Mynd/Alþingi
Fréttir 05. desember 2019

Bændur og Félag atvinnurekenda mótmæla tollafrumvarpi ríkisstjórnarinnar

Ritstjórn

Sú óvenjulega staða kom upp í dag að Bændasamtökin og búgreinafélög innan þeirra vébanda tóku höndum saman við Félag atvinnurekenda og fleiri til þess að mótmæla stjórnarfrumvarpi sem Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, mælti fyrir á dögunum og kveður á um breytingar á tolla- og búvörulögum.

Hagsmunaaðilar vilja hvetja ráðherra til þess að "...vinna málið áfram og finna því heppilegri farveg, m.a. til að bregðast við mögulegum frávikum sem alltaf kunna að koma upp í búvöruframleiðslu, sem háð er veðurfari og öðrum ytri aðstæðum."

Garðyrkjubændur hafa m.a. bent á að frumvarpið muni að óbreyttu hafa neikvæð áhrif á starfsskilyrði íslenskrar garðyrkju, einkum útiræktarinnar, sem þegar stendur höllum fæti í samkeppni við innfluttar vörur. "Ástæða er til að óttast að útirækt á einstökum tegundum geti lagst af eða dregist enn frekar saman ef frumvarpið nær fram að ganga óbreytt," segir í umsögn þeirra. 

Bændasamtök Íslands, Samtök iðnaðarins, búgreinafélög, Neytendasamtökin, Sölufélag garðyrkjumanna og Félag atvinnurekenda sendu ráðherra og atvinnuveganefnd Alþingis eftirfarandi yfirlýsingu vegna frumvarps um breytingar á búvörulögum og tollalögum: 

"Undirritaðir aðilar eru sammála um að það frumvarp sem nú liggur fyrir um breytingu á búvörulögum og tollalögum, 382. mál,  eigi ekki að samþykkja í núverandi mynd. Nauðsynlegt er að vinna málið áfram og finna því heppilegri farveg, m.a. til að bregðast við mögulegum frávikum sem alltaf kunna að koma upp í búvöruframleiðslu, sem háð er veðurfari og öðrum ytri aðstæðum. Undirritaðir aðilar vilja gjarnan koma að þeirri vinnu."

5. desember 2019

Bændasamtök Íslands

Félag atvinnurekenda

Félag eggjabænda

Félag kjúklingabænda

Félag svínabænda

Landssamband kúabænda

Landssamband sauðfjárbænda

Neytendasamtökin

Samband garðyrkjubænda

Samtök iðnaðarins

Sölufélag garðyrkjumanna


Frumvarpið og umsagnir hagsmunaaðila er hægt að sjá hér.