Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Siglingaleiðir á Norðurpólssvæðinu. Vinstra megin er svokölluð Norðvesturleið við strendur Kanada og Alaska og hægra megin er Norðausturleiðin fyrir norðan Skandinavíu og Rússland.
Siglingaleiðir á Norðurpólssvæðinu. Vinstra megin er svokölluð Norðvesturleið við strendur Kanada og Alaska og hægra megin er Norðausturleiðin fyrir norðan Skandinavíu og Rússland.
Fréttaskýring 21. apríl 2017

Ísþekjan hefur rýrnað síðan 1987

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Hafísinn á Norðurheimskautinu er nú sagður sá minnsti síðan reglulegar gervihnattamælingar NASA hófust árið 1978. Þegar ástandið frá árinu 1999 til 2016 er borið saman kemur samt í ljós að töluverðar sveiflur hafa verið í ísmynduninni fyrir veturinn á milli ára. Eins hefur septemberísþekjan oft verið minni en nú. 
 
Þegar rætt er um hafísinn á norðurslóðum snýst umræðan gjarnan um hafsvæðið norður af Noregi. Það segir þó alls ekki alla söguna því miklar sveiflur hafa oft verið á öðrum svæðum og þá gjarnan í gagnstæða átt. 
 
Opin siglingaleið í september allt frá 2007
 
Mælingar NASA virðast sýna að væntingar manna um að mögulegt verði að hefja siglingar yfir pólsvæðið, allavega hluta úr ári, muni líklega rætast innan fárra ára. Slíkt hefur reyndar verið mögulegt sum árin að hausti til, en þar hefur ekki verið á vísan að róa á siglingaleiðinn norðan við Síberíu. Ekki er þó annað að sjá á myndum NASA en að í september hafi verið greið leið um þessar slóðir öll árin frá 2007. Rekin er sérstök upplýsingaþjónusta um ferðir yfir pólinn en hún heitir Northern Sea Rout Information Office.  
 
Rúm hundrað ár eru síðan landkönnuðurinn Roald Amundsen sigldi um norðvesturleiðina yfir pólsvæðið meðfram Kanada. Síða hafa verið farnar að minnsta kosti 184 ferðir yfir pólsvæðið. Sumarið 2012 fór t.d. 21 skip yfir pólsvæðið, þar af 18 einkaskútur, tvö flutningaskip og eitt olíuskip að ótöldum fjölda ísbrjóta. Eitt þessara flutningaskipa var 196 metra langt sem var jafnframt stærsta flutningaskip sem nokkru sinni hafði siglt yfir Norðuríshafið, samkvæmt tölum R.K. Headland hjá Scott Polar Research-stofnuninni hjá Cambridge-háskóla.
 
Mikil aukning á skipaferðum og flutningum
 
Mikil aukning hefur verið á skipaferðum yfir pólsvæðið á liðnum árum. Þannig voru flutt tæplega 1,3 milljónir tonna af fragt á árinu 2012 með 46 skipum. Var það 53% aukning frá 2011. Af þessum 46 skipum fóru 25 norðausturleiðina fyrir norðan Síberíu ýmist frá Murmansk, Arkhangelsk eða Baydaratskaya-flóa. Þá fór 21 skip um norðvesturleiðina samkvæmt upplýsingum sem Rosatomflot sendi Barents Observer hjá alþjóðlegri miðstöð norðurslóðaflutinga „High North Logistics“. 
 
Umfangsmestu flutningarnir yfir pólsvæðið 2012 voru með jarðefnaeldsneyti af ýmsum toga, eða samtals 894.079 tonn árið 2012. Alls var þetta flutt með 26 skipum. Af þeim fóru 18 skip frá austri til vesturs, en 8 í öfuga átt yfir pólinn. Stærsta skipið var norska olíuskipið Marika sem sigldi með 66.552 tonn af þotueldsneyti frá Kóreu til Finnlands í ágúst 2012. Næststærsta skipið flutti járngrýti og kol og fór það sex ferðir þetta haust. Til að aðstoða skipin um norðurslóðir voru m.a. notaðir finnsku ísbrjótarnir Nordica og Fennica sem voru þó aðallega á norðvesturleiðinni. 
 
Fyrsta gasflutningaskipið (LNG)  fór yfir pólsvæðið 2012. Það var tankskipið Ob River sem flutti 66.342 tonn, eða 134.738 rúmmetra, af gasi fyrir Statoil frá Hammerfest í Noregi til Tobata í Japan. Var skipið níu daga á leiðinni frá því það fór um Kara-hliðið svokallaða 9. nóvember og kom að Dezhnev-höfða 18. nóvember. Er nú talað um að Hammerfest geti orðið mikilvæg eldsneytisflutningahöfn fyrir eldsneytisþyrstar þjóðir Asíu í framtíðinni. Sigling þaðan yfir pólinn til Japans sparar um 20 daga í siglingu miðað við suðurleiðina. 
 
Á vefsíðu Northern Sea Rout Information Office 2. febrúar sl. er greint frá því að reiknað sé með að flutningar vaxi stórlega um Norðuríshafið á komandi árum. Þannig er búist við að á árinu 2025 verði árlegir flutningar komnir í 75 milljón tonn um norðausturleiðina. Er þar vitnað í Mikhail Grigoryev sem starfar hjá vísindaráði rússnesku vísindaakademíunnar.
 
Sagði hann að á síðasta ári hafi verið áætlað að flutningarnir færu yfir 7 milljónir tonna á norðvesturleiðinni og yfir 18 milljónir tonna á norðausturleiðinni.  Flutningar milli þessara tveggja leiða hafa verið mjög breytilegir milli ára í takt við hafís. Þannig fóru 73% flutninganna um norðurslóðir á árinu 2015 um norðvesturleiðina, en einungis 43% árið 2016. 
 
Verulegar breytingar á ísþekjunni
 
Í september 1999 var mun meiri ís á norðurslóðum í kjölfar sumarbráðnunar en á síðastliðnu hausti. Ísmyndunin þá um veturinn, eða í mars 2000, var samt töluvert minni en öll árin allt fram til 2005. Mest var hún þó veturinn 2003, þegar vetrarísinn náði niður með ströndum Nýfundnalands. Eftir 2003 tók að draga nokkuð úr ísmynduninni sem var samt nokkuð misjöfn milli svæða. Veturinn 2008 fór vetrarísinn að aukast á nýjan leik og var ísmyndunin mest í mars 2010 og meiri en veturinn 2000, en samt minni en 2003. 
 
Veturinn 2011 var ísmyndunin ekki eins mikil og árið áður og enn dró úr henni um veturinn 2012. Síðan jókst hún verulega á ný árið 2013, sérstaklega á milli Grænlands og Kanada og jókst þar enn veturinn 2014, þó myndun íss hafi minnkað austur af Svalbarða.
 
Veturinn 2015 var ísmynd vestan við Grænland svipuð og árið áður en jókst nokkuð austan við Svalbarða. Nú í mars mælist mun minni ís á hafsvæðinu austan Svalbarða og líka heldur minni við Nýfundnaland miðað við árið á undan. Ísinn er hins vegar meiri við austanverða Síberíu en árið á undan.
 
Gervihnattamælingarnar hófust 1978
 
Ef einungis er horft á stöðu hafíssins í september eftir sumarbráðnunina allar götur síðan 1999, þá virðist hann hafa verið langminnstur haustið 2012. Þá var mun minni ís á norðurhveli jarðar en á síðastliðnu hausti. Það virðist því vera varasamt að alhæfa um að þróunin sé öll í sömu átt, þegar mælingar sýna að miklar sveiflur hafa verið í myndun hafíss allt frá síðustu aldamótum. Samfelldar mælingar NASA frá 1978 sýna þó að meðaltals útbreiðsla íss á norðurslóðum hefur verið að minnka. 
 
Hafísinn á norðurslóðum bráðnar mjög hratt yfir sumartímann og er hann að jafnaði minnstur í septemberlok. Síðan er ísmyndunin mikil yfir veturinn og nær jafnan hámarki í mars. Þetta má greinilega sjá í mælingum NASA. Sveiflur í ísmynduninni hafa staðið í þúsundir ára. Eigi að síður segja vísindamenn NASA að síðustu áratugi hafi sumarísinn verið að minnka að meðaltali frá því sem áður var. 
NASA byrjaði að fylgjast með hafísnum með aðstoð gervihnatta árið 1978. Frá þeim tíma sést að ísinn hefur að meðaltali hörfað, þó sveiflur hafi verið á milli ára. Mælingar sýna einnig að minna er um stöðugan snjó og ís á norðurhveli ár frá ári og meira um ársbundnar sveiflur í snjó- og ísmyndun en áður var. 
 
Samkvæmt útlistun NASA hefur hraði hnignunar íssins aukist það sem af er 21. öldinni. Þannig var septemberísinn haustið 2002 sá minnsti sem sést hafði frá 1979, þó ekki munaði þar verulegu frá árunum á undan. Segir NASA að síðan hafi þróunin að jafnaði verið á sömu braut minnkandi hafíss.
 
Spáð íslausum Norðurpól hluta úr ári fyrir lok aldarinnar
 
Segir þar að minnkun hafíss sé ekki hægt að skýra með náttúrulegum sveiflum eingöngu. Þar spili inn í hlýnun loftslags. Þar hafi sumir sérfræðingar verið að spá því að norðurheimskautið muni verða íslaust að minnsta kosti hluta árs undir lok þessarar aldar. 

24 myndir:

Mikilvægasta rými jarðar
Fréttaskýring 29. mars 2024

Mikilvægasta rými jarðar

Stærsta innlögn nýrra fræsafna í Alþjóðlegu fræhvelfinguna á Svalbarða átti sér ...

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg
Fréttaskýring 8. mars 2024

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg

Vísbendingar eru um að bændur séu líklegri til að þjást af einkennum streitu og ...

Framtíðarlandbúnaður á eftir að stökkbreytast
Fréttaskýring 23. febrúar 2024

Framtíðarlandbúnaður á eftir að stökkbreytast

Á komandi áratugum er líklegt að landbúnaður breytist verulega. Þættir eins og t...

Úrgangsmálin í ólestri
Fréttaskýring 9. febrúar 2024

Úrgangsmálin í ólestri

Í byrjun síðasta árs tóku gildi lög hér á landi þar sem bann er lagt við urðun á...

Bændur telja samningsstöðu sína gagnvart afurðastöðvum veika
Fréttaskýring 30. janúar 2024

Bændur telja samningsstöðu sína gagnvart afurðastöðvum veika

Aðstöðumunur kúabænda vegna mismunandi stuðnings við kvótakaup milli landsvæða h...

Auður, kvóti, mjólk og skuld
Fréttaskýring 26. janúar 2024

Auður, kvóti, mjólk og skuld

Þegar tiltekinn hópur bænda hefur tök á að eignast mjólkurkvóta með því að vera ...

Dýrmæt erfðaefni dreifast víða
Fréttaskýring 13. janúar 2024

Dýrmæt erfðaefni dreifast víða

Eyþór Einarsson, ráðunautur hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML), segir að ...

Ræktunarland verður kortlagt
Fréttaskýring 8. desember 2023

Ræktunarland verður kortlagt

Gert er ráð fyrir að þingsályktunartillaga um nýja landsskipulagsstefnu til 15 á...