Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Mánadætur.
Mánadætur.
Á faglegum nótum 5. mars 2018

Ræktunarmarkmið fyrir íslenska sauðfjárstofninn uppfærð

Höfundur: Eyþór Einarsson ábyrgðarmaður í sauðfjárrækt hjá RML
Ræktunarmarkmið fyrir íslenska sauðfjárrækt voru samþykkt af fagráði í apríl árið 2012. Þar með voru skilgreind markmið fyrir hvern eiginleika og stofninn í heild í samræmi við þá stefnu sem fylgt hefur verið um alllangt skeið.  Jafnframt voru settar fram „leiðir til að ná settum markmiðum“ og þar undir nefnd nokkur verkefni sem leggja skyldi áherslu á að yrðu unnin.
 
Fyrir liggur að endurskoða þurfi ræktunarmarkmiðin og þann verkefnalista sem þeim fylgir þar sem sumt á ekki lengur við og annað þarfnast uppfærslu.
 
Almennt um ræktunarmarkmiðin
 
Í stuttu máli má segja að markmiðið sé að rækta frjósamar ær sem bera að jafnaði ekki færri en einu lambi veturgamlar og tveim lömbum eftir það. Að ærnar séu mjólkurlagnar og mjólki vel tveimur bráðþroska lömbum. Lögð er áhersla á vaxtarhraða og bráðþroska í sumarhögum.  Rækta skal þéttholda en bollangt fé, þannig að skrokkarnir séu kjötmiklir og hæfilega feitir og staðið sé vörð um bragðgæðin.  Varðandi ullina er aðaláherslan á hvíta ull, gæði og magn.  Viðhalda skal öllum helstu sérkennum íslensku sauðkindarinnar (litir, ferhyrnt fé, frjósemiserfðavísar), gæta að nauðsynlegum erfðabreytileika í stofninum og leggja áherslu á heilbrigði og endingu fjárins. 
 
Við höfum náð árangri í auknum og bættum afurðum líkt og glögglega má sjá ef skoðuð er sú þróun sem átt hefur sér stað í afurðum eftir hverja kind samkvæmt niðurstöðum skýrsluhaldsins.  Hlutfall vöðva í lambsskrokknum hefur að öllum líkindum aukist mikið á síðustu árum.  Holdfylling og þá ekki síst þykkt bakvöðvans hefur aukist umtalsvert og fitan hefur minnkað líkt og niðurstöður EUROP matsins og ómmælinga staðfesta ef skoðuð er þróun frá síðustu aldamótum. Framfarir sem ættu að gera dilkakjöt að hagkvæmari og betri vöru fyrir afurðastöðvar og neytendur.  Við getum verið stolt af íslensku sauðkindinni sem þolir vel samanburð við erlend fjárkyn þegar horft er til lambakjötsframleiðslu.
 
Það eru þó ýmis sóknarfæri í því að gera betur. Til að mynda er á mörgum búum mikil tækifæri fólgin í því að ná fleiri lömbum til nytja og kannski aldrei mikilvægara en nú þegar afurðaverð hefur hrapað að reynt sé að hafa sem mest út úr hverjum framleiðslugrip. Þá er fullt tilefni til að ætla að vaxtarhraða og mjólkurlagni megi bæta mikið, en verið er að rannsaka þá eiginleika og skoða hvernig megi þróa kynbótamat fyrir þunga.  Þá hafa nýlegar rannsóknir sýnt að ekkert bendir til þess að við séum komin að endastöð í ræktun fyrir þykkari bakvöðva. 
 
Til að geta fetað áfram veginn í vali fyrir auknum afurðum verður að teljast æskilegt að vera vel á verði gagnvart þáttum sem lúta að endingu, heilbrigði og kjötgæðum í víðum skilningi. Þættir sem hafa áhrif á hagkvæmni framleiðslunnar, ímynd hennar og gæði.  Því eru nokkur af þeim áhersluverkefnum sem nefnd eru hér að neðan liður í því að afla gagna og þekkingar svo fylgja megi eftir þeim fögru fyrirheitum sem ræktunarmarkmiðin kveða á um.  
 
Helstu breytingar
 
Í núverandi ræktunarmarkmiðum er litið svo á að á Íslandi sé eitt fjárkyn og því rætt um forystufé sem undirstofn.  Í grein sem birtist í Náttúrufræðingnum árið 2015 ritaðri af Jóni Viðari Jónmundssyni, Lárusi G. Birgissyni, Sigríði Jóhannesdóttur, Emmu Eyþórsdóttur, Þorvaldi Kristjánssyni og Ólafi R. Dýrmundssyni er lagt til að litið verði á forystufé sem sérstakt fjárkyn.  Þessi tillaga var síðar studd af fagráði í sauðfjárrækt og staðfest af Bændasamtökum Íslands.  Því er litið svo á í dag að á Íslandi séu tvö fjárkyn.  Því þarf að uppfæra núverandi ræktunarmarkmið með hliðsjón af þessari breytingu.  Þá er í kaflanum „leiðir til að ná settum markmiðum“   nefndar viðbætur sem þyrfti að gera á skýrsluhaldinu s.s. að endursetja litalykil og birta upplýsingar um vaxtarhraða, sem hvorutveggja hefur verið framkvæmt.
Þar sem fjallað er um skrokk- og kjötgæði í ræktunarmarkmiðunum er tilgreint að „stefnt skal að því að nær allir innlagðir dilkar fari í holdfyllingarflokk R eða betri, þar af 40% í holdfyllingarflokka E og U.  Lagt er til að þetta mark fyrir E og U verði hækkað í 60% í ljósi þess að í dag er 35% – 40% dilka sem ná þessu marki.
 
Áhersluverkefni næstu ára
 
Hér á eftir eru listuð upp verkefni sem fagráð leggur til að bætt verði við kaflann „Leiðir til að ná settum markmiðum“  og eru þá verkefni sem stefnan er að leggja áherslu á næstu misseri og ár.
 
  • Setja þarf upp áætlun sem felur í sér vöktun á þáttum sem lúta að kjötgæðum (þ.m.t. þáttum sem tengjast bragðgæðum).  Skilgreina þarf hvaða þætti mikilvægast er að horfa á og skilgreina viðmiðunargildi fyrir íslenskt lambakjöt.  Skoða þarf hvort ástæða sé til að breyta áherslum varðandi fituflokkun með hliðsjón af niðurstöðum kjötgæðarannsókna.
  • Endurbæta þarf kynbótamat fyrir skrokkgæði með því að nýta gögn úr líflambadómum og þar með gera kynbótamatið öruggara.
  • Vinna þarf að því að teknir séu upp undirflokkar EUROP kjötmatsflokkunarkerfisins við mat á dilkakjöti svo nákvæmara mat fáist á framleiðsluna.  
  • Unnið skal áfram að þróun kynbótamats fyrir fallþunga.
  • Hvetja þarf til aukinnar skráningar á fullorðinsþunga áa, m.a. til þess að hægt sé að fylgjast með því hvernig sá eiginleiki er að þróast í stofninum.
  • Skoða þarf hvaða þættir hafa mest áhrif á endingu ánna út frá skráningum á förgunarástæðum og athuga áhrif erfða á þá eiginleika.
  • Skoða þarf með hvaða hætti er hægt að nýta upplýsingar um burðarvandamál í ræktunarstarfinu.
  • Kanna þarf möguleika á nýtingu erfðamengisúrvals í sauðfjárrækt og huga að uppbyggingu gagnabanka af DNA sýnum.
  • Unnið skal að rannsóknum á erfðagallanum bógkreppu.  Þróa þarf DNA-próf svo arfgerðargreina megi gripi m.t.t. gallans og vinna þannig að útrýmingu hans.
  • Stefna ber að þróun DNA-prófs fyrir hinu svo kallaða Lóugeni svo hagnýta megi þennan stórvirka frjósemiserfðavísi í ræktunarstarfinu á sama máta og Þokugenið.
  • Til að stuðla að bættum ullargæðum, skal reynt að auka úrvalið af hrútum á sæðingastöðvunum sem eru hreinhvítir eða vel hvítir með góða og mikla ull.
Opinn fagráðsfundur
 
Þann 2. mars stendur fagráð í sauðfjárrækt og Landsamtök sauðfjárbænda fyrir opnum fagráðsfundi þar sem mörg áhugaverð erindi verða flutt sem tengjast sauðfjárrækt.  
 
Ræktunarmarkmiðin verða tekin þar til umræðu og þar verður því tækifæri fyrir þá sem vilja hafa áhrif á áherslur í ræktunarstarfinu að koma sínum sjónarmiðum á framfæri.  Skoða má núgildandi ræktunarmarkmið inn á heimasíðu Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (www.rml.is).
„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...