Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Neskaupstaður var með mestan landan afla íslenskra hafna á síðasta ári, eða 182 þúsund tonn. Hér er Börkur NK við bryggju á Neskaupstað. Mynd / HKr.
Neskaupstaður var með mestan landan afla íslenskra hafna á síðasta ári, eða 182 þúsund tonn. Hér er Börkur NK við bryggju á Neskaupstað. Mynd / HKr.
Fréttaskýring 24. september 2018

Austurland fær tæpan helming aflans

Höfundur: Kjartan Stefánsson

Um 60 hafnir á landinu tóku á móti sjávarafla á síðasta ári en misjafnt er hvað mikið kom á land hjá einstökum bæjarfélögum og landsvæðum. Höfnin í Neskaupstað tók á móti mestum afla og Austurland trónir á toppnum sé litið á landsvæði.

Höfnin er lífæð margra bæjarfélaga vítt og breitt um landið og segja má að höfnin hafi jafnframt verið lífæð þjóðarinnar, einkum á síðustu öld, eftir að sjávarútvegur varð megin atvinnuvegur Íslands.
Hafnirnar gegna margþættu hlutverki. Í fyrsta lagi eru þær miðstöðvar vöruflutninga, í öðru lagi löndunarhafnir fyrir sjávarfang hvers konar og þriðja hlutverkið er ferðaþjónusta og farþega- og skemmtisiglingar. Hér á eftir verður sjónum að sjálfsögðu beint að því hlutverki hafnanna að taka á móti sjávarafla.

1,2 milljónir tonna

Árið 2017 var afli íslenskra skipa tæplega 1.177 þúsund tonn, 109 þúsund tonnum meiri en árið 2016, samkvæmt nýlegum tölum á vef Hagstofunnar. Aflaverðmæti var um 110 milljarðar króna og dróst saman um 17,3% frá fyrra ári. Íslenskar hafnir tóku á móti öllum þessum afla fyrir utan tæp 15 þúsund tonn sem landað var erlendis.

Alls veiddust tæplega 426 þúsund tonn af botnfiski árið 2017. Líkt og fyrri ár veiddist mest magn af uppsjávartegundum, rúmlega 718 þúsund tonn. Tæp 22 þúsund tonn af flatfiski veiddust árið 2017 sem er 8,4% samdráttur frá fyrra ári. Af skel- og krabbadýrum fengust 10,6 þúsund tonn sem er 15,5% samdráttur frá árinu 2016.

Neskaupstaður stærsta löndunarhöfnin

Þessum tæpu 1,2 milljónum tonna sem íslensk skip komu með að landi er mjög misskipt á milli hafna og landsvæða. Alls var afla landað í um 60 höfnum hringinn í kringum landið. Mestum afla var landað í Neskaupstað, eða um 182 þúsund tonnum, og munar þar mestu um uppsjávarfiskinn; síld, loðnu, makríl og kolmunna. Vestmannaeyjar koma þar á eftir með 164 þúsund tonn og Vopnafjörður er í þriðja sæti með 102 þúsund tonn. Tíu stærstu hafnirnar tóku á móti um 857 þúsund tonnum, eða um 73% af heildinni.

Þegar horft er á aflaverðmæti breytist röðin og Reykjavík lendir í fyrsta sæti. Þar komu á land um 85 þúsund tonn að aflaverðmæti tæpir 16 mill­jarðar króna. Vestmannaeyjar eru í öðru sæti með rúma 10 milljarða og Neskaustaður er í því þriðja með um 8,6 milljarða. Tíu stærtu hafnir eru með tæp 60% verðmætanna.

Í tölunum hér að ofan er miðað við afla íslenskra skipa. Til viðbótar lönduðu nokkur erlend skip afla til vinnslu hér á landi, aðallega loðnu og kolmunna, sem var góð búbót fyrir þá staði sem hlut eiga að máli.

Austurland með tæpan helming

Eins og fram kemur hér að framan er uppsjávarfiskur fyrirferðamestur í löndunartölum á síðasta ári, eða 718 þúsund tonn. Flest uppsjávarfrystihús og fiskimjölsverksmiðjur landsins eru fyrir austan og því kemur ekki á óvart að Austurland, þ.e. frá Vopnafirði að Höfn í Hornafirði, sé það landsvæði þar sem mestum afla var landað. Þar komu á land um 559 þúsund tonn að verðmæti 26,5 milljarðar. Austurland er þannig með tæpan helming af lönduðum afla í magni en þó ekki með nema tæpan fjórðung í verðmætum enda er verð á uppsjávarfiski mun lægra að meðaltali en verð á botnfiski.

Suðurland er í öðru sæti með 177 þúsund tonn og 12,6 milljarða í verðmæti og Höfðuðborgarsvæðið er með 104 þúsund tonn og 19 milljarða. Önnur landsvæði eru með frá um 53 þúsund tonnum upp í tæp 80 þúsund tonn.

Val á löndunarhöfn

Val skipa á löndunarhöfn ræðst af mörgum þáttum, svo sem staðsetningu hafna, fisktegund veiðisvæðum, vinnslustöðvum, fiskmörkuðum og síðast en ekki síst eignarhaldi sjávarútvegsfyrirtækja. Ef útgerð og fiskvinnsla eru á sömu hendi er leitast við að landa botnfiskafla þar sem vinnslan fer fram ef þess er kostur. Algengt er þó að aflanum sé landað í höfn sem er nálægt miðunum hverju sinni. Þá er fiskurinn fluttur landleiðina til vinnslustaðar, oft landshorna á milli. Þeir sem landa fiski á fiskmarkað geta alla jafna siglt stystu leið í höfn og sá fiskur fer sömuleiðis oftast á landshornaflakk. Þá er sjófrystum afla landað þar sem góðar frystigeymslur eru til staðar.

Öðru máli gegnir um uppsjávarfiskinn varðandi sveigjanleika í löndun. Hann er nær undantekningarlaust unninn á löndunarstað enda hentar hann ekki til landflutninga. Makríll af handfærabátum er þó fluttur ísaður í körum milli staða. Með örfáum undantekningum eru uppsjávarskipin að öllu leyti í eigu útgerða sem reka vinnslustöðvar í landi og það hefur auðvitað afgerandi áhrif á val á löndunarstað.

Sigló þriðja hæsta löndunarhöfnin fyrir þorsk

Svona rétt í lokin skal hér tekið dæmi um það hvernig kaupin geta gerst á eyrinni varðandi löndun. Á Siglufirði er sáralítil vinnsla á þorski en þar í bæ er þó ein stærsta löndunarhöfn landsins á þorski. Með vaxandi fiskgengd fyrir norðan land hafa sumar útgerðir, einkum sunnan lands og vestan, sent skip sín hluta úr ári til veiða fyrir norðan. Siglufjörður er miðsvæðis og þar er rekin öflugur fiskmarkaður og góð þjónusta við skip er til staðar. Stærri línuskip og smábátar, og reyndar fleiri gerðir skipa, landa því afla sínum iðulega á Siglufirði. Er fiskinum þá annaðhvort ekið beint til fiskvinnslu í eigu útgerðarinnar annars staðar á landinu, eða boðinn upp á markaði og síðan ekið til kaupenda sem gjarnan eru á suðvesturhorni landsins.

Þannig bárust á land á Siglufirði um 16.300 tonn af þorski á síðasta ári að verðmæti rúmir 3,2 milljarðar. Er Siglufjörður þriðji stærsti löndunarstaðurinn fyrir þorsk. Þess má einnig geta að í heild var landað um 22.300 tonnum á Siglufirði að verðmæti um 4,5 milljarða króna. Er Sigló því fimmta hæsta löndarhöfn landsins í verðmætum talið.

Þetta dæmi sýnir að staðsetning hafna og þjónusta í landi getur haft afgerandi áhrif hvar fiski er landað. 

Skylt efni: afli | löndunarhafnir

Mikilvægasta rými jarðar
Fréttaskýring 29. mars 2024

Mikilvægasta rými jarðar

Stærsta innlögn nýrra fræsafna í Alþjóðlegu fræhvelfinguna á Svalbarða átti sér ...

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg
Fréttaskýring 8. mars 2024

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg

Vísbendingar eru um að bændur séu líklegri til að þjást af einkennum streitu og ...

Framtíðarlandbúnaður á eftir að stökkbreytast
Fréttaskýring 23. febrúar 2024

Framtíðarlandbúnaður á eftir að stökkbreytast

Á komandi áratugum er líklegt að landbúnaður breytist verulega. Þættir eins og t...

Úrgangsmálin í ólestri
Fréttaskýring 9. febrúar 2024

Úrgangsmálin í ólestri

Í byrjun síðasta árs tóku gildi lög hér á landi þar sem bann er lagt við urðun á...

Bændur telja samningsstöðu sína gagnvart afurðastöðvum veika
Fréttaskýring 30. janúar 2024

Bændur telja samningsstöðu sína gagnvart afurðastöðvum veika

Aðstöðumunur kúabænda vegna mismunandi stuðnings við kvótakaup milli landsvæða h...

Auður, kvóti, mjólk og skuld
Fréttaskýring 26. janúar 2024

Auður, kvóti, mjólk og skuld

Þegar tiltekinn hópur bænda hefur tök á að eignast mjólkurkvóta með því að vera ...

Dýrmæt erfðaefni dreifast víða
Fréttaskýring 13. janúar 2024

Dýrmæt erfðaefni dreifast víða

Eyþór Einarsson, ráðunautur hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML), segir að ...

Ræktunarland verður kortlagt
Fréttaskýring 8. desember 2023

Ræktunarland verður kortlagt

Gert er ráð fyrir að þingsályktunartillaga um nýja landsskipulagsstefnu til 15 á...