Fréttir 27. mars 2019

Albatrosum fækkar

Vilmundur Hansen

Fuglaáhugamenn og aðrir um­­hverfis­sinnar segja að af 22 tegundum albatrosa í heiminum séu 15 í útrýmingarhættu. Megin­ástæða þess er sögð vera að fuglarnir veiðist sem meðafli lang­línubáta.

Upplýsingar frá gervihnöttum sýna að albratrosum í heiminum fækkar stöðugt og að fjöldi fuglanna veiðist á línu túnfiskveiðibáta og annarra langlínubáta. Talið er að innann við 15% langlínubáta geri þær varúðarráðstafanir sem taldar eru nauðsynlegar til að koma í veg fyrir að fuglarnir veiðist á línu.

Áætlað er að tugþúsundir albatrosa drepist á hverju ári eftir að hafa steypt sér í hafið eftir beitu langlínubáta og fest á öngli. Auk albatrosa er beita eftirsótt af öðrum tegundum sjófugla, skjaldbökum og smáum hvölum.

Samkvæmt Global Fishing Watch eru nútímafiskveiðar ástæða þess að stofnum albatrosa í heiminum hefur fækkað um þrjá fjórðu undanfarna áratugi.