Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Saga tannburstans
Á faglegum nótum 9. desember 2016

Saga tannburstans

Höfundur: Jóhannes F. Halldórsson

Tannburstar eru sjálfsagður hlutur í okkar lífi og vonandi lífi allra. Colgate-hárin renna um munn okkar daglega, stökk hár, mjúk hár, græn hár, gul hár, barnaburstar, burstar með gúmmígómbursta á annarri hliðinni, keyptir í kippum á heimilið og allir hafa sinn lit til aðgreiningar frá hinum.

Tannburstinn er einfalt verkfæri. Notandinn áttar sig á hvernig hann er notaður um leið og hann sér fyrirbærið. Kannski vegna þess að hann er bara prik, sem forfeður okkar notuðu eflaust til að sækja maura sér til matar í trjástofna. Virknin svipuð líka, við skiptum bara maurunum út fyrir Karíusi og Baktusi. Hvernig byrjaði þessi vegferð sem varð að svo sjálfsögðum hlut?

Fundist hafa leifar af forvera tannburstans frá því um 3500 f. Krist. Þetta var einfaldlega trjásprek sem Babýlonar tuggðu á, útleggst líklega á íslensku sem tuggusproti. Sprotinn hefur einnig fundist í egypskum grafhýsum frá um 3000 f. Krist og eru ritaðar heimildir til frá Kínverjum frá því árið 1600 f. Krist. Grikkir og Rómverjar til forna eru taldir hafa notað tannstöngla við sína tannhirðu.

Eftir því sem við komum nær okkur í tíma fer að færast fjör í leikinn. Elsti burstinn með hárum sem fundist hefur er kínverskur og er frá tíma Tang-keisaraveldisins (690–907). Burstinn var framleiddur úr bambus og svínshárum frá kaldari svæðum Kína og Síberíu, þar sem svínum vaxa stífari burstir. Tannburstinn barst svo með ferðalöngum á 16. öld frá Asíu til Evrópu þar sem aðferðin við tannhirðuna var að nudda sótuga og salt tusku við tennurnar.

Bretinn William Addis er talinn eiga heiðurinn af fyrsta fjöldaframleidda burstanum í Evrópu í kringum 1770. Honum leiddist fangelsisvist sem hann sat af sér og ákvað að tuskuaðferðin væri léleg og hannaði því bursta úr beini og fangavarðahárum. Þessi frumgerð varð síðar fyrirmynd að fjöldaframleiddri vöru eftir að tukthúsvist hans lauk.

Fyrsti Ford T-bíllinn skreið af færibandinu árið 1908, um svipað leyti voru menn að átta sig á því að plastburstar væru sniðugri en dýrahársburstar sem héldu lengi í sér vatni og bakteríum. Á þessum tíma var fjöldaframleiðsla á burstum komin á í Evrópu og Ameríku og eftirspurnin að aukast þrátt fyrir að tannburstun hafi ekki orðið almenn á bandarískum heimilum fyrr en eftir seinna stríð þar sem hermönnum var skylt að bursta daglega.

Burstinn hefur síðan eftir plastbyltinguna fengið alls konar upplyftingu. Nefna má straumlínulagaðri handföng, löng hár á köntunum og styttri fyrir miðju til að ná að hjúpa tönnina betur, fjaðrandi framenda, gúmmí til að kitla tannholdið og svo mætti lengi telja. Til marks um mikilvægi burstans var hann valinn sú uppfinning sem Bandaríkjamenn mættu minnst við að missa árið 2003.

Tannburstinn á sér sem sagt langa sögu þrátt fyrir að láta lítið fyrir sér fara og hér var bara stiklað á stóru. Við eigum forfeðrum okkar mikið að þakka að við getum í dag vaknað með Colgate-bros á vör og farið með hreinar og fínar tennur út í daginn.

Halldór Laxness segir í Alþýðubókinni að hefði hann efni á að gefa öllum Íslendingum tannbursta, mundi hann gera þjóðinni meira gagn en þótt hann skrifaði handa henni ódauðleg ljóð.

Skylt efni: tannbursti | Stekkur

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...