Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Matarbúrið Krónunni Lindum.
Matarbúrið Krónunni Lindum.
Mynd / Arnþór Birkisson.
Á faglegum nótum 4. desember 2020

Samtök smáframleiðenda matvæla eru ársgömul

Höfundur: Oddný Anna Björnsdóttir framkvæmdastjóri SSFM

Þann 5. nóvember síðastliðinn urðu Samtök smáframleiðenda matvæla (SSFM) eins árs. Af því tilefni stakk framkvæmdastjóri þeirra niður penna og fór yfir umgjörð og helstu áherslumál samtakanna á liðnu ári. 

Ekki er hægt að segja annað en að árið hafi verið viðburðaríkt og margt áunnist. Félagsmönnum með fulla aðild hefur fjölgað jafnt og þétt, eru í dag á annað hundrað. Að auki er á fimmta tug með aukaaðild sem er fyrir þá sem styðja markmið samtakanna en eru ekki smáframleiðendur.

Framkvæmdastjórinn er eini starfsmaðurinn, en fjölbreytt stjórn veitir honum ráð og stuðning og beitir sér eftir þörfum. Að auki eru samtökin með ráðgjafaráð sem einstaklingar með reynslu og þekkingu á sviði samtakanna sitja í sem bæði eflir þau og styrkir. Það gerir einnig aðild þeirra að Samtökum iðnaðarins. Í gegnum hana eru félagsmenn sjálfkrafa með aðild og hafa þannig aðgang að þeirri þjónustu sem þau veita sínum félagsmönnum.

Við viljum nota tækifærið og þakka bakhjörlum okkar, Matarauði Íslands og Landbúnaðarklasanum, fyrir sinn þátt í að samtökin komust á koppinn. Þau tóku virkan þátt í undirbúningsferlinu og veittu samtökunum myndarlega styrki. Verkefnastjóri Matarauðs Íslands sér samtökin taka að hluta til við þeim áherslum Matarauðs að þétta samvinnu smærri framleiðenda og mynda þannig hreyfiafl til framfara, ásamt því að halda á lofti íslenskri framleiðslu og matarhandverki.

Fjölbreytt flóra

Fyrsta stóra verkefnið var að koma upp vef fyrir samtökin sem er uppfærður reglulega, en þar má meðal annars finna lista yfir félagsmenn sem eru ótrúlega fjölbreyttir. Þvílík flóra af flottum matarfrumkvöðlum um land allt sem spanna allt litrófið. Við erum sífellt að rekast á nýja frumkvöðla með spennandi nýjungar. Tengingin við neytendur er svo í gegnum „likesíðu“ samtakanna á Facebook og Instagramreikning.

Afsláttarkjör og tilboð

Í gegnum samtakamáttinn höfum við getað samið um tilboð og afslætti frá ólíkum aðilum sem smáframleiðendur skipta gjarnan við, en félagsmenn geta nálgast upplýsingar um það og fleira inn á læstu svæði fyrir félagsmenn á vefnum okkar.

Jólakarfa smáframleiðenda af Héraði.  Mynd / Anna Birna Jakobsdóttir

Fjölbreyttar söluleiðir

Mikil áhersla er á að þróa og kynna söluleiðir sem eru sérstaklega fyrir smáframleiðendur, en þeim fer sífellt fjölgandi í takt við áhugann og eftirspurnina.

Stærsta samstarfsverkefnið því tengdu er með Krónunni. Það gengur út á að setja upp sérstök svæði í völdum verslunum sem eru merkt „Matarbúr hnossgæti frá íslenskum smáframleiðendum“. Árinu er skipt upp í sex tímabil. Á þessu tímabili, nóvemberdesember, eru 28 félagsmenn með samtals 95 vörur í Matarbúrinu, sem er í tveimur verslunum, Lindum og Selfossi.

Við gerðum einnig samstarfssamning við Kjörbúðina, en vinna honum tengdum hefst á næsta ári. Hann gengur út á að gera staðbundnar vörur smáframleiðenda sýnilegri í verslunum þeirra og stuðla að því að þær vörur sem framleiddar eru á hverju svæði séu seldar í þeim verslunum. Fyrirmyndin tengist Cittaslow hreyfingunni á Djúpavogi. Í Kjörbúðinni þar margfaldaðist sala þeirra vara eftir að þær voru merktar sérstaklega og úrvalið aukið.

Vinna tengd samstarfssamningi við Samtök sveitarfélaga á Suðurlandi hefst á næsta ári, en markmið hans er að auka sölu og efla söluleiðir smáframleiðenda matvæla á Suðurlandi.

Við höfum svo átt í farsælu samstarfi við forsvarsmenn Gott og blessað sem er vefverslun og lítil kjörbúð í Hafnarfirði. Þau sérhæfa sig í að selja og keyra heim vörur frá smáframleiðendum um land allt og valdar „gourmet“ vörur. Félagsmenn hafa tekið vel í þessa nýjung, á fjórða tug þeirra selja nú vörur sínar í gegnum þau.

Við erum einnig í nánum tengslum við Matarbúðina Nándina í Hafnarfirði sem sérhæfir sig í plastlausum vörum. Félagsmenn hafa einnig tekið vel í þá nýjung og selja vel á þriðja tug félagsmanna vörur sínar hjá þeim. Þau undirbúa nú opnun vefverslunar.

Nýlega ákvað vefverslunin Austurlands Food Coop – sem sérhæfir sig í innflutningi á lífrænt vottuðum ávöxtum og grænmeti – að bjóða einnig vörur frá íslenskum smáframleiðendum og hafa nokkrir félagsmenn þegar nýtt sér það, en þau eru bæði með lager á Seyðisfirði og í Reykjavík.

Á vef Beint frá býli, sem margir okkar félagsmanna sem eru á lögbýlum selja í gegnum, er hægt að senda fyrirspurn – um þær vörutegundir sem áhugi er fyrir – á þá framleiðendur sem bjóða þær vörur.

Smáframleiðendur á Norðurlandi vestra eru svo með sína eigin vefverslun í gegnum Vörusmiðjuna BioPol og keyra pantanirnar út á sérmerktum bíl smáframleiðenda sem hefur gefist afar vel.

Eins eru til bæði Facebooksíður og hópar sem eru eins konar markaðstorg, til dæmis fyrir veitingamenn sem hafa áhuga á að kaupa vörur smáframleiðenda. Má þar helst nefna hina svokölluðu REKO hringi sem ganga út á milliliðalaus viðskipti milli neytenda og smáframleiðenda. REKO Reykjavík hópurinn hefur sem dæmi verið með mánaðarlegar afhendingar frá upphafi og REKO Vesturland annan hvern mánuð. Svo má ekki gleyma því að allir félagsmenn okkar eru með eigin Facebooksíðu og oft líka Instagram og vef sem margir selja í gegnum.

Upplagt í jólapakkann og á jólaborðið

Fyrir þessi jólin hafa smáframleiðendur á ólíkum svæðum á landinu tekið sig saman og sett saman jólakörfur eða jólapakka og auglýst sérstaklega og svo eru sumir með sína eigin.

Við sendum hvatningu til félagsmanna að skoða þann möguleika, þar sem þessi jólin er lítið um matarmarkaði og hvetjum neytendur jafnframt til að styðja smáframleiðendur með að setja matvæli frá þeim í jólapakkann og á jólaborðið.

Matarhandverk

Í vor skrifuðum við undir samstarfssamning við Matarauð Íslands um að festa matarhandverk og matarhandverkskeppnir í sessi í þeim tilgangi að efla skilning á verðmæti matarhandverks og menningarlegri sérstöðu. Fyrirmyndin er Eldrimner, miðstöð matarhandverks í Svíþjóð og þeirra vottun.

Í kjölfar mikillar undirbúningsvinnu settum við saman fimm hópa, skipaða félagsmönnum sem framleiða vörur í ólíkum flokkum. Hóparnir funduðu tvisvar til að ræða markmiðin og hvernig ætti að skilgreina matarhandverk almennt og í þeirra flokki. Þátttaka var framar vonum, á fimmta tug félagsmanna tók þátt í vinnunni.

Samskipti, samstarf og samtakamáttur

Stór hluti af starfi framkvæmdastjóra er að vera í beinu sambandi við félagsmenn tengt þeim verkefnum sem við erum að vinna og svo tengt almennri ráðgjöf og stuðningi. Í gegnum þau samskipti koma svo alls kyns hugmyndir og tækifæri.

Fyrir utan póstlistann, sem er nýttur til að koma upplýsingum til félagsmanna, erum við með lokaðan Facebookhóp og ólíka Messenger hópa í kringum tiltekin verkefni, þar sem samskipti milli félagsmanna eiga sér stað. Þeir eru einnig í auknum mæli farnir að eiga bein samskipti sín á milli. Það er ómetanlegt að upplifa hvernig við eflum hvert annað með samtali, samstarfi og miðlun upplýsinga sem var einmitt eitt af meginmarkmiðunum með stofnun samtakanna.

Við fáum líka reglulega fyrirspurnir frá ólíkum aðilum sem vilja komast í samband við smáframleiðendur, til dæmis varðandi sérstök verkefni og verkefnahópa sem verið er að mynda, sameiginleg tækjakaup og slíkt og höfum þá getað haft milligöngu um það. Eins hefur verið töluverður áhugi á að fá samtökin sem samstarfsaðila á styrktarumsóknir.

Mikill ávinningur hefur svo náðst af nánum og góðum samskiptum við aðila eins og Eldstæðið – sem er atvinnueldhús fyrir matarfrumkvöðla og smáframleiðendur – en allir þeirra framleiðendur í dag eru félagsmenn.

Styðja og efla félagsmenn

Margir félagsmenn SSFM hafa stigið stór skref í sinni framleiðslu til að geta nýtt þær söluleiðir sem fjallað hefur verið um. Í tengslum við það keyptum við sem dæmi skjal og leiðbeiningar frá Matís sem auðveldar fólki að reikna út næringargildi. Í síðustu viku buðum við upp á Zoom örnámskeið með Óla Jóns hjá Jóns markaðsráðgjöf og einstaklingsmiðaða stafræna úttekt. Í janúar 2021 kemur svo á vefinn rafræn gæðahandbók sem verður aðgengileg félagsmönnum, en hún er samstarfsverkefni félagsins og Vörusmiðjunnar BioPol, styrkt af Matarauði Íslands.

Regluverk

Við höfum einnig beitt okkur í málum eins og örsláturhúsamálinu, en tveir stjórnarmenn sitja í aðgerðarhópi bænda því tengdu og verkefnastjóri þess situr í ráðgjafaráði.

Þá höfum við líka beitt okkur í máli sem snýst um það að bændur sem eru með nokkra fiska í tjörn eða vatni á sínu landi eru skilgreindir sem fiskeldisstöð og heyra undir sama regluverk og stóru sjókvíaeldin og þurfa að greiða hátt í hálfa milljón í leyfisgjald. Við höfum bent á að í Svíþjóð þurfi ekki einu sinni að sækja um leyfi. Þar stunda fjölmargir bændur eldi í tjörnum og vötnum og vinna svo verðmætar handverksafurðir úr fisknum.

Þess ber einnig að geta að við erum á lista yfir umsagnaraðila og fáum því, þegar við á, beiðnir um að skila inn umsögn og erum kölluð inn á fundi sem hafa með okkur að gera, eins og mótun landbúnaðarstefnu.

Skilningur á mikilvægi smáframleiðenda

Við lítum björtum augum til framtíðar. Áhugi og eftirspurn eftir vörum smáframleiðenda eykst stöðugt sem og skilningur fólks á mikilvægi þeirra til að tryggja framþróun, fjölbreytni og fæðuöryggi í landinu, draga úr kolefnisspori, stuðla að byggðafestu, fjölga atvinnutækifærum og halda á lofti matarhandverki sem er hluti af menningararfinum okkar og endurspeglar hefðir og samtíma nýsköpun.

Á listanum eru fjölmörg mál og tækifæri sem við ætlum okkur að nýta og tengjast meginmarkmiði samtakanna sem er að stuðla að öflugra samstarfi og auknum samtakamætti smáframleiðenda matvæla um land allt og megin tilganginum sem er að vinna að hagsmunamálum smáframleiðenda matvæla á öllum sviðum, vera málsvari þeirra og stuðla að framförum í málefnum sem þá varða.

Oddný Anna Björnsdóttir,

framkvæmdastjóri SSFM,

ssfm.is.

Skylt efni: Smáframleiðsla

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...