Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Andstæðingar TTIP-samningsins telja að með þeim sé verið að búa til trójuhest sem opni stórfyrirtækjum bakdyraleið framhjá lögum aðildarríkjanna.
Andstæðingar TTIP-samningsins telja að með þeim sé verið að búa til trójuhest sem opni stórfyrirtækjum bakdyraleið framhjá lögum aðildarríkjanna.
Fréttaskýring 24. febrúar 2016

Martröðin verður að ísköldum veruleika

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Mikill pólitískur óstöðugleiki ríkir nú víða um lönd, ekki síst vegna efnahagslegs óstöðugleika sem ekki hefur tekist að koma böndum á eftir efnahagshrunið 2008. Yfirþjóðlegir viðskiptasamningar ýkja ástandið enn frekar þar sem fullveldisréttur ríkja er að engu hafður. Er svokallaður TISA-samningur m.a. nefndur í því sambandi.
 
Fjölmargir hagspekingar spá því nú að stutt sé í annað efnahagshrun, enda margar forsendur til staðar sem geti hrint af stað neikvæðri keðjuverkun á verðbréfamörkuðum heimsins. Fjárfestar reyna hver um annan þveran að tryggja sína fjármuni í einhverju öðru en vafasömum fjármálavafningum. Ein besta tryggingin er af mörgum talin vera í ræktarlandi og vatni. Það er þó ekki einfalt vegna strangra lagaákvæða í flestum löndum heims til að fyrirbyggja framsal lands og sérhagsmuna til útlendinga. Til að komast framhjá þessu keppast stórfyrirtækin við að koma í gegn fjölþjóðlegum viðskiptasamningum með yfirþjóðlegum ákvæðum til að ryðja slíkum hindrunum úr vegi.   
 
Alþjóðlegir samningar sem afsala fullveldisrétti
 
Íslendingar taka þátt í margvíslegu alþjóðlegu samstarfi og um leið er þjóðin bundin af samningum sem þar eru búnir til, hvort sem mönnum líkar það betur eða verr. Þar má nema aðildina að NATO, aðildina að EFTA og EES. Undanfarið hafa tveir fulltrúar þjóðarinnar setið við samningaborð þar sem möndlað er um nýjan fjölþjóðlegan viðskiptasamning á þjónustu undir skammstöfuninni TISA (Trade in Services Agreement). Þar er um að ræða samningagerð sem unnin hefur verið með mikilli leynd og óttast margir að útkoman verði fyrst og fremst fyrirtækjum í hag en ekki íbúum ríkjanna. Það er helst að upplýsingum hafi verið komið á framfæri með upplýsingaleka í gegnum Wikileaks. Vefsíða íslenska utanríkisráðuneytisins hefur þó líka upplýst um þá hlið mála í TISA-samningunum sem ekki er bundinn trúnaði. 
 
Fullveldisafsal innbyggt í væntanlegan TISA-samning
 
Reynt var að slá á ótta við TISA-samningagerðina af tveim fulltrúum utanríkisráðuneytis Íslands á áhugaverðum fundi sem haldin var í Norræna húsinu á vegum Dögunar í fyrri viku.  Eigi að síður staðfesti samningamaður Íslands á þeim fundi að ef til ágreinings kæmi á milli erlendra fyrirtækja og íslenskra aðila um framkvæmd þessa væntanlega samnings, þá myndi yfirþjóðlegur einkadómstóll (gerðardómur) skera úr um slíkan ágreining. Þar hefðu íslenskir dómstólar enga lögsögu. 
 
EFTA dómstóll virðir að vettugi íslensk heilbrigðissjónarmið
 
Sama gildir um ágreiningsmál varðandi EFTA, þar er það EFTA-dómstóllinn sem fer með úrskurðarvaldið en ekki íslenskur dómstóll. Að vísu túlka menn það hér sem ráðgefandi vald, en ekki er víst að fulltrúar dómsins líti svo á málið. 
 
Hrákjötsmálið 
 
Gott dæmi um það er nýfallinn úrskurður um mál sem Ferskar kjötvörur ehf. (eitt af 14 fyrirtækjum Haga) höfðuðu gegn íslenska ríkinu um frelsi til að flytja inn hráar kjötvörur. Þrátt fyrir margvísleg og afar sterk rök um smithættu og verndun íslenskra og einstakra dýrastofna á alþjóðlega vísu, þá máttu þau rök íslenska ríkisins sín einskis gagnvart regluverki EFTA og í raun ESB. Þessi erlendi dómstóll virðist með úrskurði sínum taka sér yfirþjóðlegt vald sem gengur þvert á fullveldisrétt íslensku þjóðarinnar.
Hér á landi bera stjórnvöld því samt alltaf fyrir sig að EFTA-dómstóllinn sé aðeins ráðgefandi og hafi ekki lögsögu á Íslandi. Eftir stendur að Ísland er samt bundið af ákvæðum þeirra milliríkjasamninga sem það gerir. Það á við um EFTA og EES sem er eins konar afleiða þess samnings og gerður við Evrópusambandið. Ef ekki er farið eftir þeim samningum vofir alltaf yfir hótun um ógildingu samninga eða sektir. Samkvæmt úrskurði EFTA-dómstólsins er svigrúm íslenska  ríkisins til þess að setja reglur um innflutning hrárra kjötvara mjög takmarkað. 
 
Engin innflutningsleyfi og ekki hægt að krefjast frystingar
 
Í dómsniðurstöðu EFTA-dómstólsins þann 1. febrúar var auk þess komist að þeirri niðurstöðu að EES-ríkjum væri óheimilt að skylda innflytjanda hrás kjöts til þess að afla sérstaks innflutningsleyfis. Það felur m.a. í sér að ekki er heimilt að krefja innflytjanda um skil á vottorði til staðfestingar þess að kjötið hafi verið geymt frosið í tiltekinn tíma fyrir tollafgreiðslu. Það má því segja að með þessu sé verið að brjóta niður allar öryggisgirðingar Íslendinga varðandi innflutning á hráu kjöti. 
Þvert á rök lækna
 
Þetta er afar sérkennilegt í ljósi þessa að læknar á Íslandi, í Evrópu og víðar um heiminn heyja nú harða baráttu gegn notkun sýklalyfja sem vaxtarhvata í dýraeldi. Sannað þykir að slík notkun ásamt ofnotkun hjá mannfólkinu á sýklalyfjum er að valda hrikalegu sýklalyfjaofnæmi. Þetta er sögð ein mesta heilbrigðisógn mannkynsins nú á dögum. Þarna hafa Íslendingar staðið vel að vígi með sinn landbúnað og minnstu notkun fúkkalyfja sem þekkist í heiminum.
 
Ef EFTA-úrskurðurinn gildir, standa íslenskir bændur berskjaldaðir frammi fyrir óheftri samkeppni við bændur í Evrópu og víðar, sem stórauka framleiðslugetuna sína með ómældri notkun sýklalyfja og ýmissa eiturefna. Eitthvað sem íslenskir bændur leyfa sér ekki að gera af lýðheilsuástæðum.
 
Lýðheilsusjónarmið að engu höfð
 
Samkvæmt úrskurðinum er nú fátt sem getur komið í veg fyrir að kjöt af „kverk“-smituðum sænskum hrossum berist ekki til Íslands. Ekkert er heldur sem hindrar það að salmonellusmitað hrátt kjöt af alifuglum og svínum berist ekki til landsins.
 
Reynslan úti í Evrópu hefur ítrekað sýnt að upprunavottorð á kjöti og heilbrigðisvottorð innan ESB halda ekki vatni. Þetta hefur margoft komið upp varðandi kjötsvindl þar sem reynt hefur m.a. verið að selja hrossakjöt í stórum stíl sem nautakjöt. Einnig stórfellt svindl við endurvinnslu á skemmdu kjöti í Þýskalandi í Kebab-rétti sem olli dauðsföllum. Líka á ostum sem komnir voru langt fram yfir síðasta söludag og fluttir til endurvinnslu á Ítalíu. Þeir ostar voru svo seldir aftur sem nýir rifnir ostar á pitsur og annað góðgæti, m.a. í Frakklandi. 
 
Viðvaranir lækna á Landspítalanum
 
Karl G. Kristinsson, prófessor og yfirlæknir á sýklafræðideild Landspítalans, hefur ítrekað varað við innflutningi á hráu kjöti. Ástæðan er sú ógn sem mannkyninu stafar nú vegna ofnotkunar sýklalyfja við kjötframleiðslu í Evrópu og víðar um heim. Sú ofnotkun leiðir til sýklalyfjaónæmis hjá mönnum. Á vefmiðlinum Eyjunni skrifar Vilhjálmur Arason, læknir á Landspítalanum, pistla á dögunum á sömu forsendum og hannn bætir um betur í Bændablaðinu í dag. Þar segir hann að þaðsé ábyrðarlaust ef stjórnvöld ætla að fara þegjandi eftir úrskurði EFTA-dómstólsins og leyfa innflutning á hráu kjöti til lands. Hann segir hræsni af talsmönnum innflutnings að vísa til neytenda hagsmuna. Hann segir jafnframt að dómurinn gangi þvert á lýðheilsumarkmið læknavísindanna og byggi eingöngu á efnahags- og tollalegum forsendum.
 
Yfirþjóðlegt vald stórfyrirtækjanna tekur völdin
 
Grímulaust berjast fjölþjóðleg risafyrirtæki nú við að njörva lýðræðislega kjörin stjórnvöld um allan heim í fjötra óhefts viðskiptafrelsis. Með samþykkt nýrra fríverslunarsamninga eru ríkin smám saman að lama rétt þegna sinna til sjálfsákvörðunar um framkvæmd eigin laga. 
 
Mikill ótti er við það víða um lönd að TISA-samningurinn muni færa fjölþjóðlegum stórfyrirtækjum yfirþjóðlegt vald í viðleitni til að tryggja þeim ítrustu fjárhagslegu hagsmuni sína. Að þessari samningsgerð standa auk Íslands, Ástralía, Kanada, Chile, Taívan, Kólumbía, Kosta Ríka, Evrópusambandið, Hong Kong, Ísrael, Japan, Liechtenstein, Mauritíus, Mexíkó, Nýja-Sjáland, Noregur, Pakistan, Panama, Perú, Suður- Kórea, Sviss, Tyrkland og Bandaríkin.  
 
TPP er víti til varnaðar
 
Bent hefur verið á TPP-fríverslunarsamning 12 Kyrrahafsríkja (Trans-Pacific Partnership) sem víti til að varast. Sá samningur er tilbúinn og reynt hefur verið af miklu harðfylgi að fá aðildarþjóðir samningsins til að fá hann samþykktan á sínum þjóðþingum. Þar hefur ríkisstjórn Barack Obama í Bandaríkjunum m.a. lagt hart að nýjum forsætisráðherra Kanada, Justin Pierre James, að skrifa undir. Eitthvert hik hefur komið á menn þegar þeir áttuðu sig á öflugri andstöðu innan ríkjanna. Charles Chamberlain, yfirmaður samtakanna Lýðræði fyrir Ameríku, Democracy for America, sagði m.a. um þann samning:
 
Óörugg matvæli munu flæða inn í landið
 
„Nú þegar við höfum séð allan texta samningsins kemur í ljós að hann mun eyðileggja störf og er verri en við hefðum nokkurn tíma getað ímyndað okkur. Þessi samningur mun  keyra niður laun, óörugg matvæli munu flæða inn í landið, hann mun valda verðhækkunum lífsnauðsynlegra lyfja með óheftum viðskiptum við lönd þar sem samkynhneigt fólk og einstæðar mæður eru grýttar til dauða.“
 
Afneitun á hlýnun  jarðar
 
Þá sagði Jason Kowalski, stjórnandi aðgerðasamtakanna 350 policy. (350.org):
„Á meðan samningurinn er uppfullur af tilslökunum fyrir olíuiðnaðinn er ekki minnst einu orði á hlýnun jarðar. Það sem samningurinn gerir aftur á móti er að gefa olíufyrirtækjunum sérstaka möguleika á að lögsækja þær ríkisstjórnir sem voga sér að koma í veg fyrir vinnslu á olíu. Ef eitthvert hérað vill koma í veg fyrir að verið sé að nota aðferðir (fracking) við að pressa olíu upp úr sandsteini, þá geta olíufyrirtækin farið í mál. Ef samfélög reyna að stöðva kolavinnslu, geta fyrirtækin valtað yfir fólkið. Til skamms tíma grefur þessi samningur undan ríkjum og möguleikum þeirra til að fara að ráðgjöf vísindamanna sem telja að best sé að láta olíuna óhreyfða í jarðlögunum.“
 
TTIP-samningur næst á dagskrá
 
Auk TPP er nú unnið að öðrum álíka samningi milli Bandaríkjanna og ESB, eða svokölluðum TTIP-samningi (Transatlantic Trade and Investment Partnership). Markmið samningsins er eins og annarra slíkra samninga að stuðla að efnahagsvexti þvert á landamæri. Til að gera það mögulegt verður að gera margvíslega löggjöf í viðkomandi ríkjum óvirka með yfirþjóðlegu samkomulagi. Það er með öðrum orðum verið að hrifsa sjálfsákvörðunarrétt þjóða og lýðræðisbundinn réttinn af almenningi viðkomandi ríkja. Allt er þetta gert undir því yfirskini að verið sé að bæta hag íbúanna. 
 
Auðsöfnun eins prósentsins
 
Niðurstaðan af vaxandi efnahagsvexti þeirra fyrirtækja sem bestan og greiðastan aðgang hafa að slíkum samningum er ofursöfnun auðs á fáar hendur. Til viðbótar þessu hafa stórfyrirtækin fjármálakerfi og banka á sinni könnu og geta í gegnum þau aukið auð sinn enn hraðar. Ofurríka eina prósent jarðarbúa er því þegar búið að hrifsa til sín eignir 6,9 milljarða manna, en þeir vilja meira.
 
Sumum borgurum þykir nóg komið, en greinilega ekki nógu mörgum. Þegar að þeim þolmörkum kemur þá mun verða upplausn, sem hætt er við að kjaftagleiðir stjórnmálamenn eða leiðtogar stórfyrirtækja færi sér í nyt, eins og sagan kennir okkur. Afleiðingarnar geta þá orðið skelfilegar, eins og sagan kennir okkur líka. 
 
Nýtt efnahagshrun gæti breytt stöðunni umtalsvert ef menn hafa þá dug og þor til að stokka upp kerfið og þá alþjóðlegu samninga sem halda því gangandi. Reynslan af hruninu 2008 er þó síður en svo til að auka bjartsýni manna á að slíkt kunni að gerast. 
 
ESB er stór og útvíkkaður viðskiptasamningur
 
Evrópusambandið er í grunninn svipaðs eðlis. Það er byggt á viðskiptasamningi 6 ríkja, undir því yfirskini að tryggja varanlegan frið í Evrópu. Þetta var gert með Evrópuyfirlýsingunni 1951 (Europe Declaration) eða „Charter of the Community“, sem hún hefur líka verið nefnd. Það voru hin stríðshrjáðu ríki, Vestur-Þýskaland, Frakkland, Ítalía, Holland, Belgía og Lúxemborg sem stóðu að þessari yfirlýsingu. 
 
Þetta var afsprengi af undirritun Parísarsamningsins sem bjó til Evrópska kola- og stálbandalagið (European Coal and Steel Community - ECSC). Parísarsamkomulagið var aftur á móti byggt á Schuman-yfirlýsingunni frá 9. maí árið 1950. Hana lagði franski utanríkisráðherrann Robert Schumann fram, en hún var að mestu hugarsmíð Jean Monnet. Var það tillaga um að koma reglum yfir kola- og stálframleiðslu Spánverja og Þjóðverja. 
 
Faðir Evrópusambandsins
 
Þessi maður, Jean Omer Marie Gabriel Monnet, var franskur stjórnmálahagfræðingur og diplómat sem fæddur var 9. nóvember 1888 í Conac-sveitarfélaginu í Charente-héraði í Frakklandi. Hann er talinn hugmyndasmiðurinn að sameinaðri Evrópu og gjarnan kallaður faðir Evrópusambandsins. Þótt hann væri kallaður faðir ESB var hann þó aldrei kosinn opinberlega til starfa í þess þágu. Hann var samt settur sem æðsti yfirmaður Evrópska kola- og stálbandalagsins. Vegna alþjóðlegra tengsla sinna vann hann síðan mjög á bak við tjöldin fyrir yfirvöld í Evrópu og í Bandaríkjunum.  
 
Evran gengur ekki upp að óbreyttu
 
Opnað var á þátttöku annarra Evrópuþjóða að þessu Evrópu­samkomulagi frá 1951 og eru nú 28 ríki orðin aðilar að ESB. Þá hefur samningurinn verið ört útvíkkaður í því augnamiði að færa þjóðirnar nær því að vera eitt þjóðríki með eina peningastjórn. Það hefur þó ekki enn tekist og í því liggur vandi evrunnar sem sameiginlegrar myntar. Þann vanda virðist erfitt vera að leysa.
 
Evran var upphaflega byggð á sterku gengi vestur-þýska marksins, en ekki einhvers konar meðalgildi mynta aðildarríkjanna. Það olli strax miklu ójafnvægi vegna ólíkrar efnahagsstjórnar og stöðu evruríkjanna 19. Því hefur verið útilokað að halda uppi stöðugleika nema á kostnað veikari ríkjanna í samstarfinu og ómældri eignaupptöku. Á þessu hafa Grikkir fengið illilega að kenna sem og Spánverjar, Ítalir og fleiri aðildarríki. Virtir efnahagssérfræðingar telja að til lengdar geti evran ekki gengið upp, nema aðildarríkin framselji fjármálalegri yfirstjórn í hverju landi undir einn hatt í Brussel. Með öðrum orðum að búin verði til Bandaríki Evrópu.
 
Í grein í þýska dagblaðinu Süddeutsche Zeit­ung sl. mánudag greina bankastjórar þýska seðlabankans frá hugmyndum sem stefna einmitt í þessa átt. Hún felur í sér að stofna sameiginlegt fjármálaráðuneyti ESB. Sjálfbær hagvöxtur á evrusvæðinu gangi ekki upp við núverandi ástand. 
 
Valdið hrifsað úr höndum fólksins
 
Samningnum um ESB er ætlað að tryggja gagnkvæma hagsmuni aðildarríkjanna. Um leið fela þeir í sér yfirþjóðlegt vald samningsins, líkt og Íslendingar hafa kynnst í gegnum aðild sína að EFTA og í gegnum það aðildina að Evrópska efnahagssvæðinu, EES. Íslensk lög gilda ekki í samskiptum aðildarríkjanna ef þau stangast á við lög og reglur EES sem eru í raun lög og reglur ESB. Þetta sjá Íslendingar mjög skýrt í innleiðingu reglugerðabálka sem oftar en ekki stangast á við íslensk lög. Þannig má segja að Ísland sé hluti af ESB þó með óbeinum hætti sé og án þess að almenningur á Íslandi hafi nokkuð haft um það að segja. Valdið er því greinilega ekki fólksins þegar að slíkum samningum kemur. Þess vegna óttast nú margir samninga á borð við TISA.    
 
Þversagnakennd utanríkisstefna
 
Þegar rætt er um áhrif alþjóðlegra samninga á íslenskan veruleika er veruleikinn oft lyginni líkastur. Þar má t.d. nefna áhrif sem slík þátttaka veldur þegar Íslendingar undirgangast refsiaðgerðir gegn ríkjum í gegnum slíka samninga. 
 
Íslendingar virðast nokkuð berskjaldaðir fyrir leiðsögn hinna stóru og sterku í þessu samhengi og ekki annað að sjá en gagnrýni sé þar ekki ofarlega á blaði. Þversagnirnar í því sambandi eru æpandi. Nægir að nefna utanríkispólitíkina sem rekin hefur verið varðandi Úkraínu, sem runnin er undan rifjum forystumanna í ESB sem íslensk stjórnvöld segjast samt ekki vera hliðholl. Sú stefna er síðan dyggilega  bökkuð upp af bandarískum stjórnvöldum með miklum peningaaustri undir yfirskini lýðræðisástar. Það er síðan allt saman bakkað upp af Íslendingum í gegnum aðild Íslands að NATO. – Hræsni? ... svari því hver fyrir sig.
 
Veran í NATO og átök um yfirráðin yfir Úkraínu leiddu til þátttöku Íslands í viðskiptabanni gegn Rússlandi. Fáir virðast þó gera sér grein fyrir upphafi átakanna og lítið fer fyrir upplýsingagjöf um það sem raunverulega er að gerast í Úkraínu. Það litla sem sagt er í vestrænum fjölmiðlum, virðist oft ansi mikið fært í stílinn.  
 
Brauðkarfa Evrópu
 
Úkraína geldur þess nú eins og oft áður að þar er að finna eitt allra besta ræktarland sem finnst í heiminum með hinni dýrmætu „svörtu“ mold sem hentar afar vel til kornræktar. Þarna var brauðkarfa Sovétríkjanna sálugu sem stóð undir 25% af allri landbúnaðarframleiðslu Sovétríkjanna. Landið hefur einnig verið nefnt brauðkarfa Evrópu (Breadbasked of Europe). Fjórða hvert starf í Úkraínu er að finna í landbúnaði. Staðsetning landsins með löng landamæri að Rússlandi, gerir það líka sérlega eftirsóknarvert í augum herforingja NATO.  
 
Það er engin tilviljun að Evrópusambandið hefur um langt árabil reynt að komast til áhrifa í Úkraínu. Sagan geymir fleiri slíkar tilraunir, síðast á vegum Þýskalands Hitlers. Á undanförnum árum hefur ESB notið stuðnings evrópskra og bandarískra fyrirtækja sem hafa ausið peningum inn í úkraínska stjórnkerfið, m.a. í viðleitni til að fá lögum breytt sem heimila eiga eignarhald útlendinga að ræktarlandi. Áður hefur verið fjallað um þau mál í Bændablaðinu 18. september 2015 undir fyrirsögninni „Mikil ásælni í ræktarland“. 
 
Stórfyrirtækin stökkva á gulrótina
 
Oleksiy Pavlenko, landbúnaðar­ráðherra Úkraínu, veifaði gulrót framan í erlenda fjárfesta í janúar í fyrra og sagði auðvelt að auka kornframleiðsluna í landinu úr 62 milljónum tonn í 100 milljónir tonna. Þá hefur Evrópusambandið komið með beinum hætti að borðinu samkvæmt frétt EU CO-OPERATION NEWS. Er það gert í gegnum sérstakt verkefni sem kallað er „Aðstoð við þróun opins og gagnsæs markaðar með land í Úkraínu“. Það mun væntanlega stuðla að enn frekari innkomu erlendra fjárfesta  á ræktarlandi á svæðinu. Það er því engin tilviljun að fyrirtæki á borð við risafyrirtækin Monsanto, Cargill Agrarian Holding og DuPont Chemical Concern eru að fjárfesta grimmt í úkraínskum landbúnaði – og stjórnkerfi. 
 
Sumum Þjóðverjum blöskraði
 
Landhremmingar stórfyrirtækjanna hafa verið að eiga sér stað í Úkraínu í gegnum leigusamninga með kaupréttarákvæðum. Stórfyrirtækin hafa verið að sölsa undir sig ræktarland í Afríku og víðar um heim. Meira að segja var Ilse Aigner, þáverandi landbúnaðarráðherra Þýskalands (2009–2013) og fyrrverandi ráðgjafa Angelu Merkel þýskalandskanslara, farið að blöskra staðan. Sagði hún á ársfundi FAO í Róm 2010 að þjóðir heims yrðu að fara að verja sína þegna fyrir ásælni fjárfesta í land (land grabbing). Þjóðverjar og ESB hafa samt ekki látið sér segjast.
 
„Löglega kjörnum“ forseta steypt af stóli
 
Hér á landi hefur því ekki verið haldið hátt á lofti að árið 2014 var „löglega“ kjörnum forseta Úkraínu, Viktor Yanukovych, steypt af stóli. Hvaða afstöðu sem menn kunna að hafa til Yanukovych sem persónu og hans skrautlega ferils og ásakana um spillingu, þá var hann samt kosinn með löglegum hætti 2010. Var þetta opinberlega viðurkennt af alþjóðlegum eftirlitsstofnunum sem sögðu að kosningarnar hefðu farið fram með heiðarlegum hætti.
 
Á fundi í Chevron-olíu­fyrirtækinu í Bandaríkjunum 2014 sagði Victoria Nuland, aðstoðarutanríkisráðherra Banda­ríkjanna:
„Við höfum fjárfest fyrir meira en 5 milljarða dollara til að aðstoða Úkraínu við þessi og önnur markmið til að tryggja væntingar um lýðræðislega Úkraínu.“ Má segja að með þessum orðum hafi hún staðfest, að Bandaríkjamenn  hafi þannig ýtt undir að úkraínskar öfgasveitir þjóðernissinna legðust á árar til að koma forsetanum frá völdum. Þessir úkraínsku þjóðernissinnar eiga uppruna sinn í nasistahreyfingu stríðsáranna sem tóku þátt í óhæfuverkum Hitlers, m.a. fjöldamorðum á gyðingum. Athygli vekur í þessu samhengi að Nuland er orthodox-gyðingur að uppruna. 
 
Jonathan Marshall lýsir þessu ágætlega í grein á vefsíðunni Consortiumnews.com þann 28. janúar síðastliðinn. Sú vefsíða hefur verið tileinkuð sjálfstæðri rannsóknarblaðamennsku frá árinu 1995. Henni er stýrt af Robert Parry, sem m.a. er þekktur fyrir að hafa aðstoðað við uppljóstranir á svokölluðu Iran-Contra-hneyksli á tíma Regan-stjórnarinnar í Bandaríkjunum á níunda áratugnum. Þá starfaði Parry fyrir Associated Press. Snerist þetta um sölu  Bandaríkjamanna á vopnum til Írans þrátt fyrir vopnasölubann og notuðu peningana til að fjármagna Contra-skæruliða í Níkaragva.
 
Neitaði að ganga að samningum við Evrópusambandið og var steypt af stóli
 
Meginástæðan fyrir uppþotunum í Úkraínu var að Yanukovych forseti vogaði sér árið 2013 að ýta út af borðinu samningum sem voru langt komnir um aðild að Evrópusambandinu. Grunnur að þeim samningum hafði verið lagður í tíð forvera hans, Viktors Yushchenko. 
 
Samkvæmt orðum forsætis­ráðherrans Mykola Azarov, var kveikjan að samningsslitunum hörð skilyrði sem Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn setti fyrir lánveitingum til Úkraínu þann 20. nóvember 2013. Var þá ákveðið að slíta viðræðum um svokallað „Association Agreement“ við Evrópusambandið sem átti að undirrita 9 dögum síðar. Enda var þjóðin klofin í tvennt í ESB-málinu samkvæmt könnun  Research & Branding Group. 
 
Þetta olli mótmælum á Evrópu­torginu í Kiev, „Euromaidan“. Evrópusambandið og Bandaríkja­menn virðast hafa kynt þar hraustlega undir. Fóru mótmælin, sem hófust á hóflegum nótum, fljótlega úr böndunum. Fjöldi mótmælenda, eða um 80 til 100 manns,voru drepnir af leyniskyttum sem fullyrt er að hafi verið úr röðum þjóðernissinna. Aðrir fullyrtu að þar hefðu stuðningsmenn forsetans verið að verki og hefur þeirri fullyrðingu verið haldið hátt á lofti á Vesturlöndum. 
 
Undir pressu frá ESB afsalaði Viktor Yanukovych sér svo völdum til þingsins. Stuðningsmenn hans héldu því þó fram að hann væri enn löglega kjörinn forseti landsins. Var þá gefin út handtökuskipun á forsetann fyrir morð á óbreyttum borgurum í óeirðunum. 
 
Rússland, með Pútín forseta í fararbroddi, mótmælti því sem hann kallaði réttilega „ólöglegt valdarán og brottrekstur á lýðræðislega kjörnum forseta“. Þetta var sagt kornið sem fyllti mælinn hjá Rússum og viðbrögð þeirra voru að hertaka Krímskagann og gera hann að annexíu í Rússlandi. Þar voru þeir reyndar fyrir með flotastöð samkvæmt samningi við Úkraínu. 
 
Mótleikur ESB, Bandaríkjanna og bandamanna þeirra í NATO var að setja viðskiptabann á Rússa, með þátttöku Íslands, sem stendur enn. Það gilti þó bara á ákveðnum sviðum,  einkum er varðaði vopnasölu og svo matvælaviðskipti sem valdið hafa Íslendingum miklum skaða. Vonir standa þó til að einhvers konar sættir kunni að nást á næstu misserum. Þar er uppi krafan um að Rússar skili aftur Krímskaganum til Úkraínu, en Rússar eru á aftur móti með gríðarlega fjárkröfu á Úkraínu vegna ógreiddra gasskulda. Þar er rússneska fyrirtækið Gazprom með milljarða dollara kröfu sem erfitt getur reynst að véfengja. 

19 myndir:

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg
Fréttaskýring 8. mars 2024

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg

Vísbendingar eru um að bændur séu líklegri til að þjást af einkennum streitu og ...

Framtíðarlandbúnaður á eftir að stökkbreytast
Fréttaskýring 23. febrúar 2024

Framtíðarlandbúnaður á eftir að stökkbreytast

Á komandi áratugum er líklegt að landbúnaður breytist verulega. Þættir eins og t...

Úrgangsmálin í ólestri
Fréttaskýring 9. febrúar 2024

Úrgangsmálin í ólestri

Í byrjun síðasta árs tóku gildi lög hér á landi þar sem bann er lagt við urðun á...

Bændur telja samningsstöðu sína gagnvart afurðastöðvum veika
Fréttaskýring 30. janúar 2024

Bændur telja samningsstöðu sína gagnvart afurðastöðvum veika

Aðstöðumunur kúabænda vegna mismunandi stuðnings við kvótakaup milli landsvæða h...

Auður, kvóti, mjólk og skuld
Fréttaskýring 26. janúar 2024

Auður, kvóti, mjólk og skuld

Þegar tiltekinn hópur bænda hefur tök á að eignast mjólkurkvóta með því að vera ...

Dýrmæt erfðaefni dreifast víða
Fréttaskýring 13. janúar 2024

Dýrmæt erfðaefni dreifast víða

Eyþór Einarsson, ráðunautur hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML), segir að ...

Ræktunarland verður kortlagt
Fréttaskýring 8. desember 2023

Ræktunarland verður kortlagt

Gert er ráð fyrir að þingsályktunartillaga um nýja landsskipulagsstefnu til 15 á...

Mikilvægi sjálfsaflahlutfalls
Fréttaskýring 17. nóvember 2023

Mikilvægi sjálfsaflahlutfalls

Hugtakið „fæðuöryggi“ hefur verið mikið til umræðu undanfarin misseri. Ef litið ...