Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Tandurhreinir klórþvegnir bandarískir kjúklingar.
Tandurhreinir klórþvegnir bandarískir kjúklingar.
Fréttir 11. mars 2020

Breskir ráðherrar segjast ekki heimila innflutning á klórþvegnu kjúklingakjöti

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Breski ráðherrann Georg Eustice, sem fer með umhverfismál í ríkisstjórn Boris Johnsons, tekur undir orð forvera síns, Theresu Villiers, um að ekki verði flutt inn kjúklingakjöt frá Bandaríkjunum sem þvegið hefur verið upp úr klór. Breska blaðið Daily Mirror segir að Bandaríkjamenn hafi verið æfir út af afstöðu Villiers. 
 
Í röksemdafærslu Theresu Villiers sem umhverfisráðherra var vísað í gildandi lög Evrópusambandsins, sem Bretar eru reyndar að yfirgefa. Georg Eustice staðfestir að þetta sé rétt og að bann sé lagt við innflutningi og sölu á bæði klórþvegnu kjúkl­inga­kjöti og kjöti af nautgripum sem hafi verið meðhöndlað með hormónagjöfum. Segir hann að Bandaríkjamenn þurfi ekki að vera æfir út af þessu, því það séu í raun fáir kjúklingaframleiðendur þar í landi sem skoli kjötið upp úr klór. Fleiri noti mjólkursýru eða „Lactic acid“ [alpha-hydroxy acid – AHA]. Er mjólkursýran sögð víða notuð til að koma í veg fyrir sýkingar í meðferð á lífrænum vörum og í lífefnaiðnaði. Segir Eustice í raun óþarft að ræða þetta, því mjólkursýra sé líka notuð í Bretlandi, meðal annars við meðhöndlun á nautakjöti, þó hún sé ekki notuð þar í meðhöndlun á alifuglakjöti. Segir hann að þetta sé einfaldlega mál sem þurfi að ræða aðeins betur. 
 
Klór drepur ekki alltaf allar bakteríur
 
Georg Eustice hefur hins vegar ekki gefið út hvort heimilað verði að flytja inn klórþvegið kjöt frá Bandaríkjunum eftir að útganga Breta úr ESB hefur að fullu tekið gildi. Bretar framleiða um 60% af því kjúklingakjöti sem þeir þurfa, en flytja líka inn um 900.000 tonn á ári. Sumir sérfræðingar segja reyndar að þótt kjötið sé þvegið upp úr klór sé alls ekki víst að það dugi til að koma í veg fyrir allar sýkingar eins og af völdum salmonellu. 
 
Allt snýst þetta um að svara kröfum markaðarins um meira og ódýrara kjöt. Tilgangurinn með að dýfa kjúklingunum í klór er sagður vera til að drepa utanáliggjandi bakteríur eins og saurgerla (E-coli), salmonellu og kamfílóbakter. Klórinn drepur hins vegar ekki endilega allar bakteríur í kjötinu sjálfu. 
 
Í rannsókn sem gerð var 2014 kom  í ljós að 34.000 matareitrunartilvik af völdum salmonellu koma upp í Bretlandi á ári. Það þýðir að 55 af hverjum 100.000 Bretum fengu salmonellusýkingar. Önnur rannsókn sem Mirror vísar til var gerð í Bandaríkjunum 2011. Þar voru smittilfellin 350 af hverjum 100.000 íbúum, eða rétt yfir milljón manns á ári. 
 
The Daily Mirror var með úttekt á málinu 23. febrúar þar sem fjallað er um alifuglarækt í Bandaríkjunum. Þar vísar blaðið til þeirrar þagnar sem ríkt hafi um ágreining út af innflutningi á klórþvegnu kjúklingakjöti frá Bandaríkjunum. Segir þar einnig að í bandarískum kjúklingaeldisbúum lifi kjúklingarnir við mjög slæmar aðstæður í yfirfullum húsunum áður en þeim sé slátrað. 
 
Grimmúðlegar aðfarir með genabreytta fugla
 
Þar segir að kjúklingunum hafi verið genabreytt í þeim tilgangi að hraða vexti þeirra. Byrjað hafi verið að genabreyta alifuglum árið 1948 til að auka vaxtarhraða þeirra. Út úr þessu kom erfðabætt blanda tegundar sem nefnd er Arbor Acre og verður fjórfalt þyngri en upprunalegir fuglar. Sú genabreyting komi nú niður á heilsufari fuglanna. Er vísað í einn gagnrýnanda sem segir að slíkar aðferðir séu grimmúðlegar. 
 
Ófagrar lýsingar
 
Lýsingar greinarhöfundarins Christo­­phere Buctin í Daily Mirror á bandaríska kjúklingaeldinu eru ekki fallegar. 
 
„Í kremju í loftlausum húsum og nánast án nokkurs rýmis og þaktir sárum, vaxa þessir fuglar upp á ömurlegum sjö vikum á þessari jörð í þögulum hryllingi. Eina lausn þeirra er þegar þeir eru skornir á háls í sláturhúsinu áður en vél plokkar af þeim fiðrið og þeir eru þvegnir upp úr klór.
 
Ég hélt á einum kjúklingi sem var tæplega átta vikna gamall í hendi mér og hjartað hamaðist í bringu hans. Mér er sagt að þökk sé erfðatækninni, þá vaxi þeir mun hraðar en ella. Ef þetta væri maður þá vigtaði hann 47 stones (eða 296 kg).“
 
 
Klórþvegið kjöt bannað í Evrópu í 23 ár
 
Greinarhöfundur bendir á að klórþvegið kjúklingakjöt hafi verið bannað á markaði í Evrópu í 23 ár þar sem þvottur á kjöti upp úr klór sé talinn leiða til kæruleysis og lélegs hreinlætis í framleiðslu á kjúklingakjöti. 
 
„Eftir Brexit heimta bandarískir kjúklingaframleiðendur að við tökum upp þeirra reglur um lélegri dýravelferð,“ segir Buctin.
 
Bændur hræddir við stóru matvælakeðjurnar 
 
Buctin fór fyrir Mirror í heimsókn til kjúklingabónda sem er mjög stór framleiðandi í Bandaríkjunum og er með rekstur í Gainsville í Georgíu-ríki. Þessi staður er einmitt kallaður höfuðstaður kjúklingaræktarinnar í heiminum. Ætlunin var að blaða­maður sæi með eigin augum hvernig aðbúnaðurinn væri. Lýsingarnar eru síst smekklegri en þær fyrri. Hann segir að bændurnir á svæðinu hafi ekki viljað úttala sig um reksturinn af ótta við kjötframleiðslufyrirtækin sem þeir vinna fyrir. Einn sem ekki vildi láta nafns síns getið sagði þó að allur þessi iðnaður væri rekinn af stórfyrirtækjum líkt og eiturlyfja­bransinn. Ef menn brytu reglur og þagnarskyldu væru menn sama sem dauðir í þeirra augum. Hins vegar sæju framleiðendurnir um allan pakkann. Þeir útveguðu ungana, fóðrið, sýklalyfin og allt sem til þarf.
 
Eins og að eiga við mafíuna
 
„Við bændurnir erum bara eins og leiguliðar sem leigjum okkar hús í sjö vikur í senn. Eitt rangt skref og þú ert út úr myndinni. Þetta er eins og að eiga við mafíuna. Á vefsíðum þeirra segir kannski að þeim þyki annt um dýravelferð, en þeirra einu raunverulegu áhyggjur snúast um gróðann.“
 
Þessi bóndi benti hins vegar á að bændunum væri ætlað að ala kjúklinga. Ef þeir ættu að vera með þúsundir lausagöngu­fugla vappandi frjálsa um landið væri ekki mögulegt að uppfylla þarfir markaðarins. Sagði hann þessa aðferð því vera næstbestu lausnina. 
 
Mirror bendir á að þeir sem sjái um kjúklingaeldið séu að 58% hluta ólöglegir innflytjendur sem verði bara að gera það sem þeim er sagt. Árið 2015 hafi Oxfam samtökin upplýst að mörgum þessara landbúnaðarverkamanna hafi meira að segja verið meinað að fara á klósett og því neyðst til að nota bleiur. 
 
Endalausar raðir af lágreistum kjúklingahúsum
 
Þarna er ekið um endalausar raðir af lágbyggðum kjúklingaeldishúsum sem hvert um sig er um 227 metrar að lengd (250 yards). 
 
„Yfirþyrmandi lykt af hænsnaskít og ammoníaki steig upp af tveggja tommu þykku skítalagi. Lyktin var svo megn að ég varð að halda fyrir nef og munn. 
 
Það hljóta að hafa verið yfir 30 þúsund kjúklingar sitjandi á gólfinu fyrir framan mig, en það var samt dauðaþögn í húsinu. Fuglarnir hvorki hreyfðu sig né gögguðu. Allir aðrir en um þúsund fuglar sem voru í kringum kornfóðrarana, voru eins og myndastyttur og voru þarna í nær algjöru myrkri. Þegar ég tók upp einn kjúklinginn var mér brugðið að sjá uppblásinn maga hans. Líkt og allir hinir fuglarnir hafði hann misst fjaðrirnar svo það sást í bert holdið.“
 
Óeðlilega hraður vöxtur skapar margvísleg vandamál
 
Buctin segir að vegna þess hversu óeðlilega hratt fuglarnir vaxi, þá lifi margir þeirra ekki af að ná sláturstærð. Ástæðan er hjartaáfall og samfallin lungu. Hann segir að í ritinu Poultry Science Journal hafi það verið reiknað út að ef maður yxi með sama hraða og þessir nútíma kjúklingar, þá næði maðurinn 296 kílóa þyngd á átta vikum. Þá ylli sú eitraða blanda af köfnunarefni og vetni sem myndast í eldinu því að fuglarnir geti líka orðið blindir.    
 
Dr. Sara Shields hjá Huan Society International segir að neytendur eigi rétt á að fá að vita um hvað sé á bak við mögulegan innflutning á kjúklingakjöti frá Bandaríkjunum. Kjúklingarnir séu aldir upp í miklum þrengslum í dimmum húsum þar sem hver fugl hafi til umráða pláss sem er á stærð við eitt A-4 blað. Þetta skapi mikla mengun og húðvandamál hjá fuglum sem veltast um í blautum skítnum. 
 
Daily Mirror hafði samband við fjölda framleiðenda sem nota klór við sína framleiðslu. Aðeins einn svaraði fyrirspurn blaðsins og sagði að ef ekki væri notaður klór yrðu 350 milljónir Bandaríkjanna veikir í hverri einustu viku. 
Halla tekur upp Íslenskt staðfest
Fréttir 28. mars 2024

Halla tekur upp Íslenskt staðfest

Halla Sif Svansdóttir Hölludóttir, garðyrkjubóndi og eigandi Sólskins grænmetis ...

Uppfærsla á stefnumörkun Bændasamtaka Íslands
Fréttir 27. mars 2024

Uppfærsla á stefnumörkun Bændasamtaka Íslands

Fjölmörg mál voru til afgreiðslu á nýliðnu Búnaðarþingi 2024, úr fimm nefndum, s...

Endurnýting heimil til 1. nóvember 2025
Fréttir 27. mars 2024

Endurnýting heimil til 1. nóvember 2025

Matvælaráðuneytið hefur tilkynnt um frestun á gildistöku banns við endurnýtingu ...

Horfið frá framleiðslutengdum stuðningi
Fréttir 27. mars 2024

Horfið frá framleiðslutengdum stuðningi

Fyrirkomulag landbúnaðarstuðningskerfis á Íslandi mun taka miklum breytingum ef ...

Hyggur á slátrun í haust ef leyfi fæst
Fréttir 26. mars 2024

Hyggur á slátrun í haust ef leyfi fæst

Fyrrverandi sláturhússtjóri á Vopnafirði ætlar ekki að láta deigan síga þrátt fy...

Niðurskurði lokið á fé úr Blöndudal
Fréttir 26. mars 2024

Niðurskurði lokið á fé úr Blöndudal

Niðurskurður á sauðfé frá bæjunum Eiðsstöðum og Guðlaugsstöðum í Blöndudal fór f...

Kornræktarfélag gengur í endurnýjun lífdaga
Fréttir 26. mars 2024

Kornræktarfélag gengur í endurnýjun lífdaga

Kornræktarfélag Suðurlands verður endurvakið sem viðskiptavettvangur ræktenda og...

Grípa þarf tækifærin
Fréttir 26. mars 2024

Grípa þarf tækifærin

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, telur að bændur eigi að leyfa sér að hor...