Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Wilfrida Olaly segir að kýrnar hennar mjólki núna nærri því tvöfalt meira en þær gerðu áður en hún breytti um fóðrun þeirra úr maís blöðum og stönglum í gras.
Wilfrida Olaly segir að kýrnar hennar mjólki núna nærri því tvöfalt meira en þær gerðu áður en hún breytti um fóðrun þeirra úr maís blöðum og stönglum í gras.
Mynd / Sophie Mbugua.
Á faglegum nótum 12. mars 2019

Konur í Kenía sneru á þurrkinn

Höfundur: Snorri Sigurðsson
Síðasta sumar var veðurfarslega afar óvenjulegt og urðu bændur víða í norðurhluta Evrópu fyrir miklu tjóni vegna úrkomuleysis, sem orsakaði lakari uppskeru en vænta mátti.
 
Að búa við úrkomuleysi er nokkuð sem bændur víða annars staðar á hnettinum þekkja vel og hefur búskapur víða aðlagast að þeim veðurfarsaðstæðum sem algengar eru á hverjum stað. Aukin þekking, kynbætur á plöntum og búfé og almennar framfarir hafa samhliða bætt lífskjör bænda víða um heim og sérstaklega einmitt í þeim löndum sem eru veðurfarslega erfið. 
 
Kýr oft fóðraðar á afgöngum
 
Víða í Afríku og Asíu er kúabúskapur og mjólkurframleiðsla ein helsta tekjulind bænda en fullyrða má að í meirihluta tilfella séu kýr þó afar illa nýttar, þ.e. geta þeirra til mjólkurframleiðslu. Skýringin felst fyrst og fremst í rangri fóðrun og uppeldi kúnna en einnig vali bænda á gróffóðri. 
 
Löng hefð er fyrir því að rækta matvæli fyrir fólk á ökrum bændanna og nýta svo það af plöntunum, sem ekki er tækt til manneldis, og gefa það nautgripunum. Oft er um að ræða blöð og stöngla maísplöntunnar en þetta gróffóður er oftast með léleg fóðurgæði fyrir nautgripi og þó svo að gripirnir geti nýtt fóðrið og umbreytt í kjöt og mjólk er geta þeirra mun meiri og vannýtt. Svo þegar úrkomuleysi kemur ofan í kaupið verður þetta gróffóður enn verra og varla tækt.
 
 
Wilfrida Olaly
 
Eitt þessara landa, þar sem fóðrun nautgripa er með framangreindum hætti, er Kenía í Afríku. Þar horfir þó til breytinga eftir að kúabændur þar í landi, sem alloft eru konur, tóku sig til og breyttu um búskaparhætti. Ein þessara kvenna er Wilfrida Olaly sem rekur kúabú í Mahuroni í Kisumu sýslu í Kenía. Þar hefur hún rekið bú sitt síðan 1998 en átti alltaf í erfiðleikum þar sem nyt kúnna var lág en það breyttist þegar hún ákvað að taka þátt í verkefni á vegum bandarískrar þróunarstofnunar.
 
Þetta verkefni, sem sérstaklega var sett á laggirnar til þess að efla þekkingu og reynslu kvenna í landbúnaði í Kenía, fólst fyrst og fremst í því að kenna þeim að nota sterkar og hitaþolnar grastegundir sem þegar voru fyrir í Afríku en ekki hefð fyrir því að nota sem gróf-fóðurgjafa fyrir nautgripi.
 
Rækta sérstakt gras
 
Með þátttöku í verkefninu kynntist Olaly nýjum búskaparháttum og hóf ræktun á annars vegar grasgerð sem heitir Boma Rhodes, sem er afar harðgert og þolir einstaklega vel úrkomuleysi. Þetta gras er mest notað til beitar og heyframleiðslu. Hins vegar fór hún að rækta gras af gerðinni Brachiaria sem stundum er kallað „undragrasið“ en þessi grastegund barst til Afríku frá Brasilíu. Grasið hentar vel til fóðrunar kúa og breiðist nú hratt út meðal kúabænda í Afríku og er af mörgum talið muni gjörbreyta möguleikum bænda í heimsálfunni til þess að afla sér og sínum aukinna tekna. Ólíkt maís, sem er uppskorinn einu sinni á ári, þá gefa þessar sérstöku grastegundir af sér nýtanlega uppskeru á fjögurra mánaða fresti.
 
Selja núna gróffóður
 
Eftir að Olaly fór að gefa kúnum betra gróffóður nærri tvöfaldaðist mjólkurframleiðslan og fór úr því að vera um 4 lítrar á dag eftir kúna í 7 lítra á dag. Þetta er reyndar alls ekki mikil dagleg mjólkurframleiðsla miðað við íslenskar kýr en engu að síður gjörbreyting fyrir Olaly og aðrar konur sem tóku þátt í verkefninu. Verkefnið gekk reyndar svo vel hjá henni og öðrum stallsystrum hennar að þær framleiða nú fóður fyrir aðra kúabændur og fá tekjur af fóðursölu, nokkuð sem var óhugsandi fyrir örfáum árum.
 
Umhverfisvænni kýr
 
Það er athyglisvert að ein af röksemdum þess að kúabændur í Afríku eru nú hvattir til þess að fara í framleiðslu á þessum sterku og harðgerðu grastegundum er m.a. vegna umhverfisáhrifa nautgripa. Flestir vita það að nautgripir losa töluvert metan við jórtrun og það hefur skaðleg áhrif á umhverfið en með því að auka nyt kúnna lækkar hlutfallsleg metanframleiðsla við hvern framleiddan lítra af mjólk. Ríkisstjórnin og umhverfissamtök eru því áfram um að bændurnir hætti að fóðra kýrnar í takti við hefðirnar og skipti yfir í nútímalegri fóðrunaraðferðir.
 
Stofna samvinnufélög
 
Það er gömul saga og ný að samvinnufélög bænda hentar afar vel þegar horft er bæði til sameiginlegra kaupa og til sameiginlegrar sölu afurða. Í Kenía eru til mörg slík félög bænda en hlutverk margra þeirra hefur breyst á undanförnum árum. Dæmi um það er samvinnufélagið í Lukuyani þorpinu í Kakamega sýslu, en þetta samvinnufélag hefur 30 félagsmenn og þar af eru 26 þeirra konur. Þetta samvinnufélag var fyrst stofnað til þess að sjá um innkaup á fóðri fyrir kúabændur á svæðinu, en hefur nú breytt um hlutverk og sér um að selja hey frá þessum sömu bændum, eftir að þeir breyttu um búskaparhætti.
 
Lýðveldið Kenía er í austurhluta Afríku og á land að Indlandshafi. Það var hluti af breska heimsveldinu til 12. desember 1963 þegar landið lýsti yfir sjálfstæði. Þótt landið virðist lítið í samanburði við hina risastóru Afríku, þá er það samt rúmlega fimm sinum stærra en Ísland, eða 580.367 ferkílómetrar. Íbúar eru líka örlítið fleiri, eða rúmlega 49 milljónir. 
 
Sterkara samfélag kvenna
 
Víða í Kenía sjá konur um landbúnaðinn og karlarnir vinna utan bús og fram til þessa skiluðu búin afar litlum tekjum þrátt fyrir mikla vinnu kvennanna. Tekjur þeirra voru ekki nema brot af því sem karlarnir í samfélaginu unnu sér inn og staða þeirra eftir því síður góð. Nú horfir hins vegar til breyttra tíma í þessum efnum samhliða aukinni mjólkurframleiðslu og jafnvel sölu á heyi til viðbótar. 
 
Hin breytta staða hefur gert Olaly einnig kleift að víkja frá búi sínu og nú nýtir hún m.a. tímann í að ferðast um landið og kenna öðrum bændum hvernig þeir geti, eins og hún gerði, breytt um búskaparhætti og stórbætt nýtingu landsins og kúnna.
 
Byggt á grein Sophie Mbugua: Cash Crop: Women Farmers in Kenya Beat Drought With Native Grass.
„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...