Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Þóra Valsdóttir hjá Matís kynnti sjávarþörunga á matarmarkaið Búrsins og hvernig hægt er að nota þá til matargerðar.
Þóra Valsdóttir hjá Matís kynnti sjávarþörunga á matarmarkaið Búrsins og hvernig hægt er að nota þá til matargerðar.
Mynd / Vilmundur Hansen
Á faglegum nótum 2. október 2014

Þorir þú að smakka?

Höfundur: Þóra Valsdóttir

Þörungar eru fullir af stein­efnum, vítamínum og öðrum heilsusamlegum næringarefnum sem gerir þá næringarlega að góðri viðbót við allan mat.

Þrátt fyrir gífurlegt magn þeirra, rétt innan seilingar, þá eru þörungar vannýtt hráefni – en það á eftir að breytast, segja fróðir menn. Þörungar gera allan mat áhugaverðari.

Þegar talað er um sjávarþörunga í tengslum við mat er átt við botnþörunga því aðrir sjávarþörungar eru smásæir, svokallaðir svif­þörungar. Botnþörungar vaxa meðfram ströndum okkar. Þeir teygja sig upp, niður og þversum og safna í sig sjávarsöltum og steinefnum. Þeir gefa fiskum, skeldýrum og öðrum sjávarlífverum líf og vernd en hafa átt takmarkaðan sess í mataræði okkar. Við Íslandsstrendur er talið að séu um 200 tegundir botnþörunga, þar af rúmlega 20 ætar. Þeir eru mjög ólíkir innbyrðis, stórir, smáir, grænir, rauðir, brúnir, gulir, þunnir, þykkir, mismunandi að bragði og áferð og henta því til mismunandi notkunar.

Þörungar – matur í neyð eða súperfæða?

Á Norðurlöndunum hefur verið litið á þörunga sem dýrafóður, áburð og í neyðartilfellum sem mat fyrir fátækt fólk. Þessi tengsl þörunga við fátækt og eymd skýra að hluta af hverju þessi sérstaki matur hefur ekki fengið verðskuldaða viðurkenningu. Það eru að sjálfsögðu undantekningar á þessu, hér á Íslandi hefur hefðin að borða söl sem viðbit haldist fram á þennan dag og Grænlendingar nýta marínkjarna og beltisþara. Að öðru leyti eru þörungar að mestu leyti nýttir til að draga úr þeim hjálparefni í matvæli s.s. hleypiefni eða aðra iðnaðarframleiðslu. Langmest af þörungum er neytt í Asíu, einkum Japan, Kína og Suður-Kóreu. Á Vesturlöndum er áhugi hins vegar að aukast á þörungum samhliða auknum vinsældum sushi.

Þörungar í matseld

Margir spá því að í náinni framtíð verði botnþörungar hversdagsmatur á Norðurlöndunum. Þá má nota á margvíslegan hátt til að auka næringargildi matar samhliða því að styðja við baráttu Vesturlanda gegn ofþyngd sem og afleiðingu vannæringar þar sem hana er að finna.

Botnþörungar eru mjög trefjaríkir og því erfiðara að melta þá en mörg önnur matvæli, það getur því tekið tíma fyrir fólk að venjast því að borða þá í meira magni. Þá líkar mörgum ekki hið framandi bragð eða að tyggja stóra, seiga bita af þörungum. Smá útsjónarsemi þarf því við framreiðslu þeirra, t.d. með því að skera þá smátt eða framreiða þá stökka. Þörunga má matreiða á fjölbreyttan máta. Gott er að blanda þörungum í smoothie eða steikja þá lítillega með sesamfræjum auk þess sem gott getur verið að mala þá og sáldra síðan yfir ýmsa rétti. Bóluþang er frábært snakk eftir smá tíma í ofni með örlítilli olíu. Það má steikja kjúkling í eldföstu móti með smá þörungum í vatninu, til að gefa bragð. Í eftirréttum með sýrðum rjóma er hægt að nota sumar tegundir þörunga sem hleypiefni s.s. marínkjarna. Stórþari er leyndarmálið í baunaréttum, dregur úr vindgangi. Þörunga má einnig nota sem bragðauka í súpur og salöt, þurrkaða og skorna í smá bita. Þá er gott að setja þörunga í brauð, til dæmis söl. Það er því bara spurning um að prófa sig áfram. Fara sjálf að safna þörungum eða kaupa úti í næstu verslun. Vöruúrvalið er sífellt að verða betra og uppskriftir má finna í matreiðslubókum eða á netinu.

Eins og með önnur matvæli þá er meðalhófið best. Það er mikilvægt að tryggja að þörungar séu skornir upp á hreinum svæðum og sumar tegundir af þörungum eru það ríkar af joði að eingöngu örlítið magn þarf af þeim til að fara yfir ráðlagða neyslu. Með það á bak við eyrað, eru þörungar frábært hráefni til að gera mataræði okkar heilsusamlegra.
 
Heilsusamleg viðbót við norræna eldhúsið

Ný norræn matvæli, sem er verkefni á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar, hefur lagt áherslu á nýtingarmöguleika þörunga, einkum sem heilsusamleg viðbót við norræna eldhúsið. Nú í haust verða viðburðir á öllum Norðurlöndunum þar sem þemað er sjávarþörungar sem hollur og bragðgóður matur. Markmiðið er að kynna hráefnið og hvetja almenning til að nýta þörunga til matar.

Á Matarmarkaði Búrsins helgina 30.–31. ágúst var haldin sérstök kynning og sala á matþörungum. Það kom mörgum bersýnilega á óvart hversu bragðgóðar sumar tegundirnar eru og hvað er hægt að nýta þörunga á fjölbreytilegan hátt í mat. Ýtið því öllum fordómum til hliðar, prófið og þeir munu koma þér skemmtilega á óvart.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...