Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Verðlaunahafar úr flokki mislitu hrútanna. Í fyrsta sæti systkinin frá Mel sem áttu flekkótta djásnið í fyrsta sæti. Ingveldur í Rauðanesi 3 skartaði goltóttum gæðagrip og Emma Sól á Leirulæk kom með fallegan gráan hrút.
Verðlaunahafar úr flokki mislitu hrútanna. Í fyrsta sæti systkinin frá Mel sem áttu flekkótta djásnið í fyrsta sæti. Ingveldur í Rauðanesi 3 skartaði goltóttum gæðagrip og Emma Sól á Leirulæk kom með fallegan gráan hrút.
Mynd / ATB
Á faglegum nótum 15. nóvember 2016

Mýrahrúturinn 2016

Höfundur: Jón Viðar Jónmundsson
Eftir að sýningahald á fullorðnum gripum er nánast aflagt í sauðfjárræktinni, enda tilgangslítið í samanburði við aðrar aðferðir, hefur sums staðar, þar sem heilsufar gripa leyfir, verið teknar upp samanburðarsýningar lambhrúta, uppskeruhátíðir, seint á hausti þegar skoðun lamba á viðkomandi svæðum er lokið. 
 
Reynslan er að kenna okkur að þetta eru félagslega mikilvægar samkomur og sem jafnvel hafa ákveðna ræktunarlega þýðingu.
 
Vestustu þrír gömlu hrepparnir í Mýrasýslu tóku upp slíkt sýningahald fyrir nokkrum árum og sá sem penna stýrir hér kynntist þessum ágætu samkomum þeirra þá. Sunnudaginn 23. október var blásið til slíkrar samkomu í Lækjarbug. Röðun sýningargripa önnuðust dómararnir Kristbjörn Steinarsson og Jón Viðar Jónmundsson. Skipting gripanna í sýningarflokka var sú sama og á hefðbundnum svæðum stærri sýninga. Samtals voru sýningargripirnir 36 sem þarna voru. Hér á eftir er stuttlega greint frá athyglisverðustu gripunum. 
 
Lamb nr. 58 best af þeim kollóttu
 
Kollóttu hrútarnir voru fæstir og mögulega einnig vegna þess í heild lakastir að gæðum þó að allt væru þetta góð lömb. Besta lambið í þeim hópi var dæmdur hrútur nr. 58 í Lækjarbug, ákaflega jafnbyggt og vel gert lamb. Hann er sonur Serks 13-941 sem í haust sáir glæsilegum sonum sínum vítt um land en móðurfaðir hans er Snarfari 09-860. 
 
Mislitu hrútarnir voru flestir stórglæsilegir
 
Mislitu hrútarnir voru flestir stórglæsilegir einstaklingar. Þessi hópur lamba hefur tekið heljarstökk í framförum á allra síðustu árum með mikilli fjölgun slíkra hrúta á stöðvunum og ekki síst vegna áhrifa afkomenda Grábotna 06-833, Kveiks 05-865 og Fannars 07-808 og í framhaldinu dökku hrútanna. Má því orðið vænta slíkra gripa á slíkum sýningum hvar sem er. Einn slíkur kom fram þarna á sýningunni sem var lamb 29 á Mel. 
 
Þessi hrútur hafði nánast alla þá kosti sem glæsigripi klæða auk þess að vera fádæma fallega flekkóttur þannig að hann er í hópi mestu glæsigripa sem gefur að líta. Síðan féll hann nákvæmlega að ættarmunstrinu sem fjallað er um að framan. Faðir hans er Salómon 10-906 og móðurfaðir hans Grábotni 06-833. Fróðlegt verður að fylgjast með þessum snillingi og fleiri jafningum hans sem borið hafa fyrir augu á þessu hausti.
 
Ákaflega glæsilegir hvítir hyrndir hrútar
 
Hópur hyrndu hvítu hópanna var ákaflega glæsilegur. Þar stóðu efstir einir fimm hrútar sem hvern sem eru hefði mátt með lagni rökstyðja sem besta grip. Voru þeir þessir:
 
Lamb 141 sem taldi sér heimili að Skúlagötu 7 í Borgarnesi, en þetta var samanrekinn holdahnykill en ekki stór kind. Faðir hans var veturgamall hrútur kominn austan frá Hafrafellstungu.
 
Lamb 453 á Háhóli var einnig samanrekið vöðvabúnt, sérstaklega voru læraholdin frábær. Faðir þessa lambs var frá Hesti en hrútar þaðan hafa skapað gríðarlegar framfarir í fé á þessu svæði eftir að opnaðist fyrir kaup á gripum þaðan fyrir um áratug.
 
Frá Skiphyl komu tvö úrvalslömb, 6023 sem var fádæma holþétt og vel gert lamb með gríðarlega mikil einkenni ræktunarfestu en hann var líkt og fleiri toppar haustsins sonur Garra 11-908 en með ólíkindum er hvað mikið af toppum er að birtast undan honum miðað við litla notkun síðasta vetur. Hitt lambið var 6156, þrælvænn hrútur og mjög vel gerður en varla alveg jafn fastholda og þeir sem áður eru nefndir. Faðir hans var veturgamall heimahrútur, sonur Saums 12-915, ekki óþekkt ætterni það. 
 
Að lokum skal nefna lamb 11 í Leirulæk. Þetta lamb var tröll að vænleika, fádæma sterkbyggt og vel gert en, eins og vænni Skiphylshrúturinn, það skrokkmikill að þeir náðu ekki að vera eins holdum klæddir og minni hrútarnir. Þessi er sonur Barkar 13-952 sem er ein af rísandi stórstjörnum stöðvanna. Öll þessi fimm lömb eru metfé að gerð.
 
Mýrahrúturinn 2016
 
Besti hrúturinn og þar með Mýrahrúturinn 2016 dæmdist lamb 6023 á Skiphyl. Þetta lambadjásn er ræktunarafrek og eigendur vel komnir að heiðrinum, varðveislu hins glæsilega farandgripar næsta árið. Bæta má við til viðbótar því sem áður er sagt að þetta lamb er í móðurætt ættað frá Hesti og Haukatungu syðri 2 þannig að einstök holdfylling kemur ekki á óvart í ljósi upprunans.
 
Samkoma þessi var gríðarlega vel sótt. Þarna mætti stór hluti íbúa af fjölda bæja á þessu svæði og gerðu sér glaðan dag við umræður um afrakstur haustsins. Ekki síst var unga kynslóðin fjölmenn þarna og skemmti sér við að raða upp á sínum forsendum nokkrum skrautlegum gimbrum sem fengið höfðu far á sýningarstað. Þetta var því sannkölluð menningarsamkoma eins og þær geta bestar orðið á fallegum haustdegi og aðstandendum til ákaflega mikils sóma.
 

8 myndir:

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...