Í yfirlýsingu frá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni frá því í vor segir að sami stofn H5N8 veirunnar og herjar núna á alifugla í Suður-Kóreu geti valdið alvarlegum sýkingum í fólki.
Fréttir 02. ágúst 2017

Fuglaflensufaraldur í Suður-Kóreu

Vilmundur Hansen
Yfirvöld í Suður-Kóreu hafa bannað allan flutning á fuglakjöti í landinu til að reyna að hefta útbreiðslu H5N8 veirunnar sem veldur fuglaflensu. Ríflega 190 þúsund fuglum hefur verið slátrað í landinu til að hefta útbreiðslu veirunnar.
 
Flensunnar varð fyrst vart 2. júní síðastliðinn í suðurhluta landsins og var útbreiðsla hennar hröð. Í byrjun júlí var landið sett á hæsta viðbúnaðar­stig hvað hættu á útbreiðslu fuglaflensu varðar og í framhaldinu var ríflega 190 þúsund kjúklingum, gæsum og öndum slátrað á alifuglabýlum. 
 
Bann hefur verið lagt á allan flutninga á alifuglum í landinu auk þess sem flutningabílar, sem séð hafa um flutninga á alifuglum, hafa verið kyrrsettir og verslunum sem sérhæfa sig í sölu á fuglakjöti og fuglasláturhúsum lokað. 
 
Hörð viðbrögð yfirvalda í Suður-Kóreu vegna flensunnar núna er vel skiljanleg því á síðasta ári kom upp svipaður H5N8 fuglaflensufaraldur í landinu. Faraldurinn í fyrra varð til þess að slátra þurfti 30 milljón alifuglum í landinu og verð á eggjum hækkaði stjarnfræðilega. 
 
Í yfirlýsingu frá Alþjóða­heilbrigðisstofnuninni frá því í vor segir að sami stofn H5N8 veirunnar og herjar núna á alifugla í Suður-Kóreu geti valdið alvarlegum sýkingum í fólki.