Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Jón Baldur Lorange.
Jón Baldur Lorange.
Fréttir 22. september 2016

Bændur sem ekki standast skilyrði gæðastýringar missa greiðslur

Höfundur: Vilmundur Hansen

Umræða um dýravelferð hefur verið talsverð í þjóðfélaginu undanfarið. Dýravelferð er einn af mörgum þáttum í gæðastýringu í sauðfjárrækt sem Matvælastofnun hefur eftirlit með. 

Bændablaðið leitaði til Jóns Baldurs Lorange, framkvæmdastjóra Búnaðarstofu hjá Matvælastofnun, og innti hann eftir því hvort einhverjir þátttakendur í gæðastýringu í sauðfjárrækt hafi ekki uppfyllt öll skilyrði reglugerðar um gæðastýringu sauðfjárframleiðslu og falli þar með út úr gæðastýringunni.

Jón Baldur segir að samkvæmt 20. gr. reglugerðar um gæðastýringu nr. 1160/2013 skal Matvælastofnun tilkynna framleiðanda eigi síðar en 31. ágúst ár hvert ef hann uppfyllir ekki skilyrði um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu og gefa honum kost á andmælum. 

Skyldur fjölmargar

„Skyldur framleiðanda í gæðastýringu eru fjölmargar sem þarf að uppfylla til að fá gæðastýringargreiðslur. Meðal þátta sem falla undir gæðastýringu eru aðbúnaður og meðferð dýra, umhverfi, skýrsluhald og skráning á lyfjanotkun. Þá  ber framleiðanda að færa gæðahandbók þar sem kemur meðal annars fram áburðarnotkun, gróffóðuröflun og fóðrun dýra. Einnig ber framleiðanda að uppfylla skilyrði um landnýtingu og er meginreglan að landnýting skal vera sjálfbær á öllu landi framleiðanda samkvæmt umsókn og skal það land jafnframt standast viðmið um ástand samkvæmt ströngum kröfum sem koma fram í sérstökum viðauka við reglugerð um gæðastýringu. Landbótaáætlun er gerð fyrir beitiland sem uppfyllir ekki kröfur samkvæmt fyrrgreindum viðauka.

Landgræðsla ríkisins áritar landbótaáætlun og Matvælastofnun þarf að staðfesta ef skilyrði reglugerðar um gæðastýringu eru uppfyllt. Jafnframt þurfa allir þátttakendur í gæðastýringu að sækja undirbúningsnámskeið á vegum Matvælastofnunar. Í dag eru um 1.710 bændur þátttakendur í gæðastýringunni og þeir þurfa að uppfylla kröfur um öll þessi atriði til að fá gæðastýringargreiðslur.“

Góð skil á skýrsluhaldi í sauðfjárrækt

Jón Baldur segir að Búnaðarstofa sendi öllum bændum sem eru í gæðastýringunni bréf í upphafi árs sem ekki hafa gengið frá skýrsluhaldinu fyrir árið á undan, en því ber að skila eigi síðar en 31. desember.

„Í ár voru það í kringum eitt hundrað framleiðendur af þessum 1.710 sem fengu bréf frá Matvælastofnun vegna þessa. Næstum því allir drifu í því að ganga frá haustbók 2015 meðal annars með aðstoð Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins, en þeir framleiðendur sem brugðust ekki við féllu út úr gæðastýringunni. Þeir sauðfjárbændur, sem koma nýir inn í gæðastýringu og hafa ekki áður tekið þátt í skýrslu­haldinu í sauðfjárrækt þurfa fyrsta árið að skila inn vorbók. Þetta voru um 15 nýliðar sem höfðu ekki skilað vorbók á réttum tíma. Matvælastofnun sendi þeim bréf í byrjun sumars og bættu þeir allir úr því innan þess tímafrests sem þeim var gefinn.“

Eftirlit dýraeftirlitsmanna lagt til grundvallar

Búnaðarstofa Matvælastofnunar, sem hefur með framkvæmd á stuðningsgreiðslum til bænda að gera, ber að fella niður gæðastýringargreiðslu ef framleiðandi stenst ekki öll skilyrði gæðastýrðrar sauðfjárframleiðslu. Fyrir enda ágústmánaðar ber Matvælastofnun að senda öllum þátttakendum í gæðastýringu bréf ef stofnunin telur að þeir standist ekki lengur öll skilyrði gæðastýrðrar sauðfjárframleiðslu.

Þeir framleiðendur sem fengu bréf frá stofnuninni um niðurfellingu gæðastýringargreiðslu fengu andmælarétt í samræmi við stjórnsýslulög en að sögn Jóns Baldurs liggur fyrir að í þessum fasa muni 5 til 10 framleiðendur falla út úr gæðastýringunni, en endanleg tala liggur fyrir í lok mánaðarins. Stofnunin leggur til grundvallar þessari ákvörðun margvísleg gögn, m.a. niðurstöður eftirlitsskýrslna dýraeftirlitsmanna stofnunarinnar. Auk þess eru dregnar saman niðurstöður annarra þátta gæðastýringarinnar svo sem skil á skýrsluhaldi og landbótaáætlunum.

„Dýraeftirlitsmenn Matvæla­stofnunar heimsækja á hverju ári nokkur hundruð bændur og  ganga frá eftirlitsskýrslu í framhaldi af þeim heimsóknum. Ef upp koma mál vegna frávika sem varða aðbúnað og meðferð dýra, umhverfisþátta, færslu gæðahandbókar og fleiri þátta sem dýraeftirlitsmenn skoða er það fært inn í eftirlitsskýrslur og er tekið til meðferðar innan stofnunarinnar í kjölfarið. Matvælastofnun hefur ýmis úrræði til að bregðast við og m.a. eru gerðar úrbótaáætlanir fyrir framleiðendur. Í slæmum tilfellum eru til úrræði um dagsektir og vörslusviptingu gripa. Búnaðarstofa Matvælastofnunar hefur síðan það úrræði að fella niður gæðastýringargreiðslu framleiðanda með því að taka ákvörðun um að fella viðkomandi út úr gæðastýringu. Framleiðandinn þarf þá að sækja aftur um til að komast í gæðastýringuna fyrir næsta ár og getur þá Matvælastofnun farið fram á að hann þurfi að sækja gæðastýringarnámskeið að nýju,“ segir Jón Baldur Lorange, framkvæmdastjóri Búnaðarstofu Matvælastofnunar.

Fyrsti umplöntunarróbóti landsins
Fréttir 19. apríl 2024

Fyrsti umplöntunarróbóti landsins

Í maí í fyrra var settur upp umplöntunarróbóti á gróðrarstöðinni Sólskógum í Kja...

Ólöglegur frágangur á dýrahræjum
Fréttir 19. apríl 2024

Ólöglegur frágangur á dýrahræjum

Opinn gámur, yfirfullur af dýrahræjum, stóð á dögunum á steyptu bílastæði við in...

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni
Fréttir 18. apríl 2024

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni

Vegamót á Bíldudal er matvöruverslun og veitingastaður. Gísli Ægir Ágústsson, ve...

„Allt of fáar messur“
Fréttir 18. apríl 2024

„Allt of fáar messur“

Tryggvi Sveinn Eyjólfsson, sem er á sautjánda aldursári, hefur vakið athygli fyr...

Íslenskar sængur um allan heim
Fréttir 18. apríl 2024

Íslenskar sængur um allan heim

Íslenskur dúnn ehf. selur æðardúnsængur beint til viðskiptavina um heim allan. Þ...

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign
Fréttir 17. apríl 2024

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign

Kristín Lárusdóttir og Guðbrandur Magnússon, bændur að Syðri- Fljótum í Meðallan...

Breyttar reglur um flutning líflamba
Fréttir 17. apríl 2024

Breyttar reglur um flutning líflamba

Verklagsreglur hafa verið endurskoðaðar um flutning á lömbum með verndandi eða m...

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins
Fréttir 16. apríl 2024

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins

Á fagfundi sauðfjárræktarinnar sem haldinn var á dögunum var Gýgjarhólskot í Bis...