Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Haustlitir á reyniviði geta verið mjög fjölbreytilegir og nokkuð misjafnt hvenær einstök tré klæðast haustlitum. Þetta getur skapað mikla litadýrð þar sem mörg reynitré standa í nágrenni hvert við annað.
Haustlitir á reyniviði geta verið mjög fjölbreytilegir og nokkuð misjafnt hvenær einstök tré klæðast haustlitum. Þetta getur skapað mikla litadýrð þar sem mörg reynitré standa í nágrenni hvert við annað.
Mynd / Pétur Halldórsson
Á faglegum nótum 28. júní 2022

Reyniviður

Höfundur: Skógræktin

Reyniviður, Sorbus aucuparia, er um margt sérstætt tré. Til dæmis myndar reyniviður hvergi samfellda skóga þótt hann hafi verið á Íslandi frá því löngu fyrir landnám.

Sú tilgáta er ekki rétt að reyninn skorti sambýli við jarðvegsörverur og því þurfi hann að lauma sér milli annarra trjáa til að þrífast vel. Hjá reynivið og mörgum öðrum lauftrjám eru þessar örverur inni í rótunum frekar en utan á. Líklegra er að þetta tengist dreifingarmáta hans með fuglum eða sjúkdómum á borð við reyniátu, sem geta magnast upp í köldum árum þar sem reynitré vaxa þétt saman.

Reyniviður þroskar ber sem eru heldur beisk og ókræsileg í munni mannfólks en þeim mun eftirsóttari hjá þeim fuglum sem hafa ávexti að eftirlætisfæðu, sérstaklega skógarþrestinum og þeim frændum hans sem nú fjölgar í landinu, svartþresti og gráþresti. Þessum fuglum er helst að þakka aukin útbreiðsla reyniviðar á Íslandi ásamt lengri sumrum og minnkandi beit. Ræktaðir skógar eru kjörin svæði fyrir fræ úr reyniberjum að spíra og vaxa upp. Þangað sækja fuglarnir og losa sig við fræin með driti sínu. Latneska tegundarheitið aucuparia er dregið af orðunum avis sem þýðir fugl og capere sem þýðir að fanga. Reyniviður hlaðinn berjum þótti veiðimönnum upplagður til að laða að fugla og fanga á haustin.

Reyniviður er oftast fremur smávaxið tré, en nær allt að 15 metra hæð hérlendis. Vaxtarlagið er fjölbreytilegt, allt frá margstofna runna upp í beinvaxin, einstofna tré með mjög misbreiða krónu. Mismunandi vaxtarlag getur stafað af erfðum en líka þeim aðstæðum sem tréð vex upp við, hvort það verður fyrir áföllum og greinist í marga stofna eða fær frið til að vaxa beint upp í loftið. Í skógi vex ungur reyniviður gjarnan hratt og beint upp til að teygja sig í ljósið.

Reyniviður blómstrar í lok maí eða í júnímánuði eftir aðstæðum og árferði. Blómklasarnir eru til mikillar prýði á trjánum og blómin ægifögur í návígi einnig.

Reyniviður þakkar vel fyrir sig ef hann fær að vaxa í frjósömum jarðvegi. Hann fer snemma að blómstra, gjarnan um tíu ára aldur, en þar með dregur úr vexti hans því blóm á greinaendum taka fyrir vöxt úr viðkomandi sprota. Vaxtarþrótturinn geldur fyrir orkuna sem fer í að þroska blóm og aldin. Jafnframt ýtir blómgunin undir að greinar skipti sér og tréð þéttist.

Reyniviður vex um allt land en þar sem hann er af rósaætt þykir beitardýrum hann afar gómsætur. Tegundin var því sárasjaldgæf á Íslandi um aldir en tórði helst þar sem skepnur náðu ekki til, í gilskorningum, á klettasnösum og í stórgrýttum urðum. Frægur er reyniviðurinn í Nauthúsagili undir Eyjafjöllum og sömuleiðis reynirinn í Möðrufellshrauni í Eyjafirði sem mikil helgi var á í katólskum sið. Hugsanlegt er að þessar tvær hríslur hafi verið einu reyniviðirnir á Suður- og Norðurlandi í byrjun 19. aldar og að önnur reynitré hafi einungis leynst í kjarrinu á Vestfjörðum og Austurlandi. Möðrufellsreynirinn var einhvers staðar sagður formóðir flestra reynitrjáa norðanlands og reynitré af þeirri ætt eru sögð hafa verið gróðursett við Alþingishúsið. Sunnanlands eiga mörg tré í görðum ættir að rekja í Nauthúsagil.

Reyniviður hefur verið ræktaður í görðum hérlendis frá 1824 en á upphafsárum skógræktar á Íslandi kringum aldamótin 1900 var talsvert flutt inn af dönskum og norskum reyniviði. Þetta eykur á erfðafjölbreytni tegundarinnar, sem var takmörkuð fyrir, vegna fárra trjáa sem eftir tórðu í náttúrunni. Ekki er að sjá að danski og norski reyniviðurinn sé frábrugðinn þeim íslenska í aðlögun, enda uppruninn sá sami, þ.e. fræ frá norðurhluta Skandinavíu sem þrestir bera með sér suður á bóginn í fari sínu að hausti. Þótt farið stefni nokkurn veginn beint suður, flækjast fuglar oft til Íslands, t.d. allstórir hópar gráþrasta flest haust.

Styrkleikar reyniviðar eru margir. Hann þolir vel vind og frost, hefur talsvert þol fyrir salti og til styrkleika verður líka að telja blómin snemmsumars og berin og litadýrðina á haustin. Viðurinn er harður en tiltölulega léttur, hefur sérstæðan lit og er góður til smíða þótt ekki hafi að ráði verið hugað að því að rækta beinvaxin og uppkvistuð reynitré á Íslandi til að uppskera alvöru smíðavið.

Helsti veikleiki reyniviðar er áðurnefnd reyniáta sem tegundin er útsett fyrir, ekki síst þegar trén taka að feyskjast og eldast. Vert er að klippa ekki reynivið frá síðsumri og fram á vetur heldur síðla vetrar eða snemma vors til að hindra smit.

Úr reyniberjum og eplum til helminga má búa til hlaup sem er gott meðlæti með hátíðarmat.

Skylt efni: Skógrækt | reyniviður

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...