Mynd/buskap.no Julie Føske Johnsen við legusvæði kálfa.
Fræðsluhornið 17. mars 2020

Prófun á „SmartCalfCare“ kálfa-kúa-stíu lofar góðu

Sigtryggur V. Herbertsson, ábyrgðarmaður í bútækni hjá RML, og Anna Lóa Sveinsdóttir ráðunautur, rekstrar- og umhverfissvið RML
„SmartCalfCare“ (hér eftir skamm­stafað SCC) er hugmynd sem þótti best í uppfinningakeppni landbún­aðarins í Noregi 2019. Þetta er fyrirkomulag þar sem mjólkur­kýr sem mjólkuð er í mjalta­þjóni og kálfur hennar geta átt samneyti. 
 
Við stíuna eru nemastýrð að­gangs­hlið, annað sem hleypir kúnni inn og hitt sem hleypir henni út. Í stíunni er svæði þar sem kýr og kálfur geta átt samneyti og enn innar í stíunni er kálfasvæði sem er lokað fyrir kýrnar. Þar er legusvæði, mjólkurfóstra og kjarnfóðurbásar fyrir kálfa. SCC stía í prófun er 14x5 m að stærð. 
 
Hugmyndin er lausn sem leitar við að auðvelda þörf fyrir samneyti kýrinnar og kálfsins innan ramma nútíma mjólkur­framleiðslufyrirkomulags. SCC er samvinnuverkefni í Noregi milli Mjólkursamlagsins Tine, Norska Dýralæknasambandsins, FK Agri, Sambands lífrænnar framleiðslu Norsøk, Rannsóknarbús NMBU í Ås, Maurstad Holding og DeLaval.
 
Það er of snemmt að álykta en hingað til hafa prófanir á SCC virkað í nútímafjósum með mjaltaþjóni. 
Prófun fer fram á rann­sókn­ar­búi NMBU (norski landbúnaðarháskólinn) við Ås í Noregi þar sem Julie Føske Johnsen fer fyrir rannsókninni. Julie segir í norska landbúnaðarblaðinu Buskap frá fyrstu athugunum sem fer þar fram með 3-4 pör. 
 
Fyrirkomulagið er að kýr og kálfur ganga saman í stíu fyrstu þrjá dagana eftir burð áður en prófun hefst. Kálfarnir þurfa að vera tiltölulega jafngamlir (10 daga mismunur) og planið er að mæðgin séu í SCC stíu í fjórar til sex vikur eftir burð. Hugsunin er að vambarstarfsemi kálfsins væri komin vel í gang áður en hann er skilinn frá móður. 
 
Mynd 2: Aðgangsstýringarhlið. Heimild: www.buskap.no.
 
Ekkert fyrir kúna í SCC stíunni
 
Rannsóknin er sett upp þannig að kýrnar hafi ekkert í SCC stíuna að sækja nema fyrir samneyti. Kýr hefur hvorki aðgang að fóðri eða vatni heldur nýtir kýrin stíuna eingöngu vegna móðureðlisins, að gá að kálfi sínum. Prófunin hefur sýnt að kýr geta komið í heimsókn allt að tíu sinnum á sólarhring. Mest er að gera í SCC stíunni á morgnana en þá voru að jafnaði flestar mæður á sama tíma inni í stíunni. Samneyti kúnna og kálfanna er í formi þess að kýrnar standa og sleikja kálfinn meðan hann sýgur hana. Ekki er komið bráðabirgðamat á mjólkurupptöku kálfanna en vaxtarhraði þeirra er um 1400 grömm á sólarhring. 
 
Málamiðlanir
 
Þó að SCC prófunin nái að fullnægja náttúrulegri hegðun um samneyti kýrinnar og kálfsins er nauðsynlegt að vera með málamiðlanir þess efnis. Kýr og kálfur fá ekki tækifæri til að hvílast saman, sem er þeirra eðli. Sýnir það sig best í því að þeir legubásar fyrir kýrnar sem eru næst legusvæði kálfa eru vinsælastir meðal mæðranna. Kýr og kálfur fá heldur ekki að éta saman líkt og þau myndu gera á beit. 
 
Þrepaskipt aðskiljun
 
Með nemastýrðu hliði inn í SCC stíuna er auðveldlega hægt að stýra aðgang móður að kálfi. Það að venja undan er framkvæmt þannig að í fyrstu er kúnum neitað um aðgang á nóttunni (frá kl. 21 til kl. 06) í tvo sólarhringa. Í tvo sólarhringa þar á eftir fá kýr og kálfur bara að vera saman á morgnana og á kvöldin. Tvo næstu sólarhringa fá kýr og kálfur eingöngu að hittast á morgnana. Að lokum er kýrinni neitað inngang inn í stíuna en þau geta snert hvort annað í gegnum milligerði í þrjá sólarhringa áður en kálfur er færður burt. Þá á eftir að rannsaka betur aðskilnaðinn með upptökum og atferlisrannsóknum. 
 
Mynd 3: Legusvæði kálfa næst legubásum kúa. Heimild: www.buskap.no.
 
Viðbótarfóður allan tímann
 
Kálfarnir hafa aðgang að kjarnfóðri og mjólkurfóstru ásamt heyi og vatni allan tímann á meðan prófun er og er athugað sérstaklega að kálfarnir séu byrjaðir að éta kjarnfóður áður en aðskilnaðarferlið fer af stað. Þar sem kálfar hafa sogið mæður sínar er tiltölulega lítið hlutfall af mjólk sem þeir hafa fengið úr fóstrunni fram að aðskilnaði en verður meiri í takt við minna samneyti við móður. 
 
Samkvæmt Julie munu, í næsta prófunarholli kúa og kálfa, kýrnar fá að fara í mjaltaþjón áður en þær fá aðgang að SCC stíunni til kálfanna. Annað sem einnig verður tekið tillit til er að venja af mjólk nokkru eftir aðskilnað frá móður til að minnka álag kálfa fyrir breytingum. 
 
Fyrsta kálfs kvígur geta verið áskorun
 
Ein fyrsta kálfs kvíga í prófuninni var léleg að mæta til mjalta í mjaltaþjón og var með leka. Rannsóknir geta því sýnt að það sé ákveðin áskorun að vera með fyrsta kálfs kvígur í SCC. 
 
Rannsakendur héldu fyrirfram að það gæti verið vandamál að kálfarnir myndu elta mæður sínar út úr SCC stíu. Það kom einungis fyrir í nokkur skipti þegar kálfar voru við leik við útgönguhlið og kýrnar hafi þá ýtt þeim með sér út úr stíunni. 
 
Ekki hefur verið skoðuð árásar­girni kúa gagnvart fólki eða kálfum. Þó hefur verið lögð til viðbót við hönnun á SCC stíu að bæta við mannopi. Að kálfur sjúgi aðra en móður sína hefur ekki verið vandamál fram að þessu og einungis sjáanlegt í nokkur skipti.
 
Leitar til sjóða til áframhaldandi prófana
 
Julie leggur áherslu á að verkefnið sé í þróunarferli og ekki hægt að gera upp tölfræðilegar greiningar á gögnum ennþá. Kýrnar eru með virknimæla sem skrá m.a. jórturtíma og svo er einnig mikið af gögnum úr mjaltaþjóni, kjarnfóðurbási og mjólkurfóstru. Einnig eru atferlisrannsóknir, myndbönd, vigtargögn og fleira sem á eftir að vinna með. Þá hefur verið sótt um í sjóði með áframhaldandi prófanir á rannsóknarbúinu á Ås ásamt hjá nokkrum öðrum bændum. 
 
Skrifað upp úr grein í Buskap_1/2020, bls 30-31,
af heimasíðu buskap.no. 
 
Innskot höfunda:
Þetta er spennandi verkefni sem er í gangi í Noregi sem vert er að fylgjast með. Margt í þessu er órannsakað, eins og neikvæð áhrif þess að takmarka vatn við kýrnar og eins að setja þær ekki inn í stíuna eftir mjaltir, t.d. fyrir 1. kálfs kvígur. Það eru ekki svo langt síðan eggjaframleiðsla breytti um framleiðsluaðferð í framleiðslu á eggjum úr hamingjusömum hænum, nú í dag þykir það sjálfsagt. Hægt er að fylgjast með prófuninni á heimasíðu verkefnisins - https://www.smartcalfcare.com/.  Áhuga­samir um prófun hérlendis eru beðnir að hafa samband við ráðunauta RML.