Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Sigurðar Ingjalds­sonar (1845–1933)
Sigurðar Ingjalds­sonar (1845–1933)
Á faglegum nótum 17. desember 2019

Mér datt ekki í hug að hræðast

Höfundur: Vilmundur Hansen

Ævisaga Sigurðar Ingjalds­sonar (1845–1933) er hetjusaga alþýðumanns þar sem segir frá miklum mannhættum og erfiðleikum til sjós og lands. Þar njóta sín vel tilþrif og frásagnargleði höfundar sem kallaður hefur verið Münchhausen Íslands. Sigurður lýsir hversdagslegum atburðum sinnar tíðar af nákvæmni naív­istans sem slær hér einstakan tón fegurðar og tærleika í skrifum sínum.

Í seinni hluta bókarinnar er höfundur kominn til Vesturheims. Lesandinn fer þar með Sigurði bæ af bæ og kynnist þjóð sem ferðast með „treini“ eða „kar“ en ber nöfn eins og Borgfjörð, Dalmann, Suðfjörð og Goodmann. Sjálfur veiðir Sigurður „rabita“ í skóginum en „kattfiska“ í vötnum.

Bændablaðið grípur hér ofan í frásögn Sigurðar af heimsókn að bænum Horni á Hornströndum en söguhetjan er þá háseti á þilskipi.

Með flösku af víni að gefa karli

„Nú fórum við þrír í land, ég og tveir aðrir, maðurinn sem var málkunnugur karli, var einn. Skipstjórinn fékk okkur flösku af víni til að gefa karli. Við rerum í land og lentum í stórri vör rétt fyrir neðan bæinn og var hallandi brekka upp að bænum og sáum við þrjá eða fjóra fiskihjalla fulla af allslags fiskæti, fiski, hákarli, lúðu, flökum, höfuðkinnum, rafabeltum. Við vorum undrandi að sjá þvílíka björg í einum stað, en þegar við komum heim á hlaðið urðum við ekki síður undrandi að sjá björgina þar. Þar voru fjölda margir pokar af alls konar kornmat, og svartfugl, þau ósköp, okkur datt í hug að fólkið þyrfti ekki að vera svangt. Ég hefi aldrei séð þvílíkt bjargræði saman komið.

Gerðum við boð eftir Stíg bónda, kom hann, en við heilsuðum honum kurteislega, og tók hann því vel. Þegar ég virti þennan mann fyrir mér, sá ég að ekki hafði verið skrökvað að hann væri mikilmenni, hann var hár en leyndi hæðinni, hann var svo gildur og afar herðabreiður. Ég hafði heyrt að hann væri mjög fríður sýnum, en ekki fannst mér hann vera það nema í meðal lagi, enda var hann orðinn roskinn.
Hann spurði okkur að heiti og hvernig stæði á ferðum okkar, og sögðum við honum það allt greinilega, sögðumst hafa komið að gamni okkar að sjá hann, sagði hann að það væri ekki svo nýtt að menn kæmu að sjá gamla Stíg. [. . . ]

Sigið í Hornbjarg

Við sögðum skipstjóra og öllum að karl vildi lofa okkur að síga og hjálpa allt sem hann gæti til þess og yrðum við að fara í land snemma daginn eftir. Allir urðu glaðir yfir þessu, því alla langaði í egg og til að sjá hvernig þetta væri allt lagað. Við vöknuðum snemma um morguninn og fórum í land; þegar í land kom, var Stígur kominn á fætur og tók vel á móti okkur, og kallaði á marga menn. [. . . ]

Við vorum allir undrandi að sjá þennan óskapa fuglafjölda og voru þó sumir af okkur búnir að vera við Drangey, en þeir sögðu, að það væri enginn fugl þar hjá þessum ósköpum.

Guð sé lof festi!

Þegar við vorum búnir að virða þetta fyrir okkur, sögðu Strandamenn að við skyldum gera bæn okkar, og lögðust allir flatir á bjargsbrúnina og báðust fyrir í hljóði og signdi svo hver maður sig og festarnar og buðu hver öðrum góðar stundir og var sagt: „Guði sé lof festi“. Þetta sögðu allir. Svo fóru sigmenn að binda sig og útbúa; þegar það var búið, fór hver flokkur út af fyrir sig, bæði skipsmennirnir, og þeir sem ég var með. Þeir voru 10, og hét Jónatan þeirra sigmaður, og átti heima í Furufirði á Ströndum. Var það besti sigmaður og ákafamaður mikill. Þetta fólk var allt aðkomandi, og tvær stúlkur í þeim hóp. [. . . ]

Mikil er hýran ykkar!

Þegar sá tími var kominn að fólkið vildi borða miðdegisverð,var sigmaður dreginn upp og farið að borða. Þá gaf það mér nógan mat, egg, flatbrauð og smjör, því mig minnir að ég hefði ekki mat með mér. Þá spurði Jónatan mig um margt, og hvað „hýran“ (kaupið) okkar væri mikil á skipinu. „Já mikil er „hýran“ ykkar svo að við höfum ekki heyrt annað eins,“ sögðu þeir. Margt var það sem þetta fólk spurði mig um, og gat ég sagt því frá mörgu, sem það vissi ekki um, og þótti því vænt um og sagðist hafa mikla skemmtun af mér. Líka hafði ég gaman af málfærinu þess. Mér fannst það svo skrítið. Mér þótti þessi dagur skemmtilegur, það var glaða sólskin og hiti, og gekk vel að fá eggin, því sigmaðurinn var svo góður. Alltaf var fært sig suður eftir bjarginu, það sagði að eggjatekjan væri með seinasta móti, því fuglinn hefði orpið svo seint af því vorið hefði verið kalt. [. . . ]

Mér datt ekki í hug að hræðast

Kom þá skipstjóri að máli við mig og biður mig að fara í land undir bjargið og skjóta nokkra fugla, því ég hafði byssu mína með mér og skotfæri, hafði hana þegar ég gat. Ég hafði sagt þeim að ég kynni að skjóta en þeir höfðu enga byssu. Ég sagðist skyldi reyna þetta og var settur út skipsbáturinn og sagði hann tveimur mönnum að róa með mig í land, og sagði að ég ætti að sitja aftur á en þeir róa. Ég hlóð byssu mína áður en við fórum, svo lögðum við af stað. Skipið kastaði akkeri, svo reru þeir. En ég sat aftur á og heyrðum við að þeir á skipinu hlógu svo mikið að okkur; ég þóttist vita að þeir væru að hlæja að mér, héldu að ég væri ekki mikil skytta. Nú reru þeir eins og ég sagði þeim, og voru stórir hópar af fugli á sjónum en vont að skjóta fyrir kvikunni, ég sagði þeim að stansa, sagðist ætla að reyna að skjóta, og skaut og lágu þrír fuglar. Við tókum þá og þá hættu þeir á skipinu að hlæja.

Sagði ég þeim að róa upp undir bjargið og var vont að lenda fyrir brimi, ég lét annan manninn vera í bátnum skammt frá landi en við fórum fast upp að bjarginu, hlóð ég byssuna og skaut á hillu skammt frá, sem var full af fugli eins og allar hillur voru. Ég hafði nokkra í skoti, sem duttu niður. Ég hlóð, en á meðan ég var að hlaða fylltist hillan aftur, því allir flugu við skotið, en þegar þeir komu aftur, veltu þeir þeim dauðu ofan.

Alltaf var maðurinn, sem með mér var, á nálum, hann var svo hræddur við hrun úr bjarginu, og að þarna kæmi steinn, við skyldum vara okkur. Ég sagði það væri þýðingarlaust að láta svona, því ef það ætti að hitta okkur steinn þá gerði hann það, hvernig sem við reyndum að forða okkur. Mér datt ekki í hug að hræðast.“

Bókin kom upphaflega út frá hendi höfundar í þremur bindum á árunum frá 1913 til 1933. Árið 1957 voru fyrstu tvö bindin endurprentuð og hafði Freysteinn Gunnarsson umsjón með útgáfunni. Sagan öll er nú í fyrsta sinn prentuð í einni bók en skrif þessi hafa í meira en öld hlotið afburðadóma. Útgefandi er Sæmundur.

     

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...