Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Sojabaunir. Óerfðabreytt sojamjöl er dýrara en það erfðabreytta.
Sojabaunir. Óerfðabreytt sojamjöl er dýrara en það erfðabreytta.
Mynd / Wikimedia / H. Zell
Fréttir 5. október 2016

Flestir fóðursalar bjóða upp á óerfðabreyttar fóðurblöndur

Höfundur: smh
Svavar Halldórsson, fram­kvæmda­­stjóri Landssamtaka sauð­fjárbænda (LS), skrifaði pistil í Bændablaðið 25. ágúst síðas­tliðinn undir fyrirsögninni Sauðfjárbændur vilja banna erfðabreytt fóður. Af hálfu LS er stefnt að því að útrýma með öllu erfðabreyttu fóðri úr greininni og fyrir rúmu ári síðan var leitað eftir samstarfi við fóðursala um það verkefni. 
 
Í grein Svavars kemur fram að ímynd helstu fyrirtækja heimsins í framleiðslu á erfðabreyttu fóðri sé í meira lagi vafasöm. Aðgangsharka í hagsmunagæslu og einokunartilburðir varðandi verslun með fræ, eru taldar vera helstu ástæður fyrir slæma orðsporinu. Þá sé það alls ekki óumdeilt að erfðabreyttur matur sé skaðlaus. 
 
Haft var samband við fóðursala á Íslandi og staðan könnuð hjá þeim varðandi framboð, eftirspurn og verð á óerfðabreyttu fóðri.
 
Óerfðabreytt fyrir sauðfé, fugla og fiska hjá Fóðurblöndunni
 
Úlfur Blandon hjá Fóðurblöndunni segir að óerfðabreytt fóður hafi verið framleitt hjá þeim í töluverðan tíma. Það hafi komið til vegna aukinnar eftirspurnar. Hann segir að allt fóður fyrir sauðfé sé óerfðabreytt hjá Fóðurblöndunni í dag – og hafi verið á annað ár. 
 
Varðandi aðrar búgreinar segir Úlfur að fuglafóðrið hjá þeim sé líka allt óerfðabreytt, eins og fiskafóðrið. Í nautgripafóðri hjá Fóðurblöndunni séu tvær blöndur í boði; ein sérblanda sem nokkrir aðilar kaupa en flestir taki fóður sem inniheldur erfðabreytt sojamjöl. 
 
Hann segir töluverðan mun á því óerfðabreyttu fóðri sem er í boði hjá þeim, því óerfðabreytt sojamjöl sé talsvert dýrari í innkaupum. Gæðalega sé óerfðabreytt og erfðabreytt fóður svipað.
 
Eingöngu óerfðabreytt fyrir sauðfé hjá Bústólpa
 
Hólmgeir Karlsson, fram­kvæmda­stjóri Bústólpa, segir að allt það fóður sem framleitt er sérstaklega fyrir sauðfjárræktina sé úr óerfðabreyttu hráefni – og svo hafi lengi verið. „Kraftblanda heitir sauðfjárfóðrið okkar, en þar er aðal próteingjafinn kolmunna- og síldarmjöl.
 
Umræða um erfðabreytt eða ekki erfðabreytt hráefni hefur verið tekin hjá okkur og við lítum svo á að þetta sé mál sem landbúnaðurinn sem atvinnugrein þurfi að taka ákvörðun um. Við hjá Bústólpa erum hlynnt því að einungis verði unnið með óerfðabreytt hráefni. Hér á landi snýst þetta fyrst og fremst um notkun á sojamjöli, sem ekki er allt af óerfðabreyttum uppruna. Sojamjöl sem ekki er vottað óerfðabreytt er ódýrari próteingjafi og það að taka það út eða skaffa eingöngu vottað óerfðabreytt sojamjöl leiðir til hækkunar á kostnaði og hærra fóðurverðs. Á þessu þarf að vera skilningur og ljóst að allir fóðursalar þyrftu að vera með ef slík ákvörðun yrði tekin fyrir landbúnaðinn.
 
Þá erum við einnig að framleiða fóður fyrir ungkálfa sem er óerfðabreytt og heitir Kálfakögglar.
Við áætluðum það fyrir um tveimur árum, að það að hætta allri notkun á erfðabreyttu soja myndi leiða til þriggja til fimm prósenta hækkunar á fóðri að jafnaði,“ segir Hólmgeir.
 
Eingöngu kjarnfóður fyrir nautgripi hjá Landstólpa 
 
Hjá Landstólpa hefur hingað til ekki verið boðið upp á óerfðabreytt fóður, en sá möguleiki er til skoðunar hjá fyrirtækinu. Sævar Örn Gíslason, sölustjóri á mannvirkjasviði, segir að þeir séu reiðubúnir til þess að bjóða upp á þetta fóður, óski markaðurinn eftir því. „Við höfum heldur ekki boðið upp á sérstakar ærblöndur hingað til, þótt vissulega gætum við það einnig – hvort heldur sé um óerfðabreytt hráefni að ræða eða ekki. Þetta er allt í skoðun og í raun stanslaust frá öllum sjónarhornum. 
 
Við höfum einbeitt okkur að kúabændum og við að fínpússa fóðurblöndur og þjónustu við þá. Við teljum okkur að sjálfsögðu vera kyndilbera lækkaðs verðlags á kjarnfóðurblöndum á Íslandi og aukinni þjónustu við bændur og aldrei að vita nema við látum sauðfjárbændur njóta þess einnig innan tíðar.
 
Fóður úr óerfðabreyttum hráefnum yrði vissulega eitthvað dýrara en eftir lauslega skoðun ætti það ekki að vera neitt ógnvænlegt. Það ætti heldur ekki að koma niður á gæðum fóðursins, en það þarf einfaldlega meira hráefni og meira landsvæði í heiminum til þess að rækta í slíkt fóður. Það útskýrir verðmuninn að hluta. Hins vegar höfum við úr ansi fjölbreyttum hráefnum að velja sem mætti nota, eins og til dæmis erfðabreytt soja. En við getum að sjálfsögðu boðið upp á óerfðabreytt soja líka,“ segir Sævar Örn.
 
Lífland framleiðir það sem markaðurinn kallar á
 
Á fundi nefndar, sem skipuð var á Búnaðarþingi til þess að fjalla um erfðabreytt hráefni í fóðurvörum, lýstum við hjá Líflandi því viðhorfi, sem er í raun rauður þráður í okkar sjónarmiðum, að við munum framleiða það sem markaðurinn kallar á og erum tilbúnir að bregðast við ákalli um óerfðabreytt fóður – þegar og ef það kemur. Við höfum hins vegar ekki orðið varir við mikinn áhuga á slíkum vörum af hálfu viðskiptavina okkar,“ segir Jóhannes Baldvin Jónsson.
 
Lífland býður upp á tvær kjarnfóðurblöndur fyrir sauðfé, Ærblöndu og Ærblöndu Líf, og eru þær báðar með erfðabreytt innihaldsefni. 
 
Lífland býður hins vegar upp á tvær tegundir af óerfðabreyttu kjarnfóðri fyrir kýr, auk þess að framleiða óerfðabreytt eldisfóður fyrir kjúkling – og hefur gert í nokkur ár. Að sögn Jóhannesar er eftirspurn eftir þessum vörum sáralítil í dag.
 
„Varðandi áhrif óerfðabreytts sojamjöls á verð fóðurs þá er það þannig að ef sojamjöl er í óerfðabreyttum fóðuruppskriftum, þá er óhjákvæmilegt að verð fóðursins verði hærra. Ef mikið repjumjöl er í uppskriftum, þá er auðveldara að halda verði niðri, því stærstur partur af repjumjöli í Evrópu er óerfðabreyttur. Helsta hindrunin þarna snýr að sojamjölinu. Aðeins tæplega 10 prósent af framleiddum sojabaunum í heiminum í dag eru óerfðabreyttar og í þær er talsverð ásókn. Verðið á óerfðabreyttu sojamjöli er fyrir vikið allnokkru hærra en á því erfðabreytta. Munurinn er aðeins breytilegur eftir framboði, en almennt má segja að verðmunurinn liggi á milli 20 og 40 prósent, sem óerfðabreytta sojamjölið er dýrara en það erfðabreytta. Lífland leggur á það áherslu að eiga alltaf til óerfðabreytt sojamjöl þannig að hægt sé að framleiða óerfðabreytt fóður með engum eða litlum fyrirvara. Í einhverjum mæli má skipta sojamjöli út fyrir repjumjöl sem próteingjafa, en það er flutt inn frá Evrópu og er í öllum tilfellum óerfðabreytt. Í fóðri fyrir jórturdýr má auka hlut repjumjöls á kostnað sojamjöls að talsverðu leyti, en það er erfiðara í fóðri fyrir til dæmis alifugla og óerfðabreytt fóður myndi alltaf hækka um einhver prósent í tilfellum þeirrar búgreinar. 
 
Hvað hráefnin varðar þá er sojamjöl eina erfðabreytta hráefnið sem notað er í fóðurframleiðslu Líflands. Önnur algeng hráefni hjá okkur eru fyrir löngu síðan komin með þá kröfu af hálfu Líflands að vera óerfðabreytt. Á það til dæmis við um maís, hveiti, bygg, sykurrófur og sojaolíu – svo einhver dæmi séu tekin. Öll þessu hráefni eru eingöngu keypt óerfðabreytt til Líflands.
 
Þess má geta að Lífland flytur inn nokkuð af lífrænt vottuðu kúafóðri auk þess að flytja inn lífrænt vottað varpfóður og í því eru engin erfðabreytt hráefni. Annað kjarnfóður er framleitt í fóðurverksmiðju Líflands hér á landi, en hráefnin eru meira og minna innflutt,“ segir Jóhannes.
 
SS með úrval kjarnfóðursblandna sem eru óerfðabreyttar 
 
Sláturfélag Suðurlands er eini fóðursalinn sem er eingöngu með óerfðabreyttar kjarnfóðurblöndur í boði fyrir mjólkurkýr, nautgripaeldi og sauðfjárblöndur. Elías Hartmann Hreinsson, deildarstjóri búvörudeildar, segir að frá byrjun árs 2013 hafi allt kúafóður verið óerfðabreytt og árið 2014 hafi sala á óerfðabreyttu kjarnfóðri fyrir sauðfé hafist. 
 
„Umhverfisstefna Sláturfélags Suðurlands felur meðal annars í sér að bjóða bændum óerfðabreytt fóður og umhverfisvottaða áburðinn frá Yara. 
 
Frá ársbyrjun 2013 hóf búvörudeild SS fyrstir allra að bjóða bændum óerfðabreytt fóður á sambærilegu verði og er á hefðbundnum blöndum með erfðabreyttum hráefnum sem er hér á markaði. 
 
Í kúafóðrinu erum við með tvær tegundir, SS 16 og SS 20. Einnig erum við með á boðstólum óerfðabreytt nautaeldisfóður. Okkar viðskiptaaðilar eru bændur í mjólkur- og nautakjötframleiðslu á Suður- og Vesturlandi. 
 
Haustið 2014 létum við hefja framleiðslu á óerfðabreyttu kjarnfóðri fyrir sauðfé og höfum fengið mikil og jákvæð viðbrögð sauðfjárbænda um allt land.
 
Varðandi innkaupsverð á óerfðabreyttu fóðri þá er það umtalsvert dýrara í innkaupum heldur en ef blöndurnar innihéldu erfðabreytt hráefni,“ segir Elías. 
 

Skylt efni: erfðabreytt fóður

Fyrsti umplöntunarróbóti landsins
Fréttir 19. apríl 2024

Fyrsti umplöntunarróbóti landsins

Í maí í fyrra var settur upp umplöntunarróbóti á gróðrarstöðinni Sólskógum í Kja...

Ólöglegur frágangur á dýrahræjum
Fréttir 19. apríl 2024

Ólöglegur frágangur á dýrahræjum

Opinn gámur, yfirfullur af dýrahræjum, stóð á dögunum á steyptu bílastæði við in...

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni
Fréttir 18. apríl 2024

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni

Vegamót á Bíldudal er matvöruverslun og veitingastaður. Gísli Ægir Ágústsson, ve...

„Allt of fáar messur“
Fréttir 18. apríl 2024

„Allt of fáar messur“

Tryggvi Sveinn Eyjólfsson, sem er á sautjánda aldursári, hefur vakið athygli fyr...

Íslenskar sængur um allan heim
Fréttir 18. apríl 2024

Íslenskar sængur um allan heim

Íslenskur dúnn ehf. selur æðardúnsængur beint til viðskiptavina um heim allan. Þ...

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign
Fréttir 17. apríl 2024

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign

Kristín Lárusdóttir og Guðbrandur Magnússon, bændur að Syðri- Fljótum í Meðallan...

Breyttar reglur um flutning líflamba
Fréttir 17. apríl 2024

Breyttar reglur um flutning líflamba

Verklagsreglur hafa verið endurskoðaðar um flutning á lömbum með verndandi eða m...

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins
Fréttir 16. apríl 2024

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins

Á fagfundi sauðfjárræktarinnar sem haldinn var á dögunum var Gýgjarhólskot í Bis...