Mynd/TB Ólafur Davíð Guðmundsson og Þórður Aðalsteinsson frá Hlöðu ehf. afhenda Guðmundi Frey Kristbergssyni á Háafelli hleðslustöð fyrir rafbíla.
Fréttir 17. apríl 2018

Bændur bjóða upp á hleðslu í hlaði

Tjörvi Bjarnason

Fyrstu hleðslustöðvarnar frá Hlöðu ehf. voru afhentar bændum í verkefninu „Hleðsla í hlaði“ á dögunum. Það voru þeir feðgar Jón Zimsen og Knútur Dúi Kristján Zimsen sem reka gistiheimilið Dranga á Skógarströnd og Guðmundur Freyr Kristbergsson á Háafelli í Hvítársíðu sem tóku á móti gripunum. Þeir eru meðal stækkandi hóps bænda sem hyggur á uppsetningu á rafhleðslustöðvum á sínum búum til þess að þjónusta rafbílaeigendur. Fleiri bændur munu á næstu dögum og vikum taka fleiri hleðslustöðvar í gagnið.


Jón Zimsen og Knútur Dúi Kristján Zimsen með nýju rafhleðslustöðina.

Ólafur Davíð Guðmundsson, framkvæmdastjóri Hlöðu, sagði við þetta tækifæri að margir væru áhugasamir um að setja upp hleðslustöðvar og nú væri bændum ekkert að vanbúnaði. Hann sagði að stöðvarnar á Dröngum og á Háafelli væru hluti af nýrri sendingu sem var að berast til landsins. Biðlisti var eftir stöðvunum sem nú eru til afgreiðslu.

IKEA í fararbroddi
Hleðslustöðvarnar voru afhentar við sama tilefni og á fimmta tug bænda í Hleðslu í hlaði og í Félagi ferðaþjónustubænda heimsóttu IKEA 11. apríl. Tilgangurinn var að kynna sér starfsemi húsgagnarisans í Garðabæ. IKEA er með um 60 hleðslustöðvar fyrir utan verslunina og býður rafbílaeigendum að hlaða á meðan þeir sinna erindum í búðinni. Að sögn Þórarins Ævarssonar framkvæmdastjóra IKEA hefur reynslan verið góð og rafbílaeigendur sérlega ánægðir með þjónustuna. Engin teljandi vandamál hafa komið upp í rekstri hleðslustöðvanna.


Guðný Camilla Aradóttir, markaðs- og umhverfisfulltrúi, fór yfir helstu áherslur IKEA á sviði sjálfbærni og samfélagslegrar ábyrgðar. Uppsetning rafhleðslustöðvanna er liður í umhverfisstefnu fyrirtæksins hér á landi.Þórarinn Ævarsson, framkvæmdastjóri IKEA, sagði frá starfsemi fyrirtækisins.