Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Eiríkur Þorsteinsson, trétæknir og verkefnisstjóri verkefnisins, skoðar ösp undir álagstjakki. Myndir / HGS
Eiríkur Þorsteinsson, trétæknir og verkefnisstjóri verkefnisins, skoðar ösp undir álagstjakki. Myndir / HGS
Fréttir 12. september 2019

Alaskaösp sterkust af íslenskum viði

Höfundur: Vilmundur Hansen

Álagsprófanir á mismun­andi gerðum af límtré úr íslenskum viði sýna að límtrésbitar úr ösp eru sterkastir. Efnið sem var valið í límtrésbitana var stafafura, sitkagreni, rússalerki og alaskaösp en viðmiðunarbitarnir voru úr sænsku rauðgreni.

Alls voru fimmtán límtrésbitar í þessu rannsóknaver­kefni álags­prófaðir. Efnið í tólf límtrésbitanna kom úr trjám sem voru felld í Þjórsárdal síðastliðinn vetur, stafafura, sitkagreni, rússalerki og alaskaösp. Þrír límtrésbitar til viðmiðunar voru framleiddir úr rauðgreni frá Svíþjóð sem er notað í límtréframleiðslu í límtréverksmiðjunni á Flúðum.

Eftir fellingu voru trjábolirnir sagaðir í réttar stærðir fyrir límtrés­fjalir og þurrkaðir. Límtrésfjalirnar voru límdar í límtrésverksmiðjunni á Flúðum en álagsprófunin fór fram hjá Nýsköpunar­miðstöð Íslands.

Allir 15 límtrésbitarnir eftir álagspróf. Fyrstu tveir bitarnir eru fura, síðan koma lerki, ösp, sitkagreni, sænskt rauðgreni, fura, tveir lerkibitar, tvær aspir, tvö sitkagreni og tvö sænsk rauðgreni.

Framkvæmd

Eiríkur Þorsteinsson, trétæknir og verkefnisstjóri verkefnisins, segir að tilurð verkefnisins sé að Límtré - Vírnet hafi óskað eftir því að gerð yrði tilraun með að framleiða límtré úr íslensku timbri og fékk fyrirtækið Skógræktina og Nýsköpunarmiðstöð Íslands til samstarfs um verkefnið.

Val á timbri til framleiðslu á límtré er nýtt fyrir Skógræktina. Valdar voru fjórar tegundir af trjám, sitkagreni, stafafura, rússalerki og alaskaösp, sem fengnar voru úr Þjórsárdals­skógi. Bolirnir voru bútaðir í ákveðna lengd og síðan sagaðir í límtrésfjalir, 50x100 milli­metrar, eftir ákveðinni sögunar­aðferð.

Efninu var síðan raðað upp fyrir þurrkun og flutt á Flúðir til þurrkunar hjá Límtré - Vírnet.

„Eftir að timbrið var orðið þurrt var það flokkað í rétt gæði, gallar skornir úr og efnið fingrað samkvæmt kröfum fyrir efni til límtrés­framleiðslu. Teknar voru prufur úr límtrésfjölum, sem voru fingraðar og ekki fingraðar. Þessar prufur voru síðan prófaðar í brot­pressu og er það gert til að kanna styrk þessara ólíku viðartegunda og bera hann saman og að lokum voru tólf bitar límdir saman.

Einnig voru þrír sambærilegir bitar límdir úr rauðgreni sem kemur frá Svíþjóð og er hefðbundið efni sem Límtré - Vírnet notar til límtrés­framleiðslu. Þetta var gert til að fá samanburð á íslenska efninu og hefðbundnu efni til framleiðslu á límtré. Að lokum voru bitarnir brotnir hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands og þar með prófað burðarþolið.

Álagsprófunin er fyrsta skrefið á áframhaldandi athugunum um hvort mögulegt sé að framleiða límtré úr íslenskum viði,“ segir Eiríkur.

Niðurstöður

Eiríkur segir niðurstöður álags­prófananna vera þær að sænska rauðgrenið sem notað var til við­miðunar hafi komið best út. Hann segir að það hafi ekki komið á óvart, enda þekking og reynsla til margra ára á því að framleiða úr þessum viði.  Styrkurinn reyndist bestur í öspinni af íslenska viðnum.

Lerkið reyndist stökkt og mesti álagsþungi þess var 3,2 tonn.

„Reynsla og þekking á því að framleiða límtré úr íslenskum viði er engin og því er hér um frumtilraun að ræða, sem lofar góðu og gefur tilefni til frekari tilrauna, sem mun snúa að vali á timbri, flokkun á því og byggja upp þekkingu á framleiðslu úr því.“

Góðar fréttir fyrir skógarbændur

Hlynur Gauti Sigurðsson, framkvæmdastjóri Lands­samtaka skógareigenda, segir þetta góðar fréttir fyrir skógarbændur.

„Besta efnið í límtré er kvistlítill viður og eðlilega er hann því verð­meiri. Ég tel að bændur munu eftir þetta hugsa sig tvisvar um þegar þeir ákveða hvað þeir ætla að gera við ónotað framræst land. Ætla þeir að endurheimta þar votlendi og hafa ekkert upp úr því eða nota ösp sem er hraðsprottnasta kolefnisbindandi plantan sem við höfum aðgang að til að kolefnisjafna búskapinn og um leið búa til úrvals efni í límtré, krossvið og fleira í þeim dúr? Auk þess má þar stýra beit og njóta skjólsins sem af hlýst. Næsta skref er að skoða hvort mikill munur er á milli þols ólíkra asparklóna og ef svo er hver þeirra kemur best út.“

Hlynur segir að þegar kemur að furu þurfi líkast til að velja beinna og kvistminna kvæmi en gert var. Skagway-furan er barn síns tíma og best nýtt sem jólatré. Sitkagrenið kom vel út en mögulega má nota íslenskt rauðgreni í meira mæli og það hefði verið gaman ef íslenskt rauðgreni hefði verið með í tilrauninni.

„Hvað lerki varðar þá kemur mér á óvart hversu stökkt það var og kom illa út miðað við annan við, en lerkið var samt áberandi fallegasti viðurinn.

þessar tegundir eru burðugar og munu áreiðanlega geta nýst hver á sinn hátt. Aðalatriðið er að sinna trjánum í skóginum framan af uppvexti og sjá til þess að þau verði einstofna og vaxi beint og uppkvista, að minnsta kosti þau sem eru álitleg að viðargæðum,“ segir Hlynur Gauti Sigurðsson, framkvæmdastjóri Landssamtaka skógareigenda.

Fyrsti umplöntunarróbóti landsins
Fréttir 19. apríl 2024

Fyrsti umplöntunarróbóti landsins

Í maí í fyrra var settur upp umplöntunarróbóti á gróðrarstöðinni Sólskógum í Kja...

Ólöglegur frágangur á dýrahræjum
Fréttir 19. apríl 2024

Ólöglegur frágangur á dýrahræjum

Opinn gámur, yfirfullur af dýrahræjum, stóð á dögunum á steyptu bílastæði við in...

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni
Fréttir 18. apríl 2024

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni

Vegamót á Bíldudal er matvöruverslun og veitingastaður. Gísli Ægir Ágústsson, ve...

„Allt of fáar messur“
Fréttir 18. apríl 2024

„Allt of fáar messur“

Tryggvi Sveinn Eyjólfsson, sem er á sautjánda aldursári, hefur vakið athygli fyr...

Íslenskar sængur um allan heim
Fréttir 18. apríl 2024

Íslenskar sængur um allan heim

Íslenskur dúnn ehf. selur æðardúnsængur beint til viðskiptavina um heim allan. Þ...

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign
Fréttir 17. apríl 2024

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign

Kristín Lárusdóttir og Guðbrandur Magnússon, bændur að Syðri- Fljótum í Meðallan...

Breyttar reglur um flutning líflamba
Fréttir 17. apríl 2024

Breyttar reglur um flutning líflamba

Verklagsreglur hafa verið endurskoðaðar um flutning á lömbum með verndandi eða m...

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins
Fréttir 16. apríl 2024

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins

Á fagfundi sauðfjárræktarinnar sem haldinn var á dögunum var Gýgjarhólskot í Bis...