Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Frá búi Brúneggja á Stafholtsveggjum 2.
Frá búi Brúneggja á Stafholtsveggjum 2.
Mynd / smh
Fréttir 1. desember 2016

Aðbúnaður hvergi í líkingu við það sem sást hjá Brúneggjum

Höfundur: smh
Í Kastljósi Ríkisútvarpsins síðastliðið mánudagskvöld var fjallað um slæman aðbúnað og óviðunandi ástand varphæna á eggjabúum Brúneggja að Teigi í Mosfellsbæ og á Stafholtsveggjum 2 í Borgarfirði. 
 
Grundvöllur umfjöllunarinnar er hátt í þúsund blaðsíður úr eftirlitsskýrslum Matvælastofnunar á undanförnum níu árum, sem Kastljós fékk aðgang að í krafti upplýsingalaga.
 
Í Kastljósinu kom fram að Matvælastofnum hefði á þessum árum ítrekað gert athugasemdir um aðbúnað á búunum, að hann stæðist ekki lágmarkskröfur reglugerða. Á árunum frá 2007 til 2014 voru í gildi aðrar aðbúnaðarreglur og önnur lög giltu um velferð dýra í landinu og í raun voru heimildir Matvælastofnunar á þessum árum afar takmarkaðar til að knýja fram úrbætur á búum. Það var ekki fyrr en með nýjum lögum frá janúar 2014 og reglugerð frá febrúar 2015 að stofnunin fékk raunverulegar heimildir til að þvinga fram aðgerðir til úrbóta. Til stóð að vörslusvipta búið í nóvember 2015, en vegna þess að á síðustu stundu hafði verið sýnt fram á úrbætur var fyrirtækið þess í stað beitt dagsektum, sem hafa alls numið um 2,6 milljónum króna.
 
Matvælastofnun hefði átt að upplýsa um stöðu mála
 
Í úttektum Matvælastofnunar varð einnig ljóst að merkingarnar sem skartað var á umbúðum Brúneggja, um að varan væri vistvænt vottuð, gæfi í raun ranga mynd af raunverulegum aðbúnaði á búunum. Í Kastljósinu kom fram að þar sem Matvælastofnun var ekki eftirlitsaðili með vistvænni vottun, hafi stofnuninni verið viss vandi á höndum að búa yfir þessum upplýsingum. Dýralæknir alifuglasjúkdóma hjá Matvælastofnun hafi þó sent ráðuneytinu upplýsingar um stöðu mála, en málið dagaði þar uppi. 
 
Jón Gíslason, forstjóri Matvælastofnunar, sagði þó í þættinum að rík ástæða hefði verið til að upplýsa neytendur um athugasemdir stofnunarinnar. Eftir að þátturinn var sýndur bætti hann um betur í viðtali við Ríkisútvarpið og sagði að hann teldi að stofnunin hefði hreinlega átt að ganga fram og veita meiri upplýsingar, jafnvel þótt þarna væri um að ræða löggjöf sem væri ekki á hennar verksviði. 
 
Reglugerð um vistvæna landbúnaðarframleiðslu
 
Í reglugerðinni um vistvæna landbúnaðarframleiðslu frá 1998 kemur fram í 4. grein hennar að „Eftirlitsaðilar með gæðastjórnun samkvæmt reglugerð þessari eru búnaðarráðunautar og dýralæknar, sem sótt hafa sérstök námskeið eins og krafist er hverju sinni og hlotið hafa viðurkenningu landbúnaðarráðuneytisins til að starfa við eftirlitið. Hver framleiðandi og afurðastöð sem óskar eftir viðurkenningu skal sækja um hana til viðkomandi búnaðarsambands sem felur eftirlitsaðila að framkvæma úttekt á framleiðsluaðstöðu umsækjanda. Eftirlitsaðilar skulu eigi sjaldnar en einu sinni á ári gera úttekt hjá framleiðendum og afurðastöðvum sem hafa hlotið viðurkenningu á aðstöðu þar með talið landgæðum og búnaði til framleiðslu og vinnslu.“
 
Merki vistvænnar landbúnaðarframleiðslu.
Svo virðist sem lítið eftirlit hafi verið með vistvænni landbúnaðarframleiðslu á gildistíma reglugerðarinnar, en hún var felld úr gildi 1. nóvember 2015. Merki vistvænnar vottunar hefur þó víða verið notað, ekki síst í garðyrkju. Sveinn Sigurmundsson, framkvæmdastjóri Búnaðarsambands Suðurlands, segir að það sé vissulega tiltekið í reglugerð að búnaðarsamböndin eigi að hafa aðkomu að veitingu leyfa til að nota merkið um vistvæna vottun – og hafa eftirlit með því að búskapur sé í samræmi við vottunina undir eftirliti ráðuneytisins. Hann bendir þó á að námskeið hafi ekki verið haldin fyrir þá sem áttu að sinna eftirlitinu. „Leyfin fyrir okkar fólk runnu út árið 1999 og eftir það hafa þau ekki haft leyfi til að votta vistvæna framleiðslu. Engin námskeið voru haldin og auk þess bárust ekki óskir um slíka vottun eftir þennan tíma. Hins vegar hefðum við alveg mátt vera virkari og ganga eftir endurnýjuðu starfsleyfi hjá ráðuneytinu,“ segir Sveinn.
 
Búnaðarþing Kjalarnesþings veitti Brúneggjum vottun
 
Það var Búnaðarsamband Kjalarnesþings sem veitti Brún­eggjum vistvæna vottun fyrir níu árum, þegar fyrirtækið hóf starfsemi og átti samkvæmt reglugerð að hafa eftirlit með framleiðslunni. Það var hins vegar aldrei gert og segir Guðmundur Davíðsson, formaður sambandsins, að dagleg starfsemi Búnaðarsambands Kjalarnesþings hafi í raun lagst af, en notið þjónustu hjá Búnaðarsambandi Vesturlands í staðinn. 
 
Notkun á merkinu áfram heimil
 
Ástæður þess að reglugerðin um vistvæna landbúnaðarframleiðslu var felld brott, voru meðal annars þær að ekki hafði verið reglubundið eftirliti með þeim aðilum sem höfðu fengið vistvæna vottun. Í umfjöllun Bændablaðsins í september 2015, um brottfall reglugerðarinnar, var haft eftir Ólafi Friðrikssyni, skrifstofustjóra í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, að ráðuneytið myndi ekki banna áframhaldandi notkun á merkinu „vistvæn landbúnaðarafurð“. Það eigi við um alla þá sem muni nota merkið og gildi þá einu hvort þeir hafi einhvern tímann uppfyllt skilyrði vottunarinnar eða ekki. 
 
Dæmin einstök frá Brúneggjum
 
Í kjölfar umfjöllunarinnar í Kastljósinu sendi Félag eggjaframleiðenda frá sér yfirlýsingu. Þar kemur fram að á undanförnum árum hafi átt sér stað miklar umbætur í íslenskum eggjabúum sem hafa miðað að því að bæta aðbúnað varphæna, meðal annars með nýjum húsum sem uppfylla ýtrustu kröfur. „Félagið mun leggja sig fram, í samstarfi við opinberar eftirlitsstofnanir og neytendur, við að uppræta starfshætti í líkingu við þá sem fjallað var um í Kastljósi því þeir eru með öllu óboðlegir,“ segir meðal annars í yfirlýsingunni.
 
Samkvæmt upplýsingum frá Brigitte Brugger, dýralækni alifuglasjúkdóma hjá Matvælastofnun, eru dæmin frá Brúneggjum einstök hvað varðar slæma meðferð á varphænum – og sambærilegar aðstæður við meðferð á fuglum hafa ekki sést annars staðar. Hún segir að Matvælastofnun hafi farið í úttekt í 11 af 13 eggjabúum eftir að lögin tóku gildi 1. janúar 2014. „Það hafa komið fram frávik vegna dýravelferðar á öðrum eggjabúum þar sem fimm hænur hafa fundist í búrum þar sem mega vera að hámarki fjórar. Alla jafna eru þó fjórar hænur í mesta lagi í búrum. Í heildinni má segja að frávik vegna of mikils þéttleika hafi verið minni háttar og ekkert í líkingu við þann þéttleika sem hefur sést í varphúsum Brúneggja. Þess má þó geta að ef fimm hænur eru í búri sem er fyrir fjórar að hámarki, þá eru í því búri 25 prósent fleiri fuglar en leyfilegt er. Misjafnlega hefur gengið að fá fram úrbætur hjá fyrirtækjum hvað þetta varðar.
 
Önnur frávik sem hafa komið fram hafa verið um daglegar skráningar og smitvarnir á búum – og hafa ekki haft áhrif á velferð hæna.
 
Í lausagönguhúsum hjá öðrum en Brúneggjum hafa aðallega komið upp einhver tilvik um vandamál með loftræstingu og ammoníaksmengun,“ segir Brigitte. 
Passíusálmar sr. Hallgríms
Fréttir 29. mars 2024

Passíusálmar sr. Hallgríms

Passíusálmarnir verða fluttir í Hallgrímskirkju á föstudaginn langa.

Halla tekur upp Íslenskt staðfest
Fréttir 28. mars 2024

Halla tekur upp Íslenskt staðfest

Halla Sif Svansdóttir Hölludóttir, garðyrkjubóndi og eigandi Sólskins grænmetis ...

Uppfærsla á stefnumörkun Bændasamtaka Íslands
Fréttir 27. mars 2024

Uppfærsla á stefnumörkun Bændasamtaka Íslands

Fjölmörg mál voru til afgreiðslu á nýliðnu Búnaðarþingi 2024, úr fimm nefndum, s...

Endurnýting heimil til 1. nóvember 2025
Fréttir 27. mars 2024

Endurnýting heimil til 1. nóvember 2025

Matvælaráðuneytið hefur tilkynnt um frestun á gildistöku banns við endurnýtingu ...

Horfið frá framleiðslutengdum stuðningi
Fréttir 27. mars 2024

Horfið frá framleiðslutengdum stuðningi

Fyrirkomulag landbúnaðarstuðningskerfis á Íslandi mun taka miklum breytingum ef ...

Hyggur á slátrun í haust ef leyfi fæst
Fréttir 26. mars 2024

Hyggur á slátrun í haust ef leyfi fæst

Fyrrverandi sláturhússtjóri á Vopnafirði ætlar ekki að láta deigan síga þrátt fy...

Niðurskurði lokið á fé úr Blöndudal
Fréttir 26. mars 2024

Niðurskurði lokið á fé úr Blöndudal

Niðurskurður á sauðfé frá bæjunum Eiðsstöðum og Guðlaugsstöðum í Blöndudal fór f...

Kornræktarfélag gengur í endurnýjun lífdaga
Fréttir 26. mars 2024

Kornræktarfélag gengur í endurnýjun lífdaga

Kornræktarfélag Suðurlands verður endurvakið sem viðskiptavettvangur ræktenda og...