Mynd/wcicelandichorses2017 Konráð Valur á verðlaunapalli ásamt Brynju Sophie Arnarsson, Þýskalandi sem varð í 2. Sæti og Elise Harryson, Svíþjóð sem varð í þriðja sæti.
Hross og hestamennska 11. ágúst 2017

Fyrsti heimsmeistaratitillinn í höfn

Guðrún Hulda Pálsdóttir

Konráð Valur Sveinsson hampaði heimsmeistaratitli í gæðingaskeiði flokki ungra knapa í gærkvöldi.

Konráð Valur og Sleipnir frá Skör komu fram af miklu öryggi í báðum sínum sprettum og uppskáru 7,50 í lokaeinkunn, nær 90 kommum hærra en Brynja Sophie Arnarson frá Þýskalandi sem varð í öðru sæti.

Gæðingaskeið er krefjandi keppnisgrein sem reynir á snerpu og nákvæmt samspil knapa og hests. Keppendur skulu leggja á skeið frá stökki, skeiða 100 metra leið og hægja niður á 50 metrum.

Þetta er í annað sinn sem Konráð Valur sigrar keppnisgreinina á Heimsmeistaramóti, en hann hampaði einnig verðlaununum árið 2013, þá á hestinum Kjarki frá Árbæjarhjáleigu II.

Magnús og Valsa í stuði

Magnús Skúlason, sem keppir fyrir Svíþjóð, sigraði flokk fullorðinna á Valsa från Brösarpsgården.

Magnús og Valsa sigruðu gæðingaskeið fullorðinna. Mynd/ Jacco Suijkerbuijk

Hann skaut þar tveimur fyrrum heimsmeisturum ref fyrir rass. Titilverjandinn Teitur Árnason og Tumi frá Borgarhóli urðu í þriðja sæti og kempurnar Guðmundur Einarsson og Sproti frá Sjávarborg fengu silfur. Guðmundur og Sproti sigruðu greinina árið 2009.

Magnús og Valsa tryggðu sér einnig sæti í úrslitum fimmgangs fyrr í vikunni og munu því gera atlögu að öðrum titli.

Hápunktur heimsmeistaramóts íslenska hestsins í Oirschot í Hollandi er um helgina en þá fara fram úrslit í öllum hringvallargreinum.