Fréttir 19. mars 2020

COVID-19: Mörg mál í deiglunni hjá BÍ

Tjörvi Bjarnason
Fyrir tæpri viku síðan var sett á fót viðbragðsteymi Bænda­samtakanna vegna kórónu­veiru­faraldursins. Teymið hefur fundað daglega í þessari viku og unnið að ýmsum málum sem tengjast landbúnaði, matvælaframleiðslu og búrekstri.
 
Afleysingaþjónusta er í startholunum og samtökin eru í góðu samstarfi við stjórnvöld um úrlausn nokkurra mála. Sem dæmi er rætt um viðbrögð við afurðatjóni og vinnutapi, áhrif sóttkvíar á starfsemi bænda og matvælafyrirtækja, flutninga, fóður-, lyfja- og áburðarbirgðir og breyttar aðstæður á vinnumarkaði. Í síðustu viku hvöttu Bændasamtökin til þess að bændur takmörkuðu heimsóknir á sín bú vegna smithættu.
 
Afleysingaþjónusta
 
Búnaðarsamböndin og Bænda­samtökin hafa tekið höndum saman um að koma á fót afleysingaþjónustu fyrir bændur ef veikindi vegna veirunnar hamla búrekstri. Á þriðjudag fór auglýsing í loftið þar sem óskað var eftir fólki til að sinna afleysingastörfum. Fókusinn er settur á einyrkja og minni bú en ekki stærri bú eða sérhæfðari störf. Þjónustan verður kynnt nánar þegar fjöldi afleysingafólks liggur fyrir. Þau sem geta lagt sitt af mörkum geta sent tölvupóst í netfangið afleysing@bondi.is. Guðbjörg Jónsdóttir, verk­efnastjóri hjá BÍ, heldur utan um afleysingaþjónustuna.
 
Búnaðarsamböndin og Bændasamtökin hafa tekið höndum saman um að koma á fót afleysingaþjónustu fyrir bændur ef veikindi vegna veirunnar hamla búrekstri. Myndin er tekin á Voðmúlastöðum í A-Landeyjum.  Mynd / TB
 
Afurðatjón og mögulegt vinnutap
 
Viðbragðsteymið byrjaði strax að undirbúa skráningu á mögulegu afurðatjóni og vinnutapi sem hlýst af COVID-19. BÍ eru í samskiptum við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið og vonir standa til þess að hægt verði að skrá miðlægt upplýsingar sem varða tjón. Ekkert er í hendi um mögulegar bætur en fyrst og fremst er lögð áhersla á skráningar á þessu stigi.
 
Starfsemi afurðastöðva og annarra matvælafyrirtækja
 
Margir hafa velt því fyrir sér hvað gerist þegar og ef starfsfólk afurðastöðva eða annarra matvælafyrirtækja veikist og hvort starfsemin lamist ef upp kemur víðtækt smit. Almennt virðast viðbragðsáætlanir fyrirtækja vel unnar og skýrar. Fjölmörg fyrirtæki hafa hólfað starfsemi sína niður og æ fleiri starfsmenn, sem það geta, vinna heiman frá sér. Víða er heimsóknabann í fyrirtæki eða umferð utanaðkomandi aðila lágmörkuð. 
 
Vinnumarkaðsmál
 
Fyrirkomulag á vinnustöðum er víða með öðru sniði vegna veirunnar. Álitamál eru uppi um nokkur atriði sem varða kjaramál og önnur réttindi starfsfólks. BÍ hafa sett sig í samband við Vinnumálastofnun og helstu stéttarfélög til þess að tryggja hnökralausa starfsemi. Jafnframt er fylgst með frumvarpi félagsmálaráðherra um greiðslu hlutaatvinnuleysisbóta vegna lægra starfshlutfalls og frumvarpi um framlög ríkisins vegna launagreiðslna fyrirtækja til starfsmanna sem eru í sóttkví. BÍ leggja áherslu á að aðgerðir stjórnvalda í þessum efnum gagnist bændum eins og öðrum.
 
Fóðurbirgðir, áburður, sáðvara, lyf o.fl.
 
Stjórnvöld, Matvælastofnun í samvinnu við BÍ hafa kortlagt fóðurbirgðir í landinu og önnur aðföng sem koma með flugi og skipleiðis. Haft var samband við skipafélög sem fullyrða að engar breytingar séu áætlaðar á skipaferðum. Upplýsingar frá fóðurfyrirtækjum, áburðarinnflytjendum og yfirvöldum benda til að það þurfi ekki að hafa áhyggjur á þessu stigi af skorti á aðföngum, s.s. á kjarnfóðri, dýralyfjum eða áburði.  
 
Ferðaþjónustan verður fyrir höggi
 
Í sumum greinum landbúnaðarins finna bændur strax harkalega fyrir áhrifum COVID-19. Þetta á sérstaklega við um ferðaþjónustubændur. Afbókanir á gistingu eru töluverðar og velta á veitingastöðum hefur minnkað. Það er dýrmætt að ferðamenn flytji bókanir sínar í stað þess að draga þær til baka. Áhersla verður lögð á að hvetja almenning til ferðalaga innanlands á komandi sumri.
 
Viðburðir bænda – aðalfundir og skemmtanir
 
Á bondi.is er yfirlit um aðalfundi félaga sem áætlaðir eru á næstu vikum. Allmargir hafa frestað fundum og í ljósi samkomubanns er búið að fella niður viðburði eins og árshátíð Landssamtaka sauðfjárbænda og Landssambands kúabænda. Viðbragðsteymi BÍ hvetur bændur og aðra til að nota fjarfundabúnað eins og kostur er.
 
Hugum að andlegri og líkamlegri heilsu
 
Teymið hefur rætt mikilvægi þess að bændur og allt starfsfólk í landbúnaði hugi að andlegri og líkamlegri heilsu. Regluleg hreyfing er nauðsynleg og hætt er við að kvíði geri vart við sig hjá mörgum, ekki síst börnum. Í þessu samhengi er gott að minna á hjálparsíma Rauða krossins, 1717, og benda á fagfólk eins og sálfræðinga og lækna.
 
Vefsíða um COVID-19 á bondi.is
 
Miðlun upplýsinga er mikilvæg en Bændasamtökin mæla með því að bændur fylgist náið með upplýsingum um COVID-19 á vefjum almannavarna og landlæknis. Allar almennar leiðbeiningar er að finna á vefnum covid.is. Á vef Bændasamtakanna, bondi.is, eru margs konar upplýsingar sem beinast að bændum og öðrum matvælaframleiðendum. 
 
Snorri Sigurðsson, sem búsettur er í Kína, var í hlaðvarpsviðtali Bændablaðsins á dögunum þar sem hann fór yfir reynsluna af baráttunni við COVID-19 þar í landi. Viðtalið er aðgengilegt á bbl.is en þar brýnir Snorri bændur að sýna mikla smitgát.
 
Reglulegir fundir um stöðu mála
 
Viðbragðsteymið fundar daglega en hlutirnir breytast dag frá degi. Höfuðáhersla er lögð á að gæta hagsmuna félagsmanna í þessu óvenjulega ástandi. BÍ er í beinum samskiptum við ráðuneyti landbúnaðarmála í tengslum við kórónuveirufárið.
 
Það er viðbúið að eftirspurn eftir framleiðsluvörum bænda breytist og það er mikilvægt að finna leiðir til að milda áhrifin af breyttum veruleika eins og hægt er. Efnahagsleg áhrif af COVID-19 eru enn sem komið er óljós en nauðsynlegt er að velta upp öllum mögulegum og ómögulegum sviðsmyndum.  
 
Ábendingar eða óskir um að teymið ræði ákveðin mál eða setji á dagskrá má gjarnan senda í netfangið bondi@bondi.is. Almennum spurningum er varðar kórónuveiruna og landbúnað er svarað í gegnum sama netfang.
 
Viðbragðsteymi BÍ fundar daglega með fjarfundarbúnaði. Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda, vinnur m.a. að því að koma upp skráningu á mögulegu afurðatjóni vegna COVID-19. Mynd / TB
 
Viðbragðsteymi Bændasamtaka Íslands:
 
Gunnar Þorgeirsson, BÍ
Jón Magnús Jónsson, FK
Katrín María Andrésdóttir, SG
Margrét Gísladóttir, LK
Sigurður Eyþórsson, BÍ
Sölvi Arnarsson, FFB
Tjörvi Bjarnason, BÍ