Mynd/Fergusonfélagið
Fréttir 16. maí 2019

70 ár síðan Ferguson kom til Íslands

Ritstjórn

Fyrir 70 árum síðan voru fyrstu Ferguson-dráttarvélarnar kynntar á Keldum í Mosfellssveit að viðstöddum helstu framámönnum í íslenskum landbúnaði. Af því tilefni ætlar Fergusonfélagið að efna til sýningar að Blikastöðum í sömu sveit, laugardaginn 18. maí milli kl. 12 og 17.

Sýndar verða Ferguson-dráttarvélar af elstu gerðunum ásamt tilheyrandi tækjum. Meðal sýningargripa verður annar af þeim Fergusonum sem voru á Keldum 1949 og einhver þeirra tækja sem þá voru sýnd. Bjarni Guðmundsson á Hvanneyri, höfundur bókarinnar „…og svo kom Ferguson“ flytur ávarp ásamt fleirum.

Í gamla fjósinu á Blikastöðum hafa áhugamenn unnið að uppgerð gamalla landbúnaðarvéla. Þar er vísir að safni listilega vel uppgerðra véla af ýmsum gerðum. Gefst kostur að sjá vélar sem verið er að vinna að á ýmsum stigum uppgerðar.

Í tilkynningu frá Ferguson-félaginu segir að allir séu hjartanlega velkomnir.