Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Lerkibarrfellir. Sveppurinn fannst hér fyrst í sýnum frá Haukadal í Biskupstungum um mitt sumar 1999 og síðan þá hefur fundarstöðum fjölgað.
Lerkibarrfellir. Sveppurinn fannst hér fyrst í sýnum frá Haukadal í Biskupstungum um mitt sumar 1999 og síðan þá hefur fundarstöðum fjölgað.
Mynd / Halldór Sverrisson
Á faglegum nótum 25. nóvember 2022

Sjúkdómar í trjáplöntum

Höfundur: Vilmundur Hansen

Pöddur, sjúkdómar og sveppir eru yfirleitt óvelkomnir gestir í garð- og skógrækt sem flestir vildu vera lausir við. Staðreyndin er aftur á móti sú að með hlýnandi loftslagi mun óværum af þessu tagi fjölga hér á landi á næstu árum og áratugum. Þetta var umræðuefnið á haustþingi Garðyrkjuskólans á Reykjum í Ölfusi sem haldið var fyrir skömmu.

Halldór Sverrisson plöntusjúkdómafræðingur.
Mynd / Einkasafn

Á þinginu fjallaði Halldór Sverrisson plöntusjúkdómafræðingur um sveppasjúkdóma í trjám og runnum, Brynja Hrafnkelsdóttir, skordýrafræðingur á rannsóknasviði Skógræktarinnar, ræddi um meindýr í skógrækt og garðrækt. Að lokum var Bryndís Björk Reynisdóttir, garðyrkjufræðingur hjá Fjölbrautaskóla Suðurlands, með erindi um plöntuvarnarefni og aðrar varnir gegn meindýrum og sjúkdómum.

Í næstu tölublöðum Bænda­blaðsins verður fjallað um hvert og eitt umfjöllunarefni málþingsins fyrir sig. Að þessu sinni er umfjöllunin sjúkdómar í trjágróðri, næst meindýr í skógrækt og görðum og að lokum um plöntuvarnarefni og aðrar varnir gegn meindýrum og sjúkdómum.

Sjúkdómar fáir enn sem komið er

Í tölu Halldórs Sverrissonar plöntusjúkdómafræðings kom fram að sjúkdómar á trjágróðri hér á landi eru fáir og fremur meinlitlir og að enn sem komið er stafi þeir allir af sveppum. Sem dæmi sagði Halldór að fúasveppir sem legðust á lifandi tré væru nánast óþekktir hér á landi en hann sagði einnig að sjúkdómunum hafi fjölgað verulega.

Sjúkdómar í barrtrjám

Í erindi sínu fór Halldór yfir helstu sjúkdóma sem er að finna í barr­ og lauftrjám hér á landi og sagði að búast mætti við að þeir yrðu algengari á næstu árum.

Alvarlegasti sjúkdómurinn sem leggst á grenitegundir hér er greniryð, Chrysomyxa abietis. Sjúkdómurinn leggst hér nær eingöngu á rauðgreni. Ryðið fannst fyrst sumarið 1999 á Vesturlandi en virðist hafa verið a.m.k. tveimur árum fyrr í Leirárreit. Nálar ársprotans verða gulleitar á haustin og ryðið brýst út úr þeim næsta sumar og sýkir þá nýja sprota ef veður er nægilega rakt.

Brum­ og greinaþurrkssveppur, Gremmeniella, er sjúkdómur sem hefur lagst mest á broddfuru hér en lítið á stafafuru og skógarfuru og virðast strandkvæmi af íslenskri stafafuru hafa töluverða mótstöðu gegn sveppnum. Sjúkdómurinn sem hann veldur kallast greinaþurrksýki og veldur sýkingum á ýmsum furutegundum á Norðurlöndunum og í Evrópu og hefur auk þess borist til Norður­Ameríku og Japans. Einkenni þessarar sveppasýkingar eru þau að nálar verða fyrst brúnar við blaðfestuna en visna alveg síðar. Sveppurinn kemst inn í tréð um sár á berki og vex síðan eftir berkinum og drepur hann og síðar einnig greinar og kemst stundum alla leið inn í stofninn þar sem átusár myndast.

Lerkibarrfellisveppur, Meria laricis, er þekktur sjúkdómsvaldur erlendis en fyrst og fremst á ungplöntum í uppeldi þar sem hann veldur miklum afföllum. Sveppurinn sem sýkinni veldur fer inn um loftaugu nálarinnar, vex í nálinni og myndar síðan búnt af skautfrumum út um loftaugun þar sem hrúga af gróum myndast. Það er framendi nálarinnar sem fyrst visnar og verður brúnn, en skemmdirnar færast síðan inn eftir nálinni. Þegar sveppurinn hefur lagt undir sig alla nálina fellur hún af en sé innsti hluti hennar ósýktur lafir hún á. Nálar eru því að smá falla af trjánum fram eftir sumri. Nálar á sprotaendum sleppa hins vegar yfirleitt nema ef votviðri helst nokkuð samfellt lengi sumars. Sveppurinn lifir af veturinn í sýktum nálum, sérstaklega þeim sem hanga á trénu yfir veturinn, og gró frá þeim sýkja nálar á nýjan leik næsta vor og síðan koll af kolli. Lerkibarrfellisveppurinn fannst hér fyrst í sýnum frá Haukadal í Biskupstungum um mitt sumar 1999 og síðan þá hefur fundarstöðum fjölgað.

Barrviðaráta getur lagst á margar tegundir barrtrjáa. Á myndinni má sjá hana á lerki.

Barrviðaráta, Phacidium coniferarum, er átusveppur sem fyrst var greindur hér árið 1969. Sjúkdómurinn hefur einnig verið nefndur douglas­áta og herjar á margar tegundir barrtrjáa. Einkenni eru oft aðeins þau að einstakar greinar visna um mitt sumar, jafnvel stundum aðeins ársprotinn. Í öðrum tilvikum étur sveppurinn sig inn í stofn trésins, annaðhvort frá hliðargrein eða frá toppi. Í slæmum tilvikum deyr allur efri hluti sýktra trjáa. Oft stöðvast átan þó áður en stórvægilegar skemmdir verða, tréð nær yfirhöndinni og sveppurinn deyr í sárinu. Barksár á stofni geta stundum verið lengi að lokast og leiðir það til þess að dældir koma í stofninn og rýra nýtingargildi hans.

Gróhirslur lerkiátu. Líklegt er að lerkiáta sé meginorsök dauða lerkilunda með síberíukvæmum á Suður- og Vesturlandi. Myndir / Halldór Sverrisson

Lerkiátusveppur, Lachnellula willkommii, er vel þekktur sjúkdómsvaldur á lerki í Evrópu, Asíu og Norður­Ameríku. Sveppi af ættkvíslinni Lachnellula er hér víða að finna á dauðum og lifandi lerkiviði. Ýmsir telja að hér sé um mismunandi afbrigði lerkiátu að ræða, annars vegar sníkjuafbrigði sem lifir í berki lifandi greina og stofna, hins vegar meinlaust rotafbrigði sem leggst á dauðar greinar. Aðrir telja að um tvær tegundir sé að ræða. Sveppaldin lerkiátu eru skál­ eða skífulaga, appelsínurauð með hvítu kögri í kring, 1 til 6 millimetrar í þvermál, og verða áberandi í votviðri. Í Danmörku og víðar hefur þessi sjúkdómur nánast komið í veg fyrir ræktun evrópulerkis og líklegt má telja að lerkiáta sé meginorsök dauða lerkilunda með síberíukvæmum á Suður­ og Vesturlandi.

Þináta. Tjón af völdum þinátu er vaxandi hér á landi.

Þinátusveppur, Phacidium balsamicola, er vel þekktur sjúkdómsvaldur á fjallaþini og balsamþini í Norður­Ameríku. Um er að ræða barkarsjúkdóm þar sem sveppurinn drepur börkinn og vaxtarlagið en fer ekki inn í viðinn. Sveppurinn getur drepið smágrein og vaxið út frá henni inn í stofn trésins og drepið börkinn og vaxtarlagið á bletti kringum hana g myndað átusár. Stærð sársins fer eftir því hversu mikið sveppurinn vex meðan tréð er í vetrardvala og ná sárin sjaldnast hringinn í kringum stofninn. Gróhirslur sveppsins, sem hérlendis hefur aðeins fundist á vankynja stigi sínu, eru litlar svartar bólur um 0,3 til 0,5 millimetrar í þvermál. Gróhirslurnar eru nokkurra hólfa og með þykkan vegg að ofanverðu, myndast í berkinum og lyfta honum upp og brjótast upp á yfirborðið er þær ná þroska. Svo virðist sem tjón af völdum þinátu sé vaxandi hér á landi.

Sjúkdómar í lauftrjám

Í máli Halldórs kom fram að birki hafi vaxið á Íslandi frá lokum ísaldar og á þeim tíma safnað á sig mörgum tegundum skaðvalda, en einnig haft tíma til að aðlagast þeim að einhverju leyti en að á sama tíma sé það viðkvæmt fyrir nýjum óværum sem eru að berast til landsins og leggist á það.

Nornavendir, Taphrina betulina, orsakast af asksvepp sem lifir í sprotum og brumum birkitrjáa og veldur því að fjöldi smásprota myndast. Mynd/VH

Nornavendir, Taphrina betulina, orsakast af asksvepp sem lifir í sprotum og brumum birkitrjáa og veldur því að fjöldi smásprota myndast. Á nokkrum árum myndast greinavöndur, svonefndur nornavöndur. Blöð á sýktum sprotum eru ljós og oft krumpuð, en neðan á þeim myndast gró sveppsins, askgró. Mest ber á nornavöndum á gömlum trjám og þá einkum að vetrinum. Sjúkdómurinn er tiltölulega meinlaus fyrir trén og breiðist lítið út. Ung tré geta þó liðið meira fyrir þennan sjúkdóm en þau eldri. Oft visna sýkt blöð, og kal er algengt í sýktum sprotum. Nornavöndur að sumri eru ekki það vandamál að þeir réttlæti dýrar aðgerðir. Á litlum trjám er hægt að klippa þá af, og það er einmitt á litlum trjám sem þeir gera mestan skaða.

Á birki hér á landi leggst ein tegund ryðsvepps, Melampsoridium betulinum. Sveppurinn er útbreiddur á norðurhveli og olli verulegu tjóni í gróðrarstöðvum þegar uppeldið var á beðum og dregur úr vexti birkiskóga.

Reklasveppur, Taphrina amentorum, er algengur sjúkdómur á reklum gráelris. Einkenni hans eru króklaga útvöxtur úr fræreklunun og mest af fræinu verður ónýtt. Að öðru leyti virðist sveppurinn ekki skaða tréð. Blaðvisnusveppur, T. tosquinetii, hefur fundist hér á rauðöl og erlendis á fleiri elritegundum. Einkenni sýkingar eru að blöð visna og verpast, en sveppurinn getur einnig lagst á árssprota. Börkurinn verður þá þykkur og hrukkóttur og brum springa seint út og blöðin verða rauðleit og krumpuð. Sveppur þessi virðist sjaldgæfur hér enn sem komið er.

Phytophthora alni er alvarlegur rótarsjúkdómur á elritegundum. Á Bretlandseyjum er álitið að 20% elritrjáa séu sýkt af þessum þörungasvepp. Hann hefur enn ekki greinst hér en þar sem innflutningur á elri er ekki bannaður er mikil hætta á ferðum. Banna þyrfti innflutning á elritrjám til landsins.

Víðiryð, Melampsora epitea, er algengt á grávíði og loðvíði og sést oft á brekkuvíði og leggst einnig á viðju, hreggstaðavíði og selju. Líklega þarfnast þessi ryðsveppur ekki millihýsla til þess að lifa af og fjölga sér, en önnur gróstig hans hafa þó fundist á steinbrjótstegundum. Sumargró og sveppþræðir lifa því venjulega í brumum víðisins yfir veturinn og smita ný blöð sumarið eftir.

Guláta, Godronia fuliginosa, orsakast af asksvepp sem er auðþekktur á því, að hann myndar rauðgula, skífulaga bletti á berki en í miðri skífunni er svartur blettur sem inniheldur gróhirslur sveppsins. Sveppurinn leggst einkum á gulvíði og brekkuvíði þar sem hann vex í berki ungra greina og drepur þær.

Guláta. Sveppur sem leggst einkum á gulvíði og brekkuvíði þar sem hann vex í berki ungra greina og drepur þær.

Tjörublettir, Rhytisma salicinum, eru algengir svartgljáandi og upphleyptir blettir sem sjást á eldri blöðum íslensku víðitegundanna síðsumars. Sveppurinn sem þessu veldur, tjörusveppur, veldur litlum skaða og ástæðulaust að beita neinum varnaraðgerðum gegn honum.

Asparryð, Melampsora laricipopulina, er útbreitt í Evrópu og hefur á síðustu árum gert töluverðan usla í asparækt í Frakklandi og á Niðurlöndum. Hann fannst hér fyrst árið 1999 á Suðurlandi. Lífsferill sveppsins er þannig, að yfir sumarið lifir hann á ösp og myndar þar ryðbletti, en ryðið er í rauninni aragrúi gróa, ryðgró, sem berast með vindi á aðrar aspir og mynda þar enn meira ryð sem síðan dreifir sjúkdómnum enn frekar. Þegar líður að hausti myndast í blöðunum dvalagró sem lifa yfir veturinn í föllnum blöðum. Um vorið spíra dvalagróin og mynda örsmá gró sem einungis geta smitað lerki. Barrnálar lerkisins smitast strax við laufgun á vorin og á þeim myndast stig þar sem byrjun á kynæxlun á sér stað og síðan myndast svonefnd skálagró sem berast yfir á ösp og smita hana. Þræðir sveppsins vaxa síðan í nokkrar vikur inni í blöðum asparinnar og mynda síðan gróflekki eða ryð sem brýst út í gegnum yfirhúðina á neðra borði og lokar smithringnum.

Asparryð. Mestur skaði verður að völdum asparryðs þar sem ösp og lerki vaxa saman.

Asparvendill, Taphrina populina, fannst fyrst hér á landi um 1990. Sveppurinn framkallar gulleitar bólur á laufblöð alaskaaspar síðari hluta sumars en veldur litlum skaða.

Asparvendill. Framkallar gulleitar bólur á laufblöð alaskaaspar síðari hluta sumars. Fannst fyrst hér á landi um 1990. Veldur litlum skaða.

Gróhirslur reyniátu. Einkenni sjúkdómsins eru þau að börkur á greinum dökknar og fellur inn.

Reyniáta, Cytospora rubescens, er átusjúkdómur sem algengur er um allt land, en þó meira áberandi við ströndina en í innsveitum. Einkenni sjúkdómsins eru þau að börkur á greinum dökknar og fellur inn. Síðar myndast í honum flöskulaga gróhirslur, sem þó eru huldar af berkinum að mestu; aðeins efsti hlutinn með munnanum stendur upp úr. Gróin spýtast út í rauðum massa. Algengt er þó að sveppurinn vaxi í langan tíma án þess að mynda gróhirslur eða gró og stundum virðist hann liggja í dvala í berkinum og byrjar þá fyrst að vaxa þegar greinin særist eða hana kelur. Klippingu og sögun verður að vinna að síðvetrar, á vori eða sumri en ekki á haustin þegar tréð er í dvala, því þá á það óhægt um vik að verjast árásum sveppsins.

Hornryð, Gymnosporangium cornutum, víxlar á milli einis, Juniperus sp., og reynis, og er millihýsill með skálagróstigið. Skálagróin og skálarvefurinn mynda útvöxt sem líkist hornum. Ryðgró finnast á eini, en eru lítt áberandi. Hér á landi finnst þetta ryð aðeins þar sem reynir og einir vaxa saman.

Hornryð. Hér á landi finnst þessi sveppur aðeins þar sem reynir og einir vaxa saman.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...