Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Steinþór Skúlason, forstjóri SS, sagði sauðfjárbændur ekki lengur vera í þeim djúpa vonleysispytti sem þeir hafi verið í á undanförnum árum.
Steinþór Skúlason, forstjóri SS, sagði sauðfjárbændur ekki lengur vera í þeim djúpa vonleysispytti sem þeir hafi verið í á undanförnum árum.
Mynd / HKr.
Fréttir 15. apríl 2019

Birgðir dilkakjöts hafa sjaldan verið minni og horfur á skorti á hryggjum

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Steinþór Skúlason, forstjóri SS, lýsti því á aðalfundi Samtaka sauðfjárbænda á dögunum að batnandi staða á kjötmarkaði, m.a. með auknum sölumöguleikum á Þýskalandsmarkaði, gæti farið að skila bændum hærra afurðaverði í haust. Blikur væru þó á lofti vegna heimildar til innflutnings á fersku og ófrosnu kjöti. Það gæti leitt til samdráttar í sölu dilkakjöts á innanlandsmarkaði. 
 
Steinþór lýsti einnig þeirri skoðun sinni að vegna mögulegs samdráttar þyrfti að hagræða og ein leið væri að fækka sláturhúsum í landinu um helming frá því sem nú er. Slíkt gæti þá líka orðið til þess að bændur fengju hærra skilaverð fyrir sínar afurðir. Hann sagði einnig að þótt áskoranir væru víða þá væri greinin ekki lengur í þeim djúpa vonleysispytti sem verið hefði á síðustu tveim til þrem árum.  
 
Bættur hagur afurðastöðva ætti að skila sér í aukinni staðgreiðslu
 
Steinþór sagði að miðað við tölur afurðastöðvanna á síðasta ári þá virtust þær flestar hafa verið að skila hagnaði sem væri mjög mikilvægt. Það þýddi að bændur ættu ekki að þurfa að óttast að afurðastöðvarnar gætu ekki greitt fyrir þær afurðir sem þeir afhentu afurðastöðvunum til meðhöndlunar. Slíkt hefði líka áhrif á getu afurðastöðva til að staðgreiða við slátrun. Það væri mikið hagsmunamál bænda og hafi verið almennt hér áður fyrr þótt fáir hafi staðgreitt í fyrra. 
 
Aldrei minni birgðir á dilkakjöti
 
Steinþór sagði að lítil birgðasöfnun væri nú í kindakjötsframleiðslu sem oft hafi verið vandamál. Samkvæmt opinberum tölum hafi verið 710 tonnum minni birgðir af dilkakjöti í landinu í lok febrúar en á sama tíma 2018.
 
„Ég held að þetta sé lægsta birgðastaða sem ég hef séð í mjög langan tíma og ég man hreinlega ekki eftir svo lágri birgðastöðu eins og núna.  
 
Ég tel að þetta megi einkum þakka þrem þáttum. Í fyrsta lagi var farið í markaðsátak 2018 og flutt út töluvert af kjöti fram á sumar. Það leiddi til að birgðastaðan síðasta haust var hófleg. Síðan liggur fyrir að framleiðslan í fyrra minnkaði og framleiðsla á dilkakjöti dróst saman um 3,4%. Síðan hafði það veruleg áhrif að Noregur, sem keypti ekkert í nokkur ár, er núna að taka töluvert af kjöti. Þá bindum við miklar vonir við Þýskaland. Það sem er frábært við markaðinn í Þýskalandi er að þar fæst svipað verð og hér innanlands. Það liggur fyrir að verð á heilum skrokkum til Þýskalands er 6,1 evra á kíló afhent í Þorlákshöfn,“ sagði Steinþór. Þetta þýðir um 815 krónur fyrir kílóið miðað við gengi sl. þriðjudag.
 
Jákvæð teikn á Þýskalandsmarkaði
 
Steinþór sagði að þessi staða á Þýska­landsmarkaði gæti haft mjög jákvæða þýðingu fyrir sauðfjárræktina á Íslandi. Þá geti sláturleyfishafar valið að selja úr landi eins og þeir teldu henta til að koma í veg fyrir offramboð á innanlands­markaði. Þá breyttist þetta úr að verða kaupendamarkaður þar sem kaupendur stýrðu verðinu í að vera seljendamarkaður. Ef allt gengur upp á Þýskalandsmarkaði þá telur Steinþór eins víst að gæti orðið lag til að auka dilkakjötsframleiðsluna á nýjan leik.  
 
Breyttar forsendur gætu leitt til hærra afurðaverðs til bænda
 
„Þarna eru að verða vatnaskil og þessar breyttu forsendur ættu að gefa möguleika á verðhækkun næsta haust. Eins og þið vitið er bannað að hafa samráð á markaði og ég get því ekki sagt til um hvað afurðastöðvarnar geta eða verðið ætti að hækka. Það er ákvörðun hvers og eins aðila. Það ætti samt að vera hægt að byrja á að vinda ofan af þeirri miklu verðlækkun sem varð til bænda.“
 
Óheppilegur skortur á hryggjum á innanlandsmarkaði
 
Steinþór sagði að í ljósi þessarar jákvæðu markaðsstöðu, þá væri mjög óheppilegt að það væri nánast skortur á hryggjum á innanlandsmarkaði. Það er ekki hægt að líta á þetta öðruvísi en að einhverjir sláturleyfishafar hafi gert þau mistök að selja frá sér hryggi á of lágu verði og væru að komast í þrot með birgðir. 
 
Sagðist Steinþór hafa lært það af langri reynslu í þessari grein að það þyrfti að beita verðstýringum til að allir skrokkhlutar seldust jafnt. Á liðnum árum hafi eftirspurn eftir hryggjum verið að aukast, en afurðastöðvarnar hafi ekki fylgt því nægilega vel eftir með hækkandi verði.
 
Steinþór benti á að vegna þessarar stöðu þá hafi  einhverjir innflytjendur farið fram á það við ráðuneytið að fá að flytja inn lambahryggi vegna skorts á innanlandsmarkaði. Því erindi hafi þó verið hafnað. Hann taldi samt ljóst að það yrðu fluttir inn hryggir í einhverjum mæli, jafnvel þótt menn þyrftu að greiða aðflutningsgjöld. Þetta væri staða sem ætti ekki að þurfa að koma upp ef menn verðlegðu skrokkhlutana eðlilega.
 
Frelsi til að flytja inn ferskt kjöt mun hafa ruðningsáhrif á innanlandsframleiðslu
 
Varðandi heimild til innflutnings á fersku ófrosnu kjöti, sem væntanlega verður samþykkt á Alþingi, sagðist Steinþór telja að áhrifin yrðu mest á innflutning nautakjöts. Þar hafi innflutningsgjöld verið lækkuð 2007 um 40% og væru í raun orðin of lág. Það væri því hægt að flytja inn nautakjöt frá útlöndum, borga full aðflutningsgjöld, en samt vera með vöru á íslenskum markaði sem er 20–30% ódýrari en innlent nautakjöt. Taldi Steinþór líklegt að Costco færi að flytja inn nautakjöt frá Bretlandi í gegnum sín viðskiptasambönd. 
 
„Þetta mun augljóslega raska sölu á innlendu nautakjöti og verð mun væntanlega lækka. Það mun þá væntanlega hafa ruðningsáhrif á aðrar kjöttegundir. Á sama tíma munum við leitast við að hækka verð á dilkakjöti og má þá alveg búast við því að þetta muni leiða til sölusamdráttar á dilkakjöti hér innanlands eins og á öðru kjöti.  Ég held að menn þurfi að búa sig undir slíkt.“ 
Ísteka í yfirburðastöðu
Fréttir 15. apríl 2024

Ísteka í yfirburðastöðu

Í nýrri ályktun Samkeppniseftirlitsins kemur fram að Ísteka beiti sterkri stöðu ...

Hverfandi líkur á riðusmiti árið 2032
Fréttir 15. apríl 2024

Hverfandi líkur á riðusmiti árið 2032

Í nýrri landsáætlun verður stefnt að því að hverfandi líkur verði að upp komi ri...

Hrútaverðlaun fyrir Gullmola og Blossa
Fréttir 15. apríl 2024

Hrútaverðlaun fyrir Gullmola og Blossa

Á fagfundi sauðfjárræktarinnar sem haldinn var í Ásgarði Landbúnaðarháskóla Ísla...

Sláturhús brann til grunna
Fréttir 12. apríl 2024

Sláturhús brann til grunna

Sláturhúsið í Seglbúðum í Landbroti brann til grunna þann 1. apríl.

Ekki farið að lögum um útivist nautgripa
Fréttir 12. apríl 2024

Ekki farið að lögum um útivist nautgripa

Matvælastofnun lagði stjórnvaldssektir á þrjú kúabú á Vesturlandi á dögunum vegn...

Dregur úr kaupvilja
Fréttir 12. apríl 2024

Dregur úr kaupvilja

Niðurstöður tilboðsmarkaðar fyrir greiðslumark mjólkur í byrjun apríl sýna að ja...

Staða framkvæmdastjóra BÍ auglýst innan tíðar
Fréttir 11. apríl 2024

Staða framkvæmdastjóra BÍ auglýst innan tíðar

Vigdís Häsler hefur látið af störfum sem framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands. ...

Erfiðara verður að fá sphagnum og innfluttur jarðvegur CE-vottaður
Fréttir 11. apríl 2024

Erfiðara verður að fá sphagnum og innfluttur jarðvegur CE-vottaður

Búast má við að innflutningur á mómosamold (sphagnumríkri mold) fari minnkandi á...