Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Heimsframleiðsla mjólkur var 811 milljarðar kílóa árið 2017
Fréttaskýring 16. júlí 2018

Heimsframleiðsla mjólkur var 811 milljarðar kílóa árið 2017

Höfundur: Snorri Sigurðsson

FAO, Matvæla og landbúnaðar­stofnun Sameinuðu þjóðanna, birti fyrr á árinu skýrslu um mjólkurframleiðsluna í heiminum árið 2017, sem og um þróun á sölu mjólkurvara.

Þar kemur m.a. fram að heildarframleiðsla mjólkur árið 2017 endaði í 811 milljörðum kílóa sem er 1,4% aukning frá árinu 2016 en auking á framleiðslu varð í Asíu, Norður-, Mið- og Suður-Ameríku og Evrópu en stóð í stað í Afríku. Framleiðslan í Eyjaálfu dróst hins vegar saman.

1,3% aukning í Evrópu

Heildarframleiðsla landanna í Evrópu nam 224 milljörðum kílóa og var það aukning um 1,3%. Framleiðslan í löndum Evrópusambandsins jókst um 1,5% og endaði í 165 milljörðum kílóa og það þrátt fyrir að mörg kúabú hafi lent í takmörkun á fjölda kúa vegna nýrra umhverfisreglna um fosfórlosun.

Mörg bú fækkuðu kúm en kýrnar bættu vel við sig og það vó upp mögu­legan samdrátt vegna fækkunarinnar. Mjólkurframleiðslan í Rússlandi jókst aftur á móti um 0,8% í kjölfar þess að þar í landi sáu kúabændur hagnað af rekstri sínum í fyrsta skipti í mörg ár. Sú staða ýtti undir auknar fjárfestingar í kúabúskap í Rússlandi og þar sjást einnig skýr merki um verulega aukna fagmennsku í greininni sem skilar sér í aukinni framleiðslu. Alls nam heildarframleiðslan í Rússlandi 31 milljarði kílóa.

46 milljarða kílóa framleiðsla í Afríku

Þrátt fyrir að heildarframleiðsla mjólkur í Afríku hafi staðið í stað á milli ára, þá er þróunin innan álfunnar töluvert breytileg eftir löndum. Alls nam framleiðslan 46 milljörðum kílóa og þau lönd sem leiða framleiðsluna eru Suður-Afríka, Túnis og Alsír og jókst framleiðsla þessara landa umtalsvert. Á móti kemur að samdráttur varð í Súdan, Eþíópíu, Sómalíu og Tanzaníu.

Bandaríkin stórtæk

Sé horft til Norður-Ameríku þá sjá bandarísku kúabændurnir um 90% af framleiðslunni í álfunni og nam heildarframleiðslan í Bandaríkjunum 98 milljörðum kílóa sem er aukning um 1,4% frá fyrra ári.

Áþekk þróun var uppi á teningnum í Kanada, en þar er þó í gildi kvótakerfi sem heldur nokkuð aftur af möguleikum kúabúa á að auka framleiðslu sína en ríkisstjórnin jók kvótana svo kanadísku kúabúin gátu bætt við framleiðsluna á árinu. Mexíkó er stærsta mjólkur­framleiðsluland Mið-Ameríku og nam framleiðsla landsins 18 milljörðum kílóa sem er aukning um 1,1% frá árinu 2016.

 

Mest aukning í Suður-Ameríku

Árið 2017 var sérlega hagstætt fyrir mjólkurframleiðslu í Suður-Ameríku og jókst framleiðslan þar um 2,9% og nam hún alls 62 milljörðum kílóa og var aukningin borin uppi af Brasilíu með 35 milljarða kílóa en bæði Kólómbía og Perú eru einnig nokkuð stórtæk í mjólkur­framleiðslu. Í Úrúgvæ var fram­leiðslan stöðug, en á sama tíma varð örlítill samdráttur í Argentínu en árið byrjaði afar illa þar en endaði vel og hefur framleiðsla landsins á þessu ári tekið vel við sér. Það er því búist við framleiðsluaukningu í Argentínu á þessu ári.

Samdráttur í Ástralíu og Nýja-Sjálandi

Sé horft til Eyjaálfu var eins og áður segir samdráttur og nam heildarframleiðslan 31 milljarði kílóa sem var 2,9% minni framleiðsla en árið 2016. Skýringin á samdrættinum felst fyrst og fremst í áhrifum þurrka á sprettu en bæði Ástralía og Nýja-Sjáland byggja stærstan hluta framleiðslu sinnar á beit árið um kring.

Uppgangur í Indlandi

Í Asíu varð í heildina 1,9% aukning á framleiðslu mjólkur og var sú aukning að mestu borin uppi af kúabúum í Indlandi sem er í dag stærsta mjólkurframleiðsluland í heimi en ársframleiðslan þar nam 167 milljörðum kílóa á síðasta ári og var það aukning um heil 3,9%! Þá voru kúabúin í Pakistan einnig afar öflug og jókst framleiðslan þar um 1,3% og endaði í 40 milljörðum kílóa.

Í Kína var samdráttur í framleiðslunni annað árið í röð en skýringin felst í miklum breytingum sem þar eru að verða á framleiðsluháttum en stórbúum er að fjölga töluvert en einyrkjar með 1-2 kýr hætta unnvörpum. Þrátt fyrir fjölgun stóru búanna og mun meiri mjólkur­framleiðslu frá hverri kú gátu búin ekki fyllt upp í skarðið sem litlu búin skildu eftir. Í heildina nam framleiðslan í Kína 41 milljarði kílóa og dróst hún saman um 1,6% frá fyrra ári.

Fá en umsvifamikil útflutningssvæði

Margir hafa heyrt um leiðandi stöðu Nýja-Sjálands á heimsmörkuðum mjólkurvara en landið var þó ekki með nema 21 milljarða kílóa framleiðslu eða sem svarar til 2,6% af heimsframleiðslunni.

Skýringin á sterkum áhrifum þessa litla magns felast í því að flest lönd selja mjólkina á sínum heimamörkuðum og því er tiltölulega lítið magn sem er á heimsmarkaðinum eða ekki nema 72 milljarðar kílóa af framangreindum 811 milljörðum kílóa eða um 8,9%. 

Á þessum millilandamarkaði er hinsvegar þorri mjólkurinnar frá Nýja-Sjálandi eða um 19 milljarðar kílóa, sem skýrir sterka stöðu. Auk þess er framleiðslukostnaður mjólkur í landinu afar lágur sem gerir landið samkeppnishæft þrátt fyrir að flytja mjólkurvörur um langan veg.

Umsvifamesta svæðið á millríkjamarkaði er þó Evrópu­sambandið en lönd þess standa á bak við 28% af útfluttum mjólkurvörum.

Bandaríkin verma svo þriðja sætið þegar horft er til útflutnings mjólkurvara með 13,9% af heildarviðskiptunum.

Þessi þrjú svæði, þ.e. Evrópu­sambandið, Nýja-Sjáland og Bandaríkin standa saman undir 69% af heimsviðskiptum mjólkurvara.

Milliríkjaviðskipti jukust

Löndin sem svo flytja inn mjólkurvörur eru auðvitað mörg en innflutningur mjólkurvara jókst um 1,7% á árinu 2017. Segja má að mjólkurvörur fari hreinlega út um allt og fram og til baka en það eru nokkur lönd sem báru uppi vöxtinn í heimsmarkaðsviðskiptunum árið 2017 og það voru Kína, Japan, Sameinuðu arabísku furstadæmin og Mexíkó. Kína ber af þegar horft er til þess magns sem flutt var inn en alls nam innflutningurinn 13,3 milljörðum kílóa og jókst á milli ára um 10,6%. Mesta aukningin varð þó í Sameinuðu arabísku furstadæmunum en þar jókst innflutningurinn um 17,6% á milli ára og endaði í 2,5 milljörðum kílóa.

Vinnsluduft vinsælt

Sé horft til einstakra mjólkurvara þá eru viðskipti með sérstakar vörur umsvifamestar, þ.e. vörur sem byggja á vörumerkjum og uppruna. Þegar horft er til iðnaðarvaranna, þ.e. hráefnis til áframhaldandi vinnslu og pökkunar var duftið vinsælast í viðskiptum á síðasta ári líkt og undanfarin ár.

Alls voru flutt inn, umreiknað í lítra mjólkur, 4,6 milljarðar kílóa af undanrennu- og mjólkurdufti. Þá nam innflutningur á vinnsluostum, umreiknað í mjólkurlítra, 2,4 milljörðum kílóa en vinnslusmjör rak lestina en umreiknað í mjólkurlítra svaraði innflutningur landa heimsins til þess að 829 milljónir lítra væru þar á ferð.

Verulegar hækkanir árið 2017

Árið 2017 bar með sér verulega hækkun á meðalverði í milliríkja­viðskiptum með mjólkurvörur og hækkaði verðið um 31% frá árinu 2016.

Á fyrri hluta ársins var verðlagið nokkuð stöðugt en tók svo stökk upp á við þegar leið á síðari hlutann og var skýringin fólgin í mikilli innflutningsþörf í Asíu sem ýtti verðinu upp á við. Frá hausti og fram til áramóta var verðið nokkuð stöðugt og hefur raunar ekki breyst mikið síðan þá.

Horft til einstakra vinnsluvara þá hækkaði smjörið hreint ótrúlega mikið á árinu, eða um 66%, en skýringin felst m.a. í minna framboði á smjöri þar sem neyslubreyting hefur orðið í flestum löndum og smjör meira notað í framleiðslulöndum mjólkurinnar en áður. Þá hækkaði mjólkurduft um 29%, vinnsluostar um 24% en undanrennuduftið stóð nokkuð í stað frá fyrra ári.

Byggt að mestu á skýrslu FAO: „Dairy Market Review, April 201. FAO. Rome.“

Skylt efni: FAO | Mjólk

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg
Fréttaskýring 8. mars 2024

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg

Vísbendingar eru um að bændur séu líklegri til að þjást af einkennum streitu og ...

Framtíðarlandbúnaður á eftir að stökkbreytast
Fréttaskýring 23. febrúar 2024

Framtíðarlandbúnaður á eftir að stökkbreytast

Á komandi áratugum er líklegt að landbúnaður breytist verulega. Þættir eins og t...

Úrgangsmálin í ólestri
Fréttaskýring 9. febrúar 2024

Úrgangsmálin í ólestri

Í byrjun síðasta árs tóku gildi lög hér á landi þar sem bann er lagt við urðun á...

Bændur telja samningsstöðu sína gagnvart afurðastöðvum veika
Fréttaskýring 30. janúar 2024

Bændur telja samningsstöðu sína gagnvart afurðastöðvum veika

Aðstöðumunur kúabænda vegna mismunandi stuðnings við kvótakaup milli landsvæða h...

Auður, kvóti, mjólk og skuld
Fréttaskýring 26. janúar 2024

Auður, kvóti, mjólk og skuld

Þegar tiltekinn hópur bænda hefur tök á að eignast mjólkurkvóta með því að vera ...

Dýrmæt erfðaefni dreifast víða
Fréttaskýring 13. janúar 2024

Dýrmæt erfðaefni dreifast víða

Eyþór Einarsson, ráðunautur hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML), segir að ...

Ræktunarland verður kortlagt
Fréttaskýring 8. desember 2023

Ræktunarland verður kortlagt

Gert er ráð fyrir að þingsályktunartillaga um nýja landsskipulagsstefnu til 15 á...

Mikilvægi sjálfsaflahlutfalls
Fréttaskýring 17. nóvember 2023

Mikilvægi sjálfsaflahlutfalls

Hugtakið „fæðuöryggi“ hefur verið mikið til umræðu undanfarin misseri. Ef litið ...