Fréttir 30. apríl 2019

Fiskafli dregst enn meira saman

Vilmundur Hansen

Undanfarna áratugi hefur fiskafli í heiminum dregist veru­lega saman vegna ofveiða en spár gera ráð fyrir að sá samdráttur eigi eftir að aukast enn meira vegna hækkandi hitastigs í hafinu. Samdráttur afla í Norðursjó er með þeim mestu í heimi.

Samdráttur í afla nytjastofna síðustu áttatíu ár er misjafn milli tegunda, eða allt frá því að vera yfir 35% og niður í tæp 4%. Tölurnar sem um ræðir byggja á skráningu á afla á árunum frá og með 1930 til 2010 og lengi vel var ofveiðum kennt um. Nú hefur önnur ógn við fiskveiðar komið en það mun vera hlýnun sjávar og breytingar í fæðuöflun fiska af þess völdum. Auk þess sem súrnun sjávar hefur sín áhrif.

Rannsóknarhópurinn, sem birti niðurstöður sínar í tímaritinu Science, náði til 38 svæða og 232 ólíkra stofna 124 fisktegunda og um 1/3 af fiskafla heimsins. Meðal þess sem rannsóknin náði yfir var afli og breytingar á sjávarhita.

Niðurstaða rannsóknarinnar var að mestur samdráttur í fiskafla hefur orðið í Norðursjó, Japanshafi og út af Íberíuskaga og í Biksæflóa. Niðurstaðan sýndi aftur á móti aukningu í fiskafla við Labrador, Nýfundnaland, Eystrasaltshafinu, Indlandshafi og í hafinu út af norðausturströnd Bandaríkja Norður-Ameríku.