölu mjaltaþjóna eftir 2002
 
„Enginn mjaltaþjónn var settur upp árið 2000. Þá var bannað að selja mjaltaþjóna vegna þess að salmonella hafði fundist í fjósinu í Bjólu. Var tækinu kennt um sem smitbera, en seinna þótti talið líklegast að fugl hafi skilið eftir drit í heyrúllu. Einnig var mikið um að fólk kæmi í þetta fjós til að skoða þetta undratæki. Kannski var ekki endilega hugsað nógu vel um hvaðan gestirnir voru að koma og þá staðreynd að kjúklingasláturhús er þar ekki allfjarri. 
 
Síðan voru tveir róbótar seldir árið 2001, annar á Egilsstaðabúið og hinn í Miklaholt. Mjaltaþjónninn á Egilsstaðabúinu flutti svo vestur á land í Miðskóg og þaðan í Bakkakot, þannig að hann er á þriðja bænum frá upphafi í dag. Einir átta voru svo settir upp árin 2002 og 2003. Eftir það varð sprenging á markaðnum og fleiri merki fóru að sjást hér, eins og DeLaval og nú síðustu ár GEA og Merlin Fullwood.  
Árin 2004, 2005, 2006 og 2007 voru að seljast hér yfir 20 mjaltaþjónar á hverju ári.“ 
 
Samið um sölu á yfir 40 mjaltaþjónum árið 2017
 
Árið 2017 voru gerðir samningar um sölu á aragrúa af mjaltaþjónum. Þeir hafa þó ekki enn allir verið settir upp m.a. vegna tafa við fjósbyggingar og fleira. 
 
„Okkur telst til að það hafi verið seldir yfir 40 mjaltaþjónar af öllum gerðum árið 2017, sem er þá langstærsta ár í sölu slíks búnaðar hér á landi.“ 
 
Um síðustu áramót voru komnir í notkun 247 mjaltaþjónar hjá 200 mjólkurframleiðendum og er Lely með um 60% markaðshlutdeild í dag að sögn Stefáns. 
 
Framhaldið ræðst af kerfisbreytingum í kúabúskap
 
„Ég held að framhaldið snúist svolítið mikið um kerfisbreytingar í greininni. Við heyrum af mörgum bændum sem eru með fjós sem standast ekki breyttar reglugerðir. Þá eru þeir annaðhvort komnir á aldur eða hafa ekki fjármagn til að fara í stórar breytingar og ætla sér því að hætta. Spurningin er bara hversu lengi þeir haldi áfram. 
 
Það vill enginn láta neyða sig til að láta frá sér kvótann, eins og gert er með því að lækka endurgjaldið sem þeir fá á hverju ári fyrir kvóta. Þeir eru svo þvingaðir til að láta hann frá sér fyrir ákveðið fast verð og honum er svo úthlutað á sama verði.  Slíkt felur í sér eignaupptöku að mínu áliti og bitnar á þeim sem missir kvótann. Það finnst mér fullkomlega óeðlilegt á sama tíma og umframeftirspurn er eftir kvóta.  
Mjög marga bændur sem eru með mjaltaþjóna vantar meiri kvóta. Nú hlýtur að verða breyting eftir að um 80% bænda lýstu því yfir í kosningu að þeir vildu halda kvótakerfinu. Næsta skref hlýtur að vera að búa til reglur um einhvers konar kvótamarkað. Þannig að menn geti stundað viðskipti með þessa „eign“, sem þeir hafa fjárfest í, alveg eins og í sjávarútvegi. Bændur hljóta að krefjast þess að það sé hægt að eiga frjáls viðskipti í þeim geira eins og í sjávarútvegi. Við höldum að það verði þróunin og kúabændum muni þá fækka en búin stækka.“
 
Ekki hafa allir kúabændur veðjað á mjaltaþjóna í sínum rekstri. Dæmi eru um mjaltagryfjur og hefðbundin rörakerfisfjós sem gengið hafa afskaplega vel. Nægir þar að nefna Hraunháls í Helgafellssveit sem fjallað var um í síðasta Bændablaði. Þá hefur t.d. bóndi í Hofdölum í Skagafirði veðjað á mjaltagryfju sem nú er verið að setja upp. 
 
Auk mjaltaþjóna selur m.a. Lely Center flórsköfur eins og Lely Discovery Flórgoðana en yfir 100 slíkir eru nú í notkun á Íslandi. Þeir eru alsjálfvirkir og eru allir enn að störfum þótt sumir séu orðnir gamlir og slitnir. 
 
Nú er Lely komið með á markað alsjálfvirkt fóðurkerfi, Lely Vector, eins og búið er að setja upp á Páfastöðum í Skagafirði og á bænum Garði í Eyjafirði. Þessi kerfi eru að blanda fóðri og gefa sex til sjö sinnum á sólarhring. Þá býður Lely líka upp á lýsingartækni fyrir fjós sem hægt er að stilla í takt við atferli gripa. Juno fóðursópur Lely er líka eitt fyrirbærið sem sér um að ýta fóðrinu að kúnum allan sólarhringinn og eykur þannig bæði nýtingu á fóðri og sparar bóndanum sporin. 
 
„Þannig er Lely tækjafjölskyldan í fjósinu alltaf að stækka,“ segir Stefán.
 
Vindrafstöðvar ekki taldar borga sig á Íslandi
 
Lely framleiðir líka vindrafstöðvar til raforkuframleiðslu en samkvæmt útreikningum sem Lely hefur látið gera þá þykir raforkuverð á Íslandi ekki nógu hátt til að rekstur slíkra vindmylla borgi sig. Hér á landi njóta bændur enn mun lægra raforkuverðs en þekkist erlendis. Þar eru blikur á lofti og telja ýmsir að ef orkupakki 3 verður samþykktur sem hluti af innleiðingu á EES-regluverkinu, þá muni það óhjákvæmilega leiða til hærra orkuverðs. 
 
Fullkomin Lely mjólkurvinnslustöð heima á býli
 
Fullvinnsla á mjólk heima á kúabúunum er tækni sem Lely er í lokafasa að þróa. Þessi búnaður hefur fengið nafnið Lely Orbiter. Tveir íslenskir kúabændur hafa að sögn Stefáns verið að skoða möguleika þessa  búnaðar. Í honum er mjólkin gerilsneydd, fitusprengd og fullunnin og pökkuð í fernur eða á flöskur heima á býli. Stefán segir að Lely Orbiter sé enn ekki kominn í sölu og alls óvíst hvort sá búnaður verði boðinn til sölu á Íslandi enn sem komið er.  
 
„Ég lít svo á að afkoma bænda muni alltaf snúast um það hversu langt í framleiðsluferlinu þeir komast heima hjá sér. Þannig að virðisaukinn verði sem mestur eftir á búinu. Það eru allir að kalla eftir örsláturhúsum í dag því sauðfjárbændur eru rukkaðir um ótrúlegt gjald ef þeir vilja taka eigið kjöt úr sláturhúsum til fullvinnslu heima. Þetta er víða verið að gera erlendis en má ekki hérlendis. Ef menn ætla að halda í sauðfjárrækt hér á landi þá verður að fara að endurskoða þetta. 
 
Í mjólkurframleiðslunni eru fjölmargir bændur sem eflaust gætu selt mun meira af heimaframleiðslu til ferðamanna en nú er gert. Í framtíðinni hlýtur það að teljast hagkvæmara að selja mjólkina sem næst framleiðslustað í stað þess að keyra með mjólkina í og úr vinnslu langar leiðir,“ segir Stefán Bragi Bjarnason. 
 
Halla tekur upp Íslenskt staðfest
Fréttir 28. mars 2024

Halla tekur upp Íslenskt staðfest

Halla Sif Svansdóttir Hölludóttir, garðyrkjubóndi og eigandi Sólskins grænmetis ...

Uppfærsla á stefnumörkun Bændasamtaka Íslands
Fréttir 27. mars 2024

Uppfærsla á stefnumörkun Bændasamtaka Íslands

Fjölmörg mál voru til afgreiðslu á nýliðnu Búnaðarþingi 2024, úr fimm nefndum, s...

Endurnýting heimil til 1. nóvember 2025
Fréttir 27. mars 2024

Endurnýting heimil til 1. nóvember 2025

Matvælaráðuneytið hefur tilkynnt um frestun á gildistöku banns við endurnýtingu ...

Horfið frá framleiðslutengdum stuðningi
Fréttir 27. mars 2024

Horfið frá framleiðslutengdum stuðningi

Fyrirkomulag landbúnaðarstuðningskerfis á Íslandi mun taka miklum breytingum ef ...

Hyggur á slátrun í haust ef leyfi fæst
Fréttir 26. mars 2024

Hyggur á slátrun í haust ef leyfi fæst

Fyrrverandi sláturhússtjóri á Vopnafirði ætlar ekki að láta deigan síga þrátt fy...

Niðurskurði lokið á fé úr Blöndudal
Fréttir 26. mars 2024

Niðurskurði lokið á fé úr Blöndudal

Niðurskurður á sauðfé frá bæjunum Eiðsstöðum og Guðlaugsstöðum í Blöndudal fór f...

Kornræktarfélag gengur í endurnýjun lífdaga
Fréttir 26. mars 2024

Kornræktarfélag gengur í endurnýjun lífdaga

Kornræktarfélag Suðurlands verður endurvakið sem viðskiptavettvangur ræktenda og...

Grípa þarf tækifærin
Fréttir 26. mars 2024

Grípa þarf tækifærin

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, telur að bændur eigi að leyfa sér að hor...