Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Frá Gardavatninu í Norður-Ítalíu 22. október 2017. Hér má sjá sýkið umhverfis kastala sem Scaliger-ættin og Mastino I della Scala reisti á Sirmione-tanganum við suðurenda Gardavatns á þrettándu öld. Á veggjum kastalans má vel greina hvernig vatnsyfirborði
Frá Gardavatninu í Norður-Ítalíu 22. október 2017. Hér má sjá sýkið umhverfis kastala sem Scaliger-ættin og Mastino I della Scala reisti á Sirmione-tanganum við suðurenda Gardavatns á þrettándu öld. Á veggjum kastalans má vel greina hvernig vatnsyfirborði
Mynd / HKr.
Fréttaskýring 14. nóvember 2017

Ítalskir bændur verða fyrir milljarða tapi vegna þurrka

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Almenningur í Evrópu er smám saman að vakna til vitundar um mikilvægi og verðmæti vatnsins. Eftir mikið þurrkasumar á Ítalíu eru vísindamenn nú farnir í fúlustu alvöru að tala um vatn sem gull hvað mikilvægi og verðmæti varðar. Enn á ný er því mikil ástæða fyrir Íslendinga að minnast þeirra forréttinda sem við búum við í vatnsmálum umfram flestar aðrar þjóðir heims. Einnig mikilvægi þess að þjóðin glati ekki yfirráðum yfir eigin vatnslindum. 
 
Veðurfræðingar segja Ítali hafa upplifað þurrasta vor í 60 ár á þessu ári og á sumum landsvæðum hafi úrkoma minnkað um 80% frá því sem gerist í meðalári. Ekkert lát var á þessum þurrkum í sumar og fram á haustið. Í þessum þurrkum hefur Sardinía orðið einna harðast úti. Á fyrstu sex mánuðum þessa árs rigndi aðeins í 26 daga í Róm samanborðið við 88 daga á fyrri árshelmingi 2016. Þá bætir það ekki ástandið að sumar vatnslagnir í borginni eru allt frá tímum Rómverja og orðnar mjög lekar.  
 
Í lok ágúst var BBC með umfjöllun um þurrkana á Ítalíu í sumar þar sem allra leiða var leitað til að bregðast við vatnsskorti. Vatíkanið lokaði m.a. fyrir alla sína vatnsfonta. Þá hafði verið farið fram á að lýst yrði yfir neyðarástandi í 11 af 20 héruðum vegna vatnsskorts. Þetta eru svæði frá Veneto í norðri, þar sem m.a. er að finna Gardavatnið og borgirnar Veróna og Feneyjar, til Sikileyjar í suðri. Þá voru einnig nefnd héruðin Emilia-Romagna, Toskana, Marche, Molise, Puglia, Calabria, Sardinía og Trento, eða stærsti hluti Ítalíu. 
 
Þar var m.a. greint frá því að fyrirtækið Acea hafi unnið að því að reyna að minnka sóun vatns vegna vatnsskorts með því að leita uppi leka í vatnsveitukerfum. Hafi fyrirtækinu tekist að loka fyrir 1.300 leka síðan í maí. Segist fyrirtækið hafa skoðað 4.700 kílómetra af vatnsleiðslum, eða nærri 90% af vatnskerfi Rómaborgar.
 
Vegna þessara óvenjulegu þurrka var ástandið orðið mjög slæmt í Róm. Þar hafði rignt 70% minna en á sama tímabili síðustu þrjú ár. Sífellt minna vatn var í boði fyrir íbúa borgarinnar. 
 
Um 8% af vatni borgarbúa hefur verið fengið úr stöðuvatninu Bracciano norður af Róm þar sem vatnsyfirborð hafði lækkað mjög.
 
Hratt hefur gengið á Gardavatnið
 
Á Norður-Ítalíu hefur staðan verið litlu skárri samkvæmt upplýsingum Bændablaðsins frá heimamönnum. Vatnsyfirborð í Gardavatninu, sem er 2.350 ferkílómetrar að stærð, 51,6 kílómetri að lengd og 16,7 km breitt þar sem það er breiðast, var um 1,5 metrum lægra nú um miðjan október en venjulega á þessum árstíma. Það þýðir að 3.525 rúmkílómetra af vatni vantar upp á eðlilega stöðu. Einn rigningardagur kom þó 22. október sem varla hefur þó skipt sköpum. 
 
Uppgufun í Gardavatni meiri en sem nemur einu Þingvallavatni
 
Gardavatnið er sannarlega enginn smá pollur því meðaldýpt þess er 136 metrar við venjulegar aðstæður og mesta dýpt 346 metrar. Til samanburðar er Þingvallavatnið okkar 84 ferkílómetrar að stærð og með meðaldýpt upp á 34 metra og mestu dýpt 114 metra. Heildar vatnsmagnið í Þingvallavatni er um 2.856 rúmkílómetrar eða 699 rúmkílómetrum minna vatnsmagn en horfið hefur úr Gardavatninu vegna þurrkanna á Ítalíu í sumar.   
 
Milljarða tap vegna þurrkanna
 
Á Ítalíu hefur þegar orðið milljarða evra tap í landbúnaði vegna vatnsskorts í sumar. Samkvæmt frétt BBC höfðu bændasamtökin Coldiretti lýst því yfir að tapið væri orðið í ágúst um 2 milljarðar evra, eða sem nemur rúmlega 24,8 milljörðum íslenskra króna. 
 
Eins og flestir þekkja eru Ítalir miklir vínframleiðendur og eru með drjúga hlutdeild af ólífu- og ólífuolíuframleiðslu heimsins. Í 9 löndum Evrópusambandsins voru framleidd 2.322.300 tonn af ólífuolíu á árinu 2016. Áætlað er að sú framleiðsla falli niður í 1.923.300 á þessu ári, en uppgjörsárið í ólífugeiranum er talið frá septemberlokum til 1. október árið eftir, ekki ósvipað íslenska kvótaárinu.   
 
Ólífuframleiðslan á Ítalíu minnkar um helming
 
Til samanburðar þá var heims­framleiðsalan á ólífuolíu á árinu 2016 samtals 3.168.600 tonn. Framleiðsla ESB-landanna níu á árinu 2016 var því rúmlega 73% af heimsframleiðslunni samkvæmt tölum Alþjóða ólífuráðsins (International Olive Oil Council). Þar framleiddu Spánverjar langmest, eða 1.401.600 tonn 2015/2016 og Ítalía kom næst með 463.700 tonn. Nú er áætlað að framleiðslan á Spáni detti niður í 1.311.300 tonn, eða um 7% og á Ítalíu niður í  243.000 tonn, eða um nær helming eða 48%. 
 
Vegna þurrkanna og samdráttar í ólífuuppskeru var búið að vara við því á markaðnum að búast mætti við verulegum verðhækkunum á ólífuolíu í vetur. 
 
Miklar sveiflur í verði
 
Meðalverð á Extra Virgin olíu var mjög hátt á árunum 2014 til 2015 og fór hæst í rétt rúmar 600 evrur hver 100 kg á Bari markaði á Ítalíu. Það sem nefnt er Extra Virgin olía er úrvalsolían sem fæst úr fyrstu pressun á ólífunum. Verðið lækkaði mikið í kjölfar mikillar framleiðslu á árunum 2015 til 2016 og fór lægst í tæplega 340 evrur á hver 100 kg í desember 2015. Í júní 2016 tók verðið að stíga mjög hratt og var komið í um 565 evrur í nóvember 2016 í framhaldi af metuppskeru á Spáni og á Ítalíu. Hæst fór það svo í nærri 620 evrur hver 100 kg í lok febrúar 2017. Síðan fór verð lækkandi alveg fram í ágúst á þessu ári þegar það var í um 540 evrum hver 100 kg. Ekki er því ólíklegt að ný met verði slegin í verði á þessari gerð ólífuolíunnar í vetur og að það fari vel upp fyrir 600 evrur á hver 100 kg. 
 
Meðaltals kostnaðarverð við hreinsun á ólífuolíu hefur fylgt svipuðum sveiflum og markaðsverð á Extra Virgin olíu og fór hæst í  um 395 evrur fyrir hver 100 kg í ágúst 2015 og náði sama marki  í mars 2017. Svipað hefur verið á verði á Ítalíu og Spáni en þó örlítið lægra á Spáni. 
 
Um 98% ólífuræktarinnar kemur frá löndum við Miðjarðarhaf
 
Samkvæmt skýrslu sem International Olive Council gerði um framleiðslukostnað á ólífuolíu 2015 voru þá ræktaðar ólífur á 11 milljónum hektara í 47 löndum um allan heim. Uppskeran fer fram frá október fram í apríl á norðurhluta jarðarinnar og frá apríl fram í júlí á suðurhlutanum. Um 98% heimsframleiðslunnar kemur frá löndum við Miðjarðarhaf.  
 
Um 12.000 olíumyllur eru starfræktar í heiminum til að pressa ólífur. Um 80% þeirra eru hátækniverksmiðjur sem eru með svokallað „centrifugal system“ en enn er þó töluvert um að gamaldags steinkvarnir séu notaðar við vinnsluna.
  
Ólífuolían er lítt eða ekki notuð til steikingar, heldur beint til neyslu með brauði, pasta, grænmeti og öðrum mat. Ólífuolían er aðeins um 1,7% af allri neysluhæfri jurtaolíu og dýrafitu sem notuð er við matargerð og er framleidd í um 184 milljónum tonna á ári. 

10 myndir:

Skylt efni: Þurrkar | vatnsskortur | Ítalía

Mikilvægasta rými jarðar
Fréttaskýring 29. mars 2024

Mikilvægasta rými jarðar

Stærsta innlögn nýrra fræsafna í Alþjóðlegu fræhvelfinguna á Svalbarða átti sér ...

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg
Fréttaskýring 8. mars 2024

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg

Vísbendingar eru um að bændur séu líklegri til að þjást af einkennum streitu og ...

Framtíðarlandbúnaður á eftir að stökkbreytast
Fréttaskýring 23. febrúar 2024

Framtíðarlandbúnaður á eftir að stökkbreytast

Á komandi áratugum er líklegt að landbúnaður breytist verulega. Þættir eins og t...

Úrgangsmálin í ólestri
Fréttaskýring 9. febrúar 2024

Úrgangsmálin í ólestri

Í byrjun síðasta árs tóku gildi lög hér á landi þar sem bann er lagt við urðun á...

Bændur telja samningsstöðu sína gagnvart afurðastöðvum veika
Fréttaskýring 30. janúar 2024

Bændur telja samningsstöðu sína gagnvart afurðastöðvum veika

Aðstöðumunur kúabænda vegna mismunandi stuðnings við kvótakaup milli landsvæða h...

Auður, kvóti, mjólk og skuld
Fréttaskýring 26. janúar 2024

Auður, kvóti, mjólk og skuld

Þegar tiltekinn hópur bænda hefur tök á að eignast mjólkurkvóta með því að vera ...

Dýrmæt erfðaefni dreifast víða
Fréttaskýring 13. janúar 2024

Dýrmæt erfðaefni dreifast víða

Eyþór Einarsson, ráðunautur hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML), segir að ...

Ræktunarland verður kortlagt
Fréttaskýring 8. desember 2023

Ræktunarland verður kortlagt

Gert er ráð fyrir að þingsályktunartillaga um nýja landsskipulagsstefnu til 15 á...