Fréttir 20. mars 2019

15 sinnum líklegra að smitast af kampýlóbakter á ferðalögum erlendis en hér á landi

Ritstjórn

Karl G. Kristinsson, prófessor í sýkla- og veirufræði við Læknadeild HÍ og yfirlæknir á Landspítalanum, sagði frá því á ráðstefnu um sérstöðu íslensks landbúnaðar að nýgengi kampýlóbaktersýkinga í mönnum á Íslandi væri það minnsta sem þekktist í Evrópu og þótt víðar væri leitað. Kampýlóbakter er ein algengasta orsök niðurgangs í heiminum í dag og getur í verstu tilfellum valdið ristilbólgum og blóðugum niðurgangi og örsjaldan öndunarlömun.

Karl sýndi súlurit sem sýndi nýgengi kampýlóbakter hér á landi. Samanburður á uppruna sýkinga sýndi að líkurnar á kampýlóbaktersmiti á ferðalögum erlendis eru 15 sinnum meiri en að menn smitist við neyslu mengaðra matvæla hér á landi.


Kampýlóbaktersmit á Íslandi á árunum 1990-2018. Grænu súlurnar sýna smit vegna ferðalaga erlendis en þær rauðu smit innanlands. Hvítar súlur tákna að uppruni er óþekktur. Mynd: Glæra tekin saman af dr. Ruff Lowman, byggt á gögnum frá Landspítalanum.

Flest lönd í Evrópu fylgjast ekki með kampýlóbakter í kjöti en rannsóknir hafa sýnt að kjúklingur í stórmörkuðum á meginlandinu er að miklu leyti smitaður af kampýlóbakter. Sýndi Karl tölur úr mælingum í stórmörkuðum víða um Evrópu, m.a. í Austurríki þar sem 57% kjúklings var smitaður, 32% í Ungverjalandi, 68% í Bretlandi og á bilinu 23-68% á Spáni. Á Íslandi hefur nýgengi kampýlóbakter í kjúklingakjöti mælst niður í 0%. Hér á landi er í gildi frystiskylda á kampýlóbaktersmituðum kjúklingi en frystingin drepur bakteríuna að langmestu leyti.

Myndin sýnir að líkur á að smitast erlendis á ferðalögum (rauðu súlurnar) eru á bilinu 210-325 tilfelli per 100.000 lífár en 8-23 á Íslandi (bláu súlurnar). Það er um fimmtánfaldur munur. Mynd/Skjáskot úr erindi Karls, glæra tekin saman af dr. Ruff Lowman.

Fyrirlestur Karls er aðgengilegur í heild sinni hér.