Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Friðlýsing Jökulsárlóns og nærliggjandi þjóðlenda styrkir vinnu við tilnefningu Vatnajökulsþjóðgarðs sem nátt­úruminja á heimsminjaskrá UNESCO sem nú er unnið að.
Friðlýsing Jökulsárlóns og nærliggjandi þjóðlenda styrkir vinnu við tilnefningu Vatnajökulsþjóðgarðs sem nátt­úruminja á heimsminjaskrá UNESCO sem nú er unnið að.
Mynd / Þorvarður Árnason
Fréttir 1. september 2017

Frá fjallstindi að fjöru

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir
Jörðin Fell og nærliggjandi þjóðlendur voru friðlýst sem hluti Vatnajökulsþjóðgarðs þann 25. júlí sl. Á svæðinu er einn vinsælasti ferðamannastaður landsins, Jökulsárlón, ásamt stórum hluta Breiðamerkursands og hluti Fjallsárlóns. Þar með nær Vatnajökulsþjóðgarður frá hæsta tindi landsins niður að fjöru. 
 
Gestakomur í Jökulsárlón hafa stigvaxið í samræmi við fjölgun ferðamanna hér á landi. Árið 2015 voru þeir 460.000 og fjölguðu í um 670.000 árið 2016 og í ár er gert ráð fyrir að um milljón gestir heimsæki staðinn.
 
Svæðið mun nú tilheyra suðursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs og horfir í viðamikil verkefni við uppbyggingu innviða og vörslu á svæðinu. Nú þegar eru landverðir á vegum þjóðgarðsins við Jökulsárlón og á svæðinu í kring til að fylgjast með og leiðbeina gestum.
 
Næsta skref er að vinna stjórnunar- og verndaráætlun fyrir svæðið en slík áætlun er meginstjórntæki þjóðgarðsins og verkfæri til stefnumótunar. Hún á að endurspegla sameiginlegar væntingar og áform þeirra sem koma að starfsemi þjóðgarðsins og eiga hagsmuni á starfssvæðinu. Þar er m.a. sett fram stefna um náttúruvernd, útivist, byggðaþróun og landnýtingu. 
 
Skilvirkast að einkaaðilar kæmu að uppbyggingu
 
„Ég verð ekki var við neitt annað en mikla ánægju með að friðlýsingin sé orðin að veruleika. Menn binda töluverðar vonir við það að það fari í gang öflug uppbygging. Ég vil sjá þessa uppbyggingu hefjast strax á næsta ári og að henni ljúki á þremur árum,“ segir Björn Ingi Jónsson, formaður svæðisráðs suðursvæðis Vatnajökulsþjóðgarðs og bæjarstjóri Sveitarfélagsins Hornafjarðar, en 58,7% sveitarfélagsins tilheyrir nú þjóðgarðinum. 
 
Björn Ingi segir vinnu við gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir hið nýfriðlýsta svæði þegar farna í gang en slíkt ferli taki alla jafna nokkra mánuði. Hann segir að líta þurfi sérstaklega til umferðaröryggis og uppbyggingu innviða á fjölförnum ferðamannastöðum eins og í kringum Jökulsárlón. Um sé að ræða kostnaðarsamar framkvæmdir og því geti verið skilvirkast að einkaaðilar kæmu að uppbyggingunni. 
 
„Við erum afskaplega glöð að ríkið hafi stigið það skref að kaupa jörðina og eigi þessa náttúruperlu til framtíðar. Þetta eru ekki litlar upphæðir sem teknar eru af almannafé og ég tel óraunhæft að ætlast til þess, eða reikna með því, að ríkið komi svo með auka 500–1000 milljónir í viðbót til að byggja upp aðstöðu þarna. Við viljum að svæðið skili tekjum aftur til hins opinbera og til þjóðgarðsins. Ég held að slíkt geti skilað sér með því að bjóða út uppbygginguna, á grunni þess að menn greiði fyrir það leigu og vinni samkvæmt skilmálum, deiliskipulagi og ákveðinni umgjörð.“
 
Björn Ingi bendir á að slík nálgun að innviðauppbyggingu á sér fordæmi í Fjallsárlóni, sem varð einnig hluti af þjóðgarðinum með friðlýsingunni og hún hafi reynst vel.
 
Beit á Breiðamerkursandi
 
Vatnajökulsþjóðgarður er frábrugðinn öðrum þjóðgörðum hér á landi þegar kemur að landnýtingu innan þjóðgarðsmarka. Meginhluti þjóðgarðsins er skilgreindur í verndarflokki II sem svæði sem er einkum ætlað til verndar vistkerfum og til útivistar. 
 
Hefðbundin landnýting er heimil á nokkrum svæðum innan þjóðgarðsins. Sauðfjárbeit er leyfð á hluta Jökulsárgljúfra, afréttum á vestur-, norður- og austurhálendinu og afmörkuðum svæðum sunnan jökla. Mest er hún næst byggð sunnan og vestan jökla en minnst á afréttum norðurhálendisins, samkvæmt stjórnunar- og verndaráætlun.
 
Þá eru innan þjóðgarðsins svæði sem flokkuð eru sem verndarsvæði með sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda og þar er að einhverju leyti stunduð sauðfjárbeit. Þessi landsvæði eru einnig að stórum hluta í einkaeign innan þjóðgarðsins.
 
Sauðfé hefur verið beitt á Breiðamerkursandi í áraraðir. Friðlýsing sandsins hefur að sögn Björns Inga ekki í för með sér breytingar á því. Ákveðnar jarðir hafi afnotarétt af svæðinu og þær heimildir haldi þrátt fyrir friðlýsingu. 
Fyrsti umplöntunarróbóti landsins
Fréttir 19. apríl 2024

Fyrsti umplöntunarróbóti landsins

Í maí í fyrra var settur upp umplöntunarróbóti á gróðrarstöðinni Sólskógum í Kja...

Ólöglegur frágangur á dýrahræjum
Fréttir 19. apríl 2024

Ólöglegur frágangur á dýrahræjum

Opinn gámur, yfirfullur af dýrahræjum, stóð á dögunum á steyptu bílastæði við in...

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni
Fréttir 18. apríl 2024

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni

Vegamót á Bíldudal er matvöruverslun og veitingastaður. Gísli Ægir Ágústsson, ve...

„Allt of fáar messur“
Fréttir 18. apríl 2024

„Allt of fáar messur“

Tryggvi Sveinn Eyjólfsson, sem er á sautjánda aldursári, hefur vakið athygli fyr...

Íslenskar sængur um allan heim
Fréttir 18. apríl 2024

Íslenskar sængur um allan heim

Íslenskur dúnn ehf. selur æðardúnsængur beint til viðskiptavina um heim allan. Þ...

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign
Fréttir 17. apríl 2024

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign

Kristín Lárusdóttir og Guðbrandur Magnússon, bændur að Syðri- Fljótum í Meðallan...

Breyttar reglur um flutning líflamba
Fréttir 17. apríl 2024

Breyttar reglur um flutning líflamba

Verklagsreglur hafa verið endurskoðaðar um flutning á lömbum með verndandi eða m...

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins
Fréttir 16. apríl 2024

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins

Á fagfundi sauðfjárræktarinnar sem haldinn var á dögunum var Gýgjarhólskot í Bis...