Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
VW Passat Variant GTE Premium.
VW Passat Variant GTE Premium.
Mynd / HLJ
Á faglegum nótum 28. apríl 2017

Rafmagns, bensín VW Passat GTE

Höfundur: Hjörtur L. Jónsson
Æ fleiri eru farnir að skoða kosti þess að vera á rafmagnsbílum, en sérstaklega á þetta við um fólk sem ekur að jöfnu stuttar vegalengdir flesta daga ársins. 
 
Mitt mat á rafmagnsbílum er að það þarf í þá annaðhvort bensín eða dísilmótor sem tekur við af rafmagninu þegar rafhlaðan tæmist. Þannig er VW Passat GTE, en hann býður einnig upp á að báðir mótorarnir séu í gangi þegar þess er þörf.
 
Margar mismunandi stillingar á vél og krafti
 
Þegar ég tók við bílnum hjá Heklu á Laugaveginum sagði mælaborðið mér að rafhlaðan væri nánast fullhlaðin og á rafmagninu einu kæmist ég yfir 40 km, en á bensíntanknum væri eldsneyti fyrir tæplega 200 km akstur. Ég ákvað því að taka léttan hring um Reykjanesið og sjá hvernig bíllinn reyndist. 
Á beinum veginum í átt að Kleifarvatni, þar sem umferð var lítil, gafst gott tækifæri til að prófa snerpu bílsins með mismunandi stillingum og krafti. E-mode.
 
Á rafhlöðunni einni var bíllinn frekar latur í viðbragði, en algjörlega hljóðlaus fyrir utan veghljóðið í grófum vetrardekkjunum. 
 
Ef ýtt er aftur á E-mode þá fer bíllinn í stillingu sem er hybrid. Þá eru bensínvélin og rafmagnsmótorinn að vinna saman. Þetta gerir bílinn aðeins snarpari í viðbragði og akstri.
 
Sé ýtt enn einu sinni á E-mode takkann þá er bensínvélin í gangi og hleður inn á rafhlöðuna sem bíllinn notar sem aflgjafa í þessari stillingu. Í þessari stillingu er bíllinn að eyða svolítið af bensíni.
 
Fremst við hliðina á gírstönginni er takki sem heitir GTE. Ef ýtt er á hann þá vinna saman undir fullu afli rafmagnsmótorinn og bensínvélin og skila samanlagt 217 hestöflum. Í þessari stillingu er bara gaman að keyra bílinn. Urrandi kraftur og frábært viðbragð, en mínusinn er að eyðslan fer töluvert upp.
 
Heggur aðeins á slæmum malarvegum
 
Við Kleifarvatn var ég búin með rafmagnið og greinilegt að ég hafði verið of eyðslusamur á það með mínum þunga hægri fæti. Eftir að ég hafði stillt á GTE takkann var bara einfaldlega svo gaman að erfitt var að sætta sig við færri hestöfl en sá takki bauð upp á. 
 
Á beygjukaflanum við Kleifarvatn fannst mér ég vera á fullmikilli ferð, en bíllinn hreinlega var eins og límdur við malbikið í beygjunum rétt eins og góður sportbíll. 
 
Við Vatnsfellið er tæplega tveggja km kafli sem er ekki með bundið slitlag og yfirleitt með miklum holum. Þegar ég kom inn á malarkaflann var ég á um 90 km hraða og strax tóku við stórar og djúpar holur sem fjöðrunin tók ágætlega. Mér fannst bíllinn frekar of stífur á mölinni þrátt fyrir að vera á 17 tommu felgum með þokkalega belgmiklum dekkjum í stað 18 tommu dekkja og felga eins og hann á að vera á. Það hefði örugglega verið enn meiri högg ef bíllinn hefði verið á 18 tommu felgunum, en mín reynsla er að sé felgustærð minnkuð um bara eina tommu þá er munurinn ótrúlega mikill þegar kemur að akstri á möl.
 
Þægilegt að ferðast í bílnum og rými alls staðar mikið
 
Í framsætunum er gott að sitja, fótarými gott og sætin þægileg. Það sama á við um aftursætin og er mjög gott pláss fyrir þrjá í aftur­sætaröðinni. 
 
Ókostir eru ekki margir, en undir lægsta punkt er frekar lágt og í bílinn vantar varadekk þar sem það er ekki pláss undir hleranum að aftan vegna stærðar rafhlöðunnar.
 
Þegar ég skoðaði í farangursrýmið sá ég að þar var tjakkur og gat ekki annað en brosað, því að upp í hugann kom að ef dekk ­springur er hægt að tjakka bílinn upp og taka dekkið undan. Ætli það sé svo meining hönnuðar bílsins að keyra svo á tjakknum á næsta dekkjaverkstæði til að láta gera við dekkið? 
Ég var hrifinn af dráttarkróknum sem er að öllu jöfnu undir bílnum, en með því að ýta á einn takka kemur hann niður og læsist.
 
VW Passat er með leiðsögukorti sem kemur upp í mælaborðið fyrir framan bílstjórann. Á því er hins vegar sá galli að samkvæmt lögum á að vera með ljós allan hringinn allt árið. Þegar ljósin á þessum bíl eru kveikt í dagsbirtu dofnar landakortið í mælaborðinu svo mikið að varla sést á það. Ef ljósin eru slökkt þá sést aftur á móti vel á landakortið.
 
Ljúfir tæpir 140 km 
 
Eftir þennan prufuakstur, sem var rétt tæpir 140 km, var ég bara sáttur og ánægður með bílinn. Þó að eyðslumælirinn hafi sagt að ég hafi verið að eyða rúmlega 5 lítrum að bensíni á hundraðið, veit ég upp á mig skömmina fyrir að hafa verið með bílinn of mikið í GTE stillingunni sem er svo skemmtileg. Bensínmótorinn er 156 hestöfl og rafmagnsmótorinn er 115 hestöfl og þegar þeir eru báðir að vinna saman skila þeir 217 hestöflum niður á veg.
 
Þrátt fyrir að verðið sé 5.950.000 tel ég að ef ekið sé af skynsemi á þessum bíl er eldsneytissparnaðurinn fljótur að borga upp bílinn.
 
Hægt hefði verið að hafa skrifin um þennan bíl töluvert lengri, en fyrir þá sem vilja fræðast meira um bílinn þá er það hægt á vefsíðunni www.hekla.is.

7 myndir:

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...