Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Helstu influtningslönd nautakjöts til ESB-ríkjanna.
Helstu influtningslönd nautakjöts til ESB-ríkjanna.
Fréttaskýring 12. júní 2018

Óheftur innflutningur á ódýru kjöti gæti stórskaðað íslenska kjötframleiðslu

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Vísbendingar eru um að umskipti séu í uppsiglingu í nautgriparækt í Bandaríkjunum vegna loftslagsbreytinga. Nautgripaeldi hefur verið að aukast allt fram undir þetta, en tíðari þurrkar virðast vera að leiða til aukinnar slátrunar og stóraukins framboðs af kjöti á næstu misserum.

Markaðssérfræðingar hafa í gegnum tíðina bent á hættuna af því ef þjóðir eru ekki sjálfbærar hvað varðar matvælaframleiðslu fyrir íbúa sína. Árum saman hefur verið hamrað á þessu, m.a. af Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO). Ef það kemur til stóraukins framboðs, eins og nú virðist vera að gerast varðandi nautakjöt í Ameríku, þá mun verð hríðfalla. Neytendur kunna að fagna slíku í stundargleði, en sú gleði kann að breytast í martröð á ótrúlega skömmum tíma.

Kýr í útieldi fóðraðar í Kaliforníu.

Hrun á nautakjötsmarkaði

Á fjármálasíðu Bloomberg má sjá að fjárfestar eru búnir að missa trúna á nautgriparæktinni í Bandaríkjunum í framvirkum samningum. Ástæðan er fyrirsjáanlegt offramboð á kjöti vegna samdráttar bænda í greininni. Kemur það í kjölfar mikillar fjölgunar nautgripa á fóðrunarstöðvum allt fram í nóvember á síðasta ári. Í þeim mánuði jókst ásetningin um 14%.

Má sjá að væntingar fjárfesta þann 9. apríl sl. hafa lækkað um rúmlega 80% síðan í nóvember 2017 og er þar talað um nautgripahrun (Cattle Collapse). Við lokun markaða 9. apríl hafði stöðutaka í nautakjötsviðskiptum lækkað um 26% frá því í lok mars. Samkvæmt tölum U.S. Commodity Futures Trading Commission, höfðu viðskipti með nautakjöt í apríl ekki verið lægri síðan í október 2016.

Viðskipti með nautgripi á fæti sýna líka sömu þróun, þar hefur verð verið að snarlækka.

Í apríl var nautakjöt í framvirkum samningum til afgreiðslu í júní verðlagt á 97,074 cent fyrir pund af kjöti (0,45 kg). Það þýðir að kílóverðið var komið niður í  2,1 dollara, eða um 226 íslenskar krónur miðað við gengi 1. júní.

Því er nú spáð að bandarískir bændur muni taka kálfa fyrr úr fóðrun en venja er til og senda í sláturhús til að fækka í stofninum. Það þýðir aukið framboð af kjöti. Það þýðir líka að meðalvigt sláturgripa mun lækka um 8 til 10%. 

Skortur og verðhækkanir munu fylgja tímabundnu offramboði

Vegna lægri tollmúra víða um lönd flæðir ódýra kjötið hindrunarlítið í viðskiptum á milli landa. Það getur haft mjög neikvæð áhrif á innlenda nautgriparækt í viðkomandi ríkjum og neikvæðri keðjuverkun.

Bændur ráða þá ekki við samkeppnina, gefast upp og farga bústofni sínum. Það þýðir enn meira framboð á verðlitlu kjöti um tíma og gjaldþrot í greininni. Þegar birgðir ódýra kjötsins svo loks tæmast verður búið að skaða innanlandsframleiðslu í viðkomandi ríkjum það mikið  að greinin getur ekki brugðist við. Þannig getur samdráttur í nautgripaeldi leitt til kjötskorts á markaði, allavega í tvö ár eða meira og stórfelldrar hækkunar á kjötverði. Ef ekki verður hafður hemill á innflutningi til landa eins og Íslands, gæti afleiðingin orðið sú að ekki verður hægt að mæta eftirspurn þegar kjötframboðið minnkar. Hvorki með innflutningi né innlendri framleiðslu. Það þýðir að fæðuöryggi þjóðarinnar yrði mögulega ógnað. Þessi sviðsmynd hefur oft verið dregin upp af sérfræðingum í milliríkjaviðskiptum, en jafn harðan skotin niður af hagsmunaaðilar í innflutningi. Nú eru komnar fram vísbendingar um að slíkt ástand kunni að vera í uppsiglingu ef ekki verði varlega farið. Hér á landi er auk þess búið að opna gáttir með nýlegum  tollasamningi við Evrópusambandið.  

Bandaríkin eru langstærst í nautakjötsframleiðslunni

Bandaríkin eru langstærsti nautakjötsframleiðandi heimsins með rétt tæplega 12,1 milljón tonna á síðasta ári samkvæmt tölum landbúnaðarráðuneytis Bandaríkjanna (USDA). Það er 19,63% af heimsframleiðslunni. Næstir í röðinni eru Brasilíumenn með 9,5 milljónir tonna og 15,43% hlutdeild. Þá koma Evrópusambandslöndin með tæplega 7,9 milljónir tonna og 12,79% hlutdeild og Kína með tæplega 7,1 milljónir tonna og 11,48% markaðshlutdeild.

Fóðrunarstöð nautgripa í Brasilíu. 

Þess má geta að í Evrópu eru þýskir bændur öflugustu nautakjötsframleiðendurnir og framleiddu þeir 1,1 milljón tonna af nautakjöti 2017. Þar af voru 378.000 tonn seld úr landi. Þá voru 12 milljónir kúa á 146.600 bæjum innan ESB landa á síðasta ári.

Fjölbreytileikinn í þýskri nautgripaframleiðslu er mjög mikill og eru þeir með yfir 40 tegundir nautgripa á bak við sína framleiðslu samkvæmt upplýsingum German Meat. Þar eru Fleckvieh og Braunvieh vinsælustu tegundirnar í suðurhluta Þýskalands, en þýskar Holstein kýr eru algengastar í Norður-Þýskalandi.

Þess má einnig geta að nautakjötsframleiðslan er ekki stærsti kjötgeirinn í ESB-löndunum. Þar er svínakjötsframleiðslan öflugust með yfir 22 milljónir tonna og um 51% hlutdeild á kjötmarkaði. Þá kemur alifuglakjötið sem er um 13 milljónir tonna og með um 30% hlutdeild og síðan nautakjötið með tæplega 8 milljónir tonna og 17% hlutdeild af kjötmarkaðnum.

Heimsframleiðsla á kjöti í 63 milljónir tonna

Spáð er að heimsframleiðsla á nauta- og kálfakjöti aukist um 2% á þessu ári og verði 63 milljónir tonna. Einkum er um að ræða aukna framleiðslu í Brasilíu, Argentínu og Bandaríkjunum. Vegna þurrka slátra bændur fleiri gripum en ella. Aukin kjötframleiðsla í Brasilíu er einnig drifin af stærri skrokkum og meiri fallþunga en áður, samkvæmt skýrslu landbúnaðarráðuneytis Bandaríkjanna frá því í apríl 2018. 

Aukið framboð eykur spennu á mörkuðum

Þurrkar í Argentínu hafa neytt bændur til að fara fyrr með gripi til slátrunar sem eykur enn á framboðið. Svipaða sögu er að segja frá Ástralíu, þar sem óhagstætt veðurfar hefur leitt til þess að hagabeit er léleg. Þetta mun leiða til aukins kjötframboðs um sinn en erfiðara verður síðan að byggja upp hjarðirnar að nýju. Það mun þýða hækkandi verð á kjötmörkuðum þegar fram í sækir.

Útflutningur þjóða á nauta- og kálfakjöti er talinn verða um 5% meiri á þessu ári en í fyrra og nema í heild um 10,5 milljónum tonna. Aukningin mun einkum koma frá Brasilíu, Argentínu og Bandaríkjunum. Viðskiptabann Rússa á Brasilíu mun auka framboð og spennu á öðrum mörkuðum. Líklegt er að menn reyni að leita nýrra markaða í Asíu til að forðast frekari verðlækkanir en orðið er.     

Þurrkar í Bandaríkjunum leiða til aukins kjötframboðs

Á vefsíðu Farm Journal var fjallað um málið í lok mars og sagt að þurrkar séu að draga úr vexti í nautgriparækt. Þann 1. janúar sl. voru 94,3 milljónir nauta og kálfa í Bandaríkjunum sem er 1% aukning frá fyrra ári. Þá voru 31,7 milljónir holdakúa í landinu, sem er mesti fjöldi síðan 2008. Þetta er fyrir utan mjólkurkúastofninn. 

„Það er að draga úr vextinum í greininni og það lítur út fyrir að við höfum þegar náð toppnum,“ segir Randy Blach, forstjóri CattleFax. 

Frá 2015 hafa 2,4 milljónir nautgripa bæst við stofninn. Það voru merki um góða tíð, sagði John Nalivka, stjórnarformaður Sterling Marketing. „En nú er farið að fjara út.“

Miklir þurrkar voru í Banda­ríkjunum í haust og fram á vetur, einkum í Texas, Oklahoma og Kansas og náðu til nær allra ríkja við Mexíkóflóa og upp til landamæranna að Kanada. Þurrkarnir náðu til nautgriparæktarhéraðanna og jukust enn í vetur. Innan þessa svæðis eru 14 ríki þar sem um 60% nautgripahjarðanna er alinn.

Þurrkarnir í haust og vetur hafa þegar haft áhrif á kjötframleiðsluna sem hefur aukist verulega með tilheyrandi verðfalli á kjöti. Bændur hafa ekki getað treyst á gresjurnar eins og áður og hafa þurft að grípa til kostnaðarsamrar fóðrunar og velja fremur þann kost að fækka í stofninum og slátra. Í janúar voru þannig 1,14 milljónir gripa á fóðurstöðvum sem er það mesta sem sést hefur síðan 2012.

Spáð metframboði af nautakjöti á Bandaríkjamarkaði

John Nalivka segir að slátrun og kjötframleiðsla verði 6% meiri á þessu ári miðað við 2017. Bandaríski nautakjötsiðnaðurinn skilaði 745 pundum af nautakjöti á hverja kú á árinu 2017. Nú er gert ráð að fyrir að hún aukist um 4% og fari í 774 pund á hverja kú. Það eru í heild rúmlega 24,5 milljarðar punda eða rúmlega 11 milljónir tonna af nautakjöti sem streyma inn á kjötmarkaðinn. Reyndar segir landbúnaðarráðuneyti Bandaríkjanna að metframleiðsla verði á nautakjöti þar í landi 2018 og að hún fari í 12,6 milljónir tonna.

Spáð metútflutningi á nautakjöti frá Bandaríkjunum

Nautakjötsútflutningur frá Banda­ríkjunum í fyrra var sá næstmesti í sögunni, eða 1.263.456 tonn. Fyrstu þrjá mánuði þessa árs jókst nautakjötsútflutningurinn úr 216.075 tonnum í 240.726 tonn frá sama tímabili í fyrra, eða um 11%. Þá var einnig um 10% aukning á útflutningi ýmissa nautakjötsafurða og nam sá útflutningur samanlagt 394.420 tonnum fyrstu þrjá mánuði ársins. Samkvæmt spá landbúnaðarráðuneytis Banda­ríkjanna mun verða metútflutningur á nautakjöti í ár og að hann muni aukast um 10% og nema 1,4 milljónum tonna.

Helstu kaupendur eru Japanir, Kóreubúar, Kínverjar og Mexíkóbúar samkvæmt tölum Kjötútflutningssamtaka Bandaríkjanna (U.S. Meat Export Federation).  Evrópusambandið sem slíkt hefur samkvæmt sömu upplýsingum dregið úr nautakjöts­innflutningi frá Banda­ríkjunum um 19% á meðan Þjóðverjar hafa aukið innflutninginn á nautakjöti um 23% og nautakjötsafurðum um 20%. Auk þess hefur svínakjötsútflutningurinn aukist um 5% þótt dregið hafi úr útflutningi annarra svínaafurða.

Flytja líka út kindakjöt

Þótt fáir Íslendingar viti af því þá flytja Bandaríkjamenn út kindakjöt og sauðfjárafurðir þó í litlum mæli sé. Þannig fluttu þeir út 526 tonn af kindakjöti fyrstu þrjá mánuði þessa árs, þar af 37 tonn til ríkja Evrópusambandsins og 21 tonn til Bretlands. Er það nokkuð sérstakt þar sem breskum bændum hefur gengið illa að markaðssetja sitt eigið kindakjöt. Ekki er að sjá að bandarískt kindakjöt hafi þó verið flutt til Íslands. 

Tollmúrar við Kína kunna að auka þrýsting á öðrum mörkuðum

Landbúnaðarráðuneyti Banda­ríkjanna segir að hækkandi tollar kunni að hafa áhrif á útflutning Bandaríkjamanna á kjöti. Er það væntanlega afleiðing af stefnu Donalds Trump forseta í viðleitni hans til að hefta innflutning með það að markmiði að auka innanlandsframleiðslu. Í sumum tilvikum verður þessu svarað með hærri tollum á bandarískar kjötvörur sem gætu hækkað úr 24,3% í 50,7%. Það útilokar bandarískan útflutning nema framleiðendur séu tilbúnir að taka á sig skellinn sem gæti leitt til gjaldþrota í greininni. Einnig eykur þetta þrýsting um sölu á öðrum mörkuðum.  

Kjötinnflutningur til Bandaríkjanna hefur aukist um 3%

Hafa verður í huga að Bandaríkin hafa líka flutt inn mikið af nautakjöti og öðrum kjöttegundum. Samkvæmt tölum landbúnaðarráðuneytis Bandaríkjanna hefur orðið 3% aukning á kjötinnflutningi milli ára. Á tólf mánaða tímabili nemur hann 726.542 þúsund tonnum. Mest kemur frá Kanada, Ástralíu, Nýja-Sjálandi og Mexíkó.

96% aukning á kjötinnflutningi frá Íslandi

Til gamans má geta þess að 96% aukning hefur verið á kjötinnflutningi frá Íslandi á síðustu 12 mánuðum. Það mun þó sennilega ekki setja bandaríska kjötmarkaðinn á hliðina því innflutningurinn á íslenska kjötinu jókst einungis úr 17 tonnum í 34 tonn samkvæmt tölum USDA.  

Nautakjötsneysla á heimsvísu er um 6,6 kg á mann

Meðalneysla á nautakjöti á heimsvísu er sögð vera 6,6 kg á hvert mannsbarn á ári. Í Bandaríkjunum og í Brasilíu er nautakjötsneyslan mun meiri, eða að meðaltali um 0,5 kg á viku. Það gerði 26 kg á mann að meðaltali á ári 2014. Hún var 14,1 kg á mann á Íslandi árið 2015. Þar við bætist kjötneysla af öðrum dýrum, eins og lambakjöt, svínakjöt og alifuglakjöt. Bandaríkjamenn hafa síðan verið að draga mjög úr neyslu á nautakjöti, eða um 19%, ef marka má tölur Natural Resourges Defense Council (NRDC).

Heimild kjötafurðastöðva til sameiningar og samstarfs
Fréttaskýring 18. apríl 2024

Heimild kjötafurðastöðva til sameiningar og samstarfs

Alþingi samþykkti 21. mars sl. breytingu á búvörulögum sem felur í sér undanþágu...

Mikilvægasta rými jarðar
Fréttaskýring 29. mars 2024

Mikilvægasta rými jarðar

Stærsta innlögn nýrra fræsafna í Alþjóðlegu fræhvelfinguna á Svalbarða átti sér ...

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg
Fréttaskýring 8. mars 2024

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg

Vísbendingar eru um að bændur séu líklegri til að þjást af einkennum streitu og ...

Framtíðarlandbúnaður á eftir að stökkbreytast
Fréttaskýring 23. febrúar 2024

Framtíðarlandbúnaður á eftir að stökkbreytast

Á komandi áratugum er líklegt að landbúnaður breytist verulega. Þættir eins og t...

Úrgangsmálin í ólestri
Fréttaskýring 9. febrúar 2024

Úrgangsmálin í ólestri

Í byrjun síðasta árs tóku gildi lög hér á landi þar sem bann er lagt við urðun á...

Bændur telja samningsstöðu sína gagnvart afurðastöðvum veika
Fréttaskýring 30. janúar 2024

Bændur telja samningsstöðu sína gagnvart afurðastöðvum veika

Aðstöðumunur kúabænda vegna mismunandi stuðnings við kvótakaup milli landsvæða h...

Auður, kvóti, mjólk og skuld
Fréttaskýring 26. janúar 2024

Auður, kvóti, mjólk og skuld

Þegar tiltekinn hópur bænda hefur tök á að eignast mjólkurkvóta með því að vera ...

Dýrmæt erfðaefni dreifast víða
Fréttaskýring 13. janúar 2024

Dýrmæt erfðaefni dreifast víða

Eyþór Einarsson, ráðunautur hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML), segir að ...