Mynd/Jón Eiríksson.
Fréttir 25. maí 2018

Fóðurblandan og Bústólpi gera athugasemdir við samantekt um þróun kjarnfóðurverðs

TB

Fyrirtækin Bústólpi og Fóðurblandan hafa bæði sent frá sér stuttar fréttatilkynningar í kjölfar fréttar um verðhækkanir á kjarnfóðri sem birtist á bbl.is 23. maí síðastliðinn og byggð var á samantekt Landssambands kúabænda um verðþróun á kjarnfóðri. 

Í tilkynningu Bústólpa kemur fram að fyrirtækið hafi lækkað verð á kjarnfóðri í desember 2016. „Að auki lækkaði Bústólpi verðskrá sína á ný í janúar og aftur í júní 2017, sem ákveðnir innflutningsaðilar á kjarnfóðri fylgdu ekki eftir,“ segir í tilkynningu Bústólpa. 

Í fréttatilkynningu Fóðurblöndunnar kemur fram að í desember árið 2016 hafi fyrirtækið lækkað verð á kjarnfóðri um 4% í tveimur skrefum. „Auk þess lækkaði verðskráin um 1,5% í júní 2017. Þrátt fyrir hækkanir Fóðurblöndunnar í febrúar og maí 2018 er raunlækkun á verðskrá fóðurblöndunnar um 1,5% síðan 1. desember 2016.“

Á naut.is er farið yfir þróun verðbreytinga kjarnfóðurs frá 1. desember 2016 og þar er jafnframt tengill á verðskrár allra fóðursala. Landssamband kúabænda hefur um árabil birt upplýsingar um verðþróun á kjarnfóðri á vefnum sínum.